Bókagagnrýnin -> Öræfi, Fifty Shades og 19.öldin

Í dag ætla ég að hætta mér út í bókagagnrýni og nota hamborgaramódelið til þessa. Fyrst brauð, svo kjöt og síðan aftur brauð. Fyrst jákvætt, svo neikvætt og síðan aftur jákvætt. Meikar þetta sens? Nei, sérstaklega ekki þar sem kjötið er betra en brauðið. Skiptir samt ekki máli.

Híbýli vindanna e. Böðvar Guðmundsson (1995).

NOT799238

Já já ég er tuttugu árum á eftir en það skiptir heldur ekki máli því bókin er tímalaust snilldarverk. Ég hef aldrei sett mig neitt sérstaklega inn í sögu Vesturfarana seinni hluta 19. aldar en núna langar mig til Winnipeg. Böðvar nær að segja sögu þar sem samkenndin hellist yfir mann svo að það liggur við samviskubiti þegar ég klæði mig í Ecco skó og PP dúnúlpu til að fara með hundinn í göngutúr í kringum tjörnina. Ólafur og Sæunn voru ekki þannig klædd þegar þau gengu yfir Þrískóarheiði með Málmu litlu. Í bókinni er dauðinn á annarri hverri blaðsíðu og baráttan á hinni. Fólkið sem fór vestur var allsstaðar að af landinu og ég hef aldrei spáð í hvort einhver að mínum forfeðrum hafi verið einn af þeim sem byggðu upp samfélagið í Gimli úr engu og máttu þola pestir, frosthörkur, fluguna, hungur og fátækt. Bókin er átakanleg, fræðandi og einstaklega vel skrifuð. En þetta þarf ég ekki að segja ykkur, þið hafið væntanlega öll lesið hana. Ef ekki, þá er ekki seinna vænna.

Ég hef áður lesið bók þar sem fólk byggði upp samfélag úr engu. Hún heitir Remember me (Mundu mig) e. Lesley Pearses (2003).928940

Hún er um 18 ára stelpu í Englandi sem stelur silkihúfu árið 1786 og er þessvegna dæmd til dauða. En dómnum var breytt og Mary var ein af fleiri hundruð föngum sem voru sett um borð í fangaskip og send til fanganýlendunnar Ástralíu. Þar voru þau sett í land í ekkert. Bókin er sannsöguleg og ég elska hana svo mikið að ég á tvö eintök.

Öræfi e. Ófeig Sigurðsson (2014).Oraefi-175x265

Veit svei mér þá ekki hvort ég eigi að þora… Almenningur á facebook er alla jafna ekki hrifin, bókmenntagagnrýnendur þjóðfélagsins elska hana og greina hana í öreindir, hver öðrum gáfaðri og dýpri og hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin… Einn gagnrýnandinn segir að hún sé gamansöm og ærslafull. Kannski er hún það -bara á sinn hátt. Ég hafði gaman af henni, sérstaklega eftir að ég var búin að læra að samhæfa öndunina taktinum í bókinni. Rithöfundurinn Ófeigur, er líklegast haldin alvarlegu bráðaofnæmi fyrir punktum sem gerir að setningarnar geta verið margar blaðsíður. Í byrjun kunni ég ekkert á þetta og ofandaði svo svakalega að ég datt niður meðvitundarlaus. Maður venst þessu samt, svona getur ritstíll verið misjafn, sumir nota eins og tveggjaorða setningar í tíma og ótíma, á meðan Öræfi inniheldur oft sjöhundruðsjötíuogsjö orða setningar. Ófeigur er mikill ýkjari og segir ótrúlegar sögur af heljarmennum úr Öræfasveit. Ímyndunaraflið fer algjörlega á flug. Ég fílaði það. En mér fannst kaflinn um sjálfsvíg á Íslandi frá 16. öld til 18. öld mjög leiðinlegur. Eins sá hluti bókarinnar þegar Bernharður er í bænum og fer með Fastagesti á Cirkus (bar)… þetta eru um 100 bls og þær hafa engan tilgang að mínu mati. Alveg hrútleiðinlegt og óskaplega langdregið. Fyrir mér skiptist bókin í þrjá hluta og hafði ég gaman af þeim fyrsta og síðasta. Mér finnst svoldið skína í gegn að Ófeigur er ljóðskáld og honum eru engin takmörk sett. Ég mæli alveg með henni (munið samt ekki að lesa þessar 100 bls í miðjunni) ef þið eruð að leita að „öðruvísi“ bók. En þessi verðlaun, þau skil ég eiginlega ekki, var virkilega engin bók betri?

Fifty shades of Grey e. E.L. James (2011). Ég var svo spennt!50ShadesofGreyCoverArt

Sérstaklega eftir að ég fylgdist með Gúrlí vinnufélugu (leyninafn) í vinnunni minni lesa þær. Gúrlí er að nálgast 60tugt og las bækurnar á næturvöktunum í skjóli myrkurs. Ef ég þurfti á hjálp Gúrlíar að halda og kallaði á hana, svaraði hún: „jaaa, úha, hadadada…“ og kom eldrauð í framan inn á stofu til mín. Hún sagði að þær kítluðu svo mikið. Ég gat ekki beðið, fór beint og keypti allar þrjár. Fékk fyrirfram fullnægingu á leið heim úr Kaupfélaginu, svona svipað og ég fæ martröð um leið og ég ákveð að lesa draugabók. Þarna ætlaði ég nú aldeilis að upplifa alvöru sakleysis húsmæðraklám, alein heima eftir næturvaktirnar.

En guð minn góður, þegar stelpan, Ana, hafði bitið í neðri vörina á sér 377sinnum á fyrstu 100 blaðsíðunum hafði ég svo miklar áhyggjur af að það væri komið stórt svöðusár í andlitið á henni, að ég fann ekki fyrir neinni kynferðislegri örvun. Og þegar hún hugsaði í 1000skiptið: „lyktin af Christian, lyktin af sturtusápunni hans“, var ég löngu byrjuð að bora í nefið.

Hún er hrein mey þegar hún hittir hann og hún fær tugi fullnæginga á innan við 10 bls…

Og hún grípur andann á lofti á annarri hverri blaðsíðu… „snapper efter vejret“, „gasps for air“. Var meiningin að kála mér hægt og rólega???

Christian Grey er ótrúlega mikil væla, ókarlmannlegur og það fer kjánahrollur um mann þegar hann gengur um berfættur, í gallabuxum, ber að ofan og spilar svo á píanóið á nóttunni. Eða var það snemma á morgnana? Hún kemur svo gangandi, vafin inn í lak, að sjálfsögðu nakin. Það eru að verða þrjú ár síðan ég las fyrstu bókina svo allt með fyrirvara í sambandi við staðreyndarvillur.

Og vanillukynlíf er ekki hans bolli te. Vanillukynlíf? Ég fékk útbrot þarna.

Hvernig Christian stjórnar Ana algjörlega, fer einum of mikið fyrir feministiska brjóstið á mér. Hann gefur henni síma til að geta náð í hana hvar og hvenær sem er, skammar hana ef hún svarar ekki strax, hann kaupir fyrirtækið sem hún vinnur hjá, af einskærri ást?!?, en til að stjórnast enn meira. Hann bannar henni að djamma og djúsa, skipar henni að borða, sofa, standa, sitja og misþyrmir henni svo að hún getur ekki setið. Þessvegna fer hún frá honum síðast í bókinni. BDSM iðkendur hafa gagnrýnt þetta mikið og segja þetta ekki eiga neitt skylt við raunveruleikann. Sel það ekki dýrara en ég keypti það, en drekk alla neikvæða gagnrýni í mig eins og vatn. Auk þess eru deildar meiningar um hvort bækurnar og myndin geti haft hættuleg áhrif á fólk sem kastar sér út í BDSM. Veit nú ekki -er þá ekki alveg eins hægt að búast við að fólk fari hjálmlaust á hjólabretti niður Fjarðarheiðina?

En samt á  Ana að vera sú sterka í bókinni. Þetta plott er bara ekki að virka. Mér finnst bókin mjög langdregin, ílla skrifuð (sorrý), þvæla fram og til baka, endalausar endurtekningar og væl. Sem sagt, allt í allt… alveg hundleiðinleg. Og ég sem var svo spennt. Bók númer tvö skannaði ég á 15 mínútum og sá að það var sama sagan. Bók nr. þrjú hef ég ekki opnað. Hvort ég ætli að sjá myndina í bíó? Nei. Kannski laumuhorfi ég einhverntímann, svona svipað og þegar ég horfði á hálfa Mamma Mia myndina… bara til að staðfesta vissu mína fyrir mér og umhverfinu. Myndin getur ekki verið skárri en bókin.

Náðarstund e. Hannah Kent (2014). Ég var seld.JPV114495

Þessi bók er svo góð að ég þvingaði konu hérna í bænum til að lesa hana. Þessi Hannah sem er ekki einu sinni íslensk, lýsir aðstæðunum og fátæktinni í íslensku sveitunum á 19. öld, svo vel, að maður finnur bæði lykt og bragð (svipað og Böðvar G.). Agnes, tilfinningar hennar og hugsanir verða ljóslifandi fyrir manni, án þess að þetta verði eitthvað táraflóð. Ég grét ekkert, þrátt fyrir drungann og vonleysið. Ég þurfti að kíkja fremst í bókina til að athuga hvort hún var upprunalega skrifuð á ensku eða íslensku, því aðra eins þýðingu hef ég sjaldan lesið, ég varð reglulega orðlaus. Það er óhætt að segja að Hannah og Jón þýðandi hafi unnið vinnuna sína. Þetta er hérefter ein af mínum uppáhaldsbókum og mér ber skylda til þessa að lána hana út um allan bæ.

Ég las Náðarstund og Híbýli vindanna hvora á eftir annarri, sem ég mæli eiginlega ekki með. Þar sem hvorug bókin er brandarabók, þá ætti maður að taka eina brandarabók á milli, því vonleysið og kuldinn er svo afgerandi í þessum tveimur bókum.

Að lokum vil ég bara nota tækifærið og biðja viðeigandi lesendur um að setja „kryds í kalanderen“ þann 15. ágúst vegna afmælisins míns.

Sjáumst.

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *