Þegar maður bakar köku og kaupir klósett á sunnudegi!
Svona sunnudagar sko. Þvílík afslöppun, það var akkúrat EKKERT gert. Ekki Jack. Nema smá göngutúr með hundinum og litlu frænku (nýju uppáhalds) í tæplega tvo tíma. Og svo bakaði ég köku, eða ég ætlaði að baka köku. Og bakaði svo köku á endanum. Ég varð nefnilega fyrir vægu áfalli þegar það uppgötvaðist að það væri ekki til nógu mikið af sykri. Ég þarf svo mikinn sykur til að geta hugsað. Þessvegna gat ég ekki bara minnkað sykurinn í uppskriftinni, því þá hefði ekki verið heil brú í hausnum á mér restina af deginum. En ég átti púðursykur, en þar sem ég er hinn mesti auli í eldhúsinu, þá hafði ég ekki hugmynd um hvort púðursykurinn myndi bragðast eins og púðursykur í kökunni og leitaði því ráða.
Það var ok að nota púðursykur, kakóið myndi nefnilega yfirgnæfa púðursykursbragðið. Þá fattaði ég að ég átti ekkert kakó. Hvað notar maður í staðin fyrir kakó í skúffuköku? Jú, malað kaffi (alls ekki heilar kaffibaunir), púðurlakkrís,workcestersósu og 6 muldna súputeninga (þótt Borgfirðingar séu alfarið á móti því). Þá kom þessi ekta skúffuköku litur í ljós.
Kremið er mest flórsykur, vanilludropar og rauðvínsedik (þetta þykka til að gera gljáa á mat).
Heima hjá okkur eru skúffukökur alltaf borðaðar í hest (sjá mynd). Daginn eftir er hesturinn svo kláraður.
En stuttu eftir að ég bakaði þessa köku, deildu facebookarvinirnir uppskrift af annarri skúffuköku, alveg óháða minni. Nema ef ég hefði séð hana fyrr, þá hefði ég ekki þurft að vera með þetta vesen útaf púðursykrinum. Hérna er þessi uppskrift. Mín er að sjálfsögðu mikið betri og mín uppskrift er ekkert að flækja málin.
-> Öllu blandað saman og hrært á fullu <-
Þessi uppskrift var fengin hjá Heiðu heitinni þegar við unnum saman á Vonarlandi árið 1993. Ég held að ég hafi bakað hana tvisvar, eða tvöhundruðþúsund sinnum. Því eina sem ég breyti er smjörið í kreminu. Heilinn í mér þarf meira smjör, svona ca. 150-200grömm. Heiða var alveg með þetta og sérstaklega aðferðina. Hentar mér fullkomnlega.
Annars bið ég velvirðingar nú þegar á að hafa sagst vinna á Vonarlandi (heimili fyrir fólk með fötlun). Í dag er þetta nafn alveg stranglega bannað. Í dag er þetta ekki til. Ef þið sjáið mig hlaupandi á flótta undan hóp af fólki, þá eru það þroskaþjálfar Íslands að elta mig til að hlekkja mig ævilangt í rakri dýflissu í dimmum kastala.
Á meðan ég bakaði, fóru frænkurnar á heimilinu að horfa á þætti. Þær horfðu á 21 þátt í sömu seríu. 21 þátt?
Vaskur horfði á brot úr 17 þáttum. Stundum mörg brot.
Og ég sem er búin að vera afskaplega ánægð með sjálfa mig. Ég byrjaði nefnilega að horfa á þætti í haust, já í fyrsta skipti á Netflix (hef horft á þætti í sjónvarpinu áður, Húsið á sléttunni og svona á RUV og DR1) og valdi ég Mad Men. Ég byrjaði í lok september og er núna komin á season 4 af 7. Ég er semsagt búin að horfa á 45 þætti á fimm mánuðum. 9 þætti á mánuði. Meira en 2 á viku. Mér finnst það mjög mikið. Með þessu áframhaldi verð ég umþaðbil ár að horfa á alla Mad Men, ef ekki mikið meira því það er sumarfrí og hiti inn í þessu. Þegar ég set þetta svona upp, þá er þetta eiginlega ekkert afrek. Ég tek þessa þætti líklega með mér í gröfina. Amen. Nema ég læri af frænkunum og taki 21 þátt á einum sunnudegi!
Á meðan þær horfðu á 21 þátt, fórum við hjónin og sjoppuðum klósett. Hvað er rómantískara á sunnudegi en að taka upp kortið og borga klósett sem fólk á eftir að kúka í? Nema hvað, Fúsa fannst þetta ekkert rómantísk verslunarferð. Hann sagði að ég hefði verið ósanngjörn við afgreiðslustrákinn. Alltaf er ætlast til að manni að vera stillt. Kræst. Ég vildi bara vita meira um hönnunina, hvernig væri fyrir stelpur að pissa í klósettið? Ha stelpur, sagði strákurinn. Já hvort það væri hægt að pissa hljóðlaust í klósettið? Ha hljóðlaust? apaði strákurinn eftir mér. Já, ég vildi pissa hljóðlaust. Hvort það væri hægt? Já örugglega, svaraði strákurinn. Ertu ekki viss, spurði ég. Jú, hann hélt það. Ég spurði hvort það væri skilaréttur, ef það væri ekki hljóðlaust? Eitthvað garantí? Hann fór að hlæja og sagði nei. Ég spurði hvort ég væri algjerlega réttlaus??? Fúsi sagði mér að hætta og keypti klósettið.
Ef þið haldið að ég sé spennt að prófa, þá er það misskilningur. Ég kvíði alveg óskaplega fyrir, því ef það er ekki hljóðlaust, þá get ég EKKERT gert í því. Verð bara að lifa með því eins og þessum þáttum… í möööörg ár.
Góða nótt