Bílar án dekkja, með dekkjum og Hondur
Það sem maður getur nú stundum staðið og predikað um að maður láti nú ekki bjóða sér hvað sem er. Að maður hafi viss réttindi og þá erum við auðvitað að tala um launa og mannréttindi. Að standa á sínu. Að láta ekki troða á sér.
En hvað gerist svo þegar á reynir? Segir maður nei? Nei, maður segir ekki nei. Maður lætur nánast allt yfir sig ganga og sjálfsvirðingin brotnar í þúsund mola. Ég lenti í þessu í dag. Ég var þvinguð upp í bíl. Citroen Berlingo. Vesalings sjálfsvirðingin mín. Ég stóð við hjúkkuskólann í morgun, beið eftir að verða sótt og þá kom þessi bíll.
Mér var vinkað og bent á að setjast inn. Ég hikaði, eðlilega. Hurðinni var hrundið upp og mér boðið brosandi góðan daginn: „sestu inn“. Áfram tvísté ég en á endanum settist ég inn. Klukkan var orðin 7.15 og því bjart úti. Það sem mér leið ílla. Fljótlega féll ég reyndar í mók því eins og allir vita, þá er óbærilega heitt í þessum bílum. Auk þess er eitthvað andskotans pluss áklæði á sætunum sem gerir það að verkum að maður límist við sætin og það er ekki nokkur leið að færa sig um millimeter. Niðurlægingin var algjör.
Þetta var ekkert ólíkt tilfinningunni þegar ég var í verknámi í heimahjúkruninni í Tinglev. Sveitafélagið þar réði yfir arargrúa af Suzuki Wagon og þremur Grand Vitara. Það mátti bara nota Grand Vitara í sveitirnar en ég var mest innanbæjar og þurfti því að sætta mig við Wagoninn.
Ég segi það satt, ég hafði alltaf yfirvaraskegg frá Tiger með í töskunni minni og kolsvört mafíusólgleraugu. Þetta setti ég á mig um leið og ég fór inn í bílinn. Svo að engin sæi að ég væri ég. Mér var svo meinílla við þessa bíla að ég þjösnaðist eins og glæpamaður á flotta undan lögreglunni. Reyndar er engin lögga í Tinglev, svo ég gat svosem verið óáreitt í hlutverkaleik í 7 vikur. Ég kúplaði ekki einu sinni þegar ég skipti um gír. Það var hvort er eð allt svo laust að framanverðu svo hann var eiginlega bara sjálfskiptur. Ég danglaði bara í gírstöngina.
Nú haldiði að ég þoli ekki bíla. Mesti misskilningur. Ég elska bíla. Þeir þurfa bara að vera á dekkjum. Þessir að ofan eru ekki á dekkjum. Ég sé þau allavega ekki. Hjólbörurnar mínar myndu drífa lengra.
Ég elskaði allar Hondurnar mínar fjórar með tölu. Ég sá eftir Hondunni sem við skildum eftir á Íslandi í yfir áratug. Ég er bara nýbúin að jafna mig. Eins komu tár og allt þegar ég sagði bless við hvítu Honduna eftir 10 ára samveru.
Já ég er stórhrifin af bílum. En ég tékka alltaf á tegundinni áður en ég sest inn. Þessar tvær að ofan eru sársaukafullar. Einnig Hyandai. Og ég tala nú ekki um Fiat Multipla!!! ÉG MYNDI ALDREI ALDREI ALDREI SETJAST INN Í MULTIPLA:
Nágranni minn á svona bíl, ég myndi frekar láta mér blæða út (ef ég t.d. sagaði af mér löppina með limgerðisklippunum) heldur en að láta hann skutla mér á Slysó. Aldís segist frekar fara á hlaupahjóli til Aarhus heldur en í svona bíl. Ég horfi aldrei inn í innkeyrsluna hans.
Mætti ég frekar biðja um jeppa. Einn svartan ef ég er í Danmörku. Einn á stórum dekkjum ef ég er á Íslandi. Minnst 38 tommu væri fínt. Allavega það stór dekk að ég þyrfti að grípa í handfangið í dyrakarminum og vippa mér inn. Helst svartan líka á Íslandi en það er ekki aðalatriðið. Ég fæ alveg gæsahúð. Ef einhver vill fá pásu frá jeppanum sínum þegar ég kem næst í heimsókn, þá skal ég taka hann að mér. Ég lofa að kúpla þegar ég skipti um gíra.
Annars hef ég tvisvar á ævinni átt hræðilega bíla. Fyrri bíllinn var Toyota Carina station. Man sáralítið eftir henni, nema hvað hún bilaði einu sinni í Vatnsskarðinu á leið heim frá Borgarfirði. Þetta var að kvöldi til á virkum degi, um hávetur og ég var ein. Þetta var einnig fyrir tíma GSM. En aðal ástæða fyrir að ég er búin að gleyma henni, var hversu ljót hún var. Eins og allir station bílar. Hún var svo ljót að ég gat ekki farið á henni í Kaupfélagið. Eftir ca. þrjá mánuði gafst ég upp, seldi hana, keypti Hondu og slakaði á.
Hinn bíllinn var Mazda. Hún var fyrsti bíllinn okkar í Danmörku. Hin mestu mistakakaup. Hún var löng, þung og án vökvastýris og líklega ekki meira en 40 hestöfl. Einu sinni vorum við á leið heim frá Aalborg og ég keyrði. Við vorum að fara upp aflíðandi brekku og ég var komin með krampa í hægri löppina, svo fast stóð ég bensíngjöfina. Allt í einu sé ég hvar eldgömul kona á jafngömlum bíl sígur fram úr mér. Ég bilaðist. Fúsi hlær enn að því.
Einu sinni vorum við á leið heim frá Holstebro og ákváðum að fara niður Vesturströndina en þar er engin hraðbraut og því endalaus hringtorg og beygjur. Ég keyrði og fékk í kjölfarið þvílíkar harðsperrur í efri partinn svo ég var rúmliggandi í fjóra daga á eftir. Ekkert vökvastýri muniði. Samt fórum við á henni til Póllands einu sinni. Óskiljanlegt. Síðan keyptum við Hondu og gátum chillað.
En dagurinn í dag, þetta var ekki auðvelt skal ég segja ykkur. Þegar við keyrðum út úr Vejle í síðdegisumferðinni, þar sem allt var stopp og allir höfðu nægan tíma til að virða allt fyrir sér, þóttist ég reima skóna mína í 20 mínútur. Það eru ekki einu sinni reimar á skónum mínum. Síðan keyrðum við 130 km á 5500 snúningum.
Mér er enn um og ó.
P.s. Hafið þið einhverntímann lent í því að magaskinnið verði á milli þegar þið lokið fartölvunni?