Frá Öxi til Freysness í nóvember
Þegar við fórum til Íslands síðast í nóvember, keyrðum við austur. Fyrst norðurleiðina og síðan suðurleiðina. Það var ekki nein einasta mynd tekin á norðurleiðinni því það var svartamyrkur og rigning alla leiðina til Akureyrar. Þegar þangað var komið, birti reyndar til og norðurljósin bókstaflega „gusu“ upp úr Víkurskarðinu. En þá var kl. eitt eftir miðnætti, allir dauðþreyttir eftir 3ja tíma keyrslu í Danmörku, flug til Íslands og keyrsluna langleiðina austur, auk þess var ískalt úti og engin þrífótur með í för.
En það voru önnur skilyrði á leiðinni suður. Við höfðum skilið Aldísi eftir í sveitinni og því vorum við bara þrjú á ferðinni. Tveir af þremur með bílpróf og einn af þremur með gubbupest. Við vorum að sjálfsögðu á hraðferð því okkur var boðið í mat í Keflavík. Því átti ekkert að stoppa, bara bruna beint. Eins útspekuleruð og ég nú er, þá pantaði ég ekki að keyra fyrrihelminginn, í birtunni sjáiði til.
Inn eftir Skriðdalnum var lágskýjað og ég sat bara róleg í aftursætinu og fylgdist með Skriðdælingum við gegningarnar. Hafði ekki gert neina einustu kröfu frá því að við lögðum af stað, alveg í 30 mín ca.. Þangað til rofaði til vinstra megin og í ljós komu þessir fallegu tindar í skýjahulunni. Þeir voru alveg gullfallegir og tignarlegir, alveg tilvalið myndefni í drungalegri grámyglunni. Ég fór varlega í þetta:
Ég: „Vá, þetta er ekkert smá fallegt…“
Hann: „jú jú“
Ég: „Þetta er það fallegasta sem ég hef séð í dag“ (þetta þýðir augljóslega að ég vilji taka mynd).
Hann: „já“
Ég: „ég sé þetta aldrei aftur akkúrat svona….“
Hann: „nei“
Ég: „þetta er að hverfa…“
Hann: „já“.
Ég: „Nú sé ég þetta ekki lengur, við erum komin framhjá“
Það var þarna sem ég setti upp skeifu… í aftursætinu.
Ég: „mig langaði svo að taka mynd“
Hann: „afhverju sagðirðu það ekki?“
Ég: „ég gaf það í skyn“
Hann: „hvenær???“
Ég: „áðan, þegar þetta sást“
Hann: „þú minntist aldrei á mynd…“
Hvað er að karlmönnum? Ég gaf augljóslega í skyn að mig dauðlangaði til að taka mynd. Skeifan seig enn meira og ég snökti lágt: „það var bara augljóst“
Hann: „viltu að ég snúi við“? (Við vorum komin ca. 15 km lengra).
Ég: „nei, við getum það ekkert… hálftíma töf… nei, vertu bara meira vakandi næst…“
Ég er enn að spæla mig á þessu tapaða myndefni. Ekki það að ég sé langrækin, svo ég læt þetta liggja.
Það hefur alltaf verið þoka þegar ég hef farið yfir Öxi.
Fúsi hafði því enga ástæðu til að stoppa og ég stakk bara hausnum út um gluggann eins og í gamla daga…
Og sá til þess að lungnablöðrurnar héldust opnar alla leið niður. Vissuði að það er 21% súrefni í andrúmsloftinu? Ég elska súrefni.
Eins og ég nefndi áðan, þá átti ekki að stoppa að óþörfu og ég varð því bara að vera stillt afturí og taka myndir á ferð.
Þarna var reyndar stoppað vegna veikindanna, annars væri ég ekki fyrir utan bílinn.
Ég er frekar ókunnug á þessum slóðum og því ekki með örnefnin alveg á hreinu. Kannski eru þetta Þvottárskriður eða einhverjar aðrar skriður. Allavega, það var ástæða fyrir að ég vildi ekki keyra á Suðausturhorninu, ég myndi bara keyra ofan í sjó, eða útaf í skriðum, eða utan í fjall. Mér finnst þetta allt svo fallegt. Engin tími til að keyra.
Þetta er líklega Hvalsnes, Eystrahorn -tekið á fleygiferð. Kom ekki til greina að stoppa þótt skeifan væri komin langleiðina niður á bringu.
Klukkan var að verða þrjú þarna og sólin lágt á lofti.
Þetta er einhversstaðar á suðausturhorninu. Jökull, sina og sólskin.
Já ég tók myndir í gegnum bílrúðuna. Þeim var orðið svo kalt!
En svo komum við að Jökulsárlóninu. Þar þóttist ég alveg vera í spreng… varð bara að stoppa. Og hljóp beint út í sjó.
Ég ætlaði bara aðeins að taka mynd, standandi upp á ísjaka, þá kom alda og setti allt á flot. Ég stökk af og kom mér á hraða ljóssins í land. Málið er að þegar maður horfir í gegnum myndavélargat, þá geta fjarlægðirnar brenglast. Og jú, ég skammast mín, ég var alltof köld þarna. Ekkert skárri en fólkið í Reynisfjörunni eða á Jökulsárlóninu. Ég meina, ég hefði getað eyðilagt myndavélina. En þetta er mín veika hlið, að verða mest hrædd eftir á. Eins og eftir að hafa ætt út á nöfina í Stapavík, og svo þetta. Ég fæ enn reglulega kvíðahnút í magann þegar ég er að alveg að sofna, finnst mér vera að skola á haf út eða hrapa ofan í fjöru. Eða hrapa ofan af Kirkjufellinu, takandi óteljandi máva og kríur með mér í fallinu. Alltaf hrapandi…
Þetta var stutt stopp, engin þrífótur, kalt og engin tími fyrir stillingartilraunir. En það var svo fallegt. Við gripum hreinlega andann á lofti.
Þessir ísfiskar…
Þessir voru aðeins fagmannlegri en ég. Bara aðeins.
Og þessi lét sig hafa 7-8 tíma keyrslu, oft verið hressari.
Þarna var ég einmitt standandi upp á klaka.
Það var næsta alda sem næstum tók mig. Náði því miður ekki mynd af því.
Við vorum svo heppin með veður. Klukkan er þarna um 15.30, 24. nóvember. Ég elska Ísland.
Ég reyndi að hoppa á milli jakanna á Lóninu en eitthvað liggja langstökkshæfileikarnir aftur í fortíð… Grín, ég hoppaði ekkert á milli jaka. Ég er ekki algjör…
Síðasta mynd fyrir ljósaskipti, líka tekin á fullri ferð, eða á 90km/klt.
Í Vík sáum við rétt glitta í Reynisdrangana og myrkrið skall á. Þá gat ég tekið við keyrslunni.
Þvílík upplifun að sjá landið sitt á þennan hátt. Svona brottfluttir Íslendingar eins og við verða bara meyrir.
Næst þegar ég kem, panta ég far, ef einhver er að fara keyrandi austur. Skilyrði: að hafa gott nesti með og stoppa eftir mínum óskum. Helst gista.