Gamlinn minn að eldast…
Hér á sjálfan Valentínusardaginn er gleði og hamingja við völd. Verkefninu „Nýtt baðherbergi“ var skotið í gang í dag.
Ég var að sjálfsögðu á staðnum til að hjálpa til, eða nei, til að taka mynd.
Ég sagði: „Fúsi minn, farðu aðeins úr að ofan fyrir mig“.
Hann: „nei!“
Ég: „Láttu ekki svona drengur, það vinnur engin alvöru Íslendingur neina smíðavinnu, né garðvinnu nema ber að ofan… farðu úr peysunni!!!“
Hann: „nei!“
Það var engu tauti við hann komið. Þarna var hann alklæddur með hamar og meitil í hönd og braut og allt og bramlaði.
Annars á þessi elska afmæli eftir tvo daga. Þessi sambýismaður til 22ja ára og eiginmaður til 6 ára. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að hafa kynnst honum og lært svona mikið af honum. Hann hefur auðgað og göfgað líf mitt til muna með öllum sínum fróðleik, lélegum humor og hjálpsemi. Hann er fallegur að innan sem utan. Ég gæti bara ekki hugsað mér lífið án hans þótt hann sé á köflum alveg gjörsamlega óþolandi. Sérstaklega þegar hann er alltaf kýlandi í mig á nóttunum. Hann segir að ég hrjóti en það er bara ekki rétt. Annars er hann hinn mesti gleðigjafi (nema þegar hann les upphátt einhverjar geimvísindafréttir lon og don og verður fúll þegar ég svara bara „mmm“) og kann að gera við tölvuna mína. Hann veit ekki hvenær við byrjuðum saman og heldur ekki hvenær við giftum okkur. en í staðin man hann oftast eftir afmælinu mínu og alltaf eftir jólunum. Takk fyrir það elskan. Hann styður mig og hvetur í öllu sem ég geri og reynir reglulega að koma mér á borpall (?!?). Ég hef engan áhuga á að vinna á borpalli! En hann gefst ekki upp. Síðan sumarið 2010 hefur hann suðað í mér.
Annars er hann duglegur, skemmtilegur, klár, atorkusamur, hlýr, mikill gleðigjafi (var ég annars búin að segja það?), gull af manni, iðinn, þolinmóður, þróttmikill, gleðigjafi, skilur mig (reyndar ekki), vænn við menn og málleysingja og glaður alla daga.
Er þetta ekki örugglega orðin svona týpísk afmæliskveðja? Er ég nokkuð að gleyma einhverju?
Þetta er afmæliskveðja alveg að hans skapi (er ég alveg viss um), þótt þetta sé ekki beint afmæliskveðja þar sem afmælið er fyrst eftir 2 daga, á sjálfan bolludaginn. Þið getið eflaust reiknað út hvað hann fær á afmælinu sínu 🙂
Farin í bíó… með honum!
[…] ætla ekki að bæta neinu við afmælislofræðukveðjuna sem ég setti saman fyrir tveimur dögum, þar sem ég get ómögulega hafa gleymt einhverju. […]