Framhald af síðustu færslu (svæðanuddið muniði)
Ég reikna fastlega með að þið bíðið spennt eftir að fá að heyra um afdrif mín í gær hjá svæðanuddaranum. Eins og hver önnur nútímamanneskja fer ég ekki neitt, né geri neitt nema vera búin að googla og kynna mér málið fyrst. Ég verð nú að játa að mig rak í rogastans þegar ég sá myndirnar af nuddaranum inn á heimasíðu hennar. Á myndunum líktist hún Búlgörskum kvenkúluvarpara, 196 cm á hæð, 96 kg, krúnurökuð og með bjarnarhramma. Samt var bara andlitsmynd, en hitt var augljóst. Þannig að ég var örlítið smeik um að hún myndi mölva á mér tærnar, allar saman.
Þegar ég kom inn í bygginguna þar sem nuddarinn er til húsa, kom hún gangandi á móti mér niður langan prinsessustiga og mér til mikils léttis var hún pínu lítil, í mestalagi 164 cm og léttari en ég. Auk þess var hún ekki krúnurökuð heldur bara með hárið sleikt í konuhnút.
Hún leiddi mig inn á stofuna sína og lét mig drekka tvö glös af vatni.
Síðan lagðist ég endilöng á bekkinn hennar. Hún makaði á mig olíu og byrjaði að nudda og þrýsta.
Ég: „hvað var þetta?“
Nuddarinn: „þetta var gallblaðran“
Ég: „ok, þetta var nefnilega pínu vont“
N: „það er ójafnvægi í henni“
…Ójafnvægi í gallblöðrunni? Síðan hvenær hef ég verið með gallblöðru? Aldrei hef ég hugsað til hennar né fundið fyrir henni. Það getur ekki verið neitt ójafnvægi þar á bæ.
Ég: „en hvað var þetta?“
N: „þetta var lifrin, hún er líka í ójafnvægi, hún hefur ekkert að gera, þú ættir að bæta úr því, t.d. drekka meira gin“
Ég: „en hvað var þetta nú?“
N: „þetta er taugakerfið“
Ég: „varla er líka ójafnvægi í því“
N: „jú og væntanlega kemstu í nánara samband við tilfinningarnar þínar seinna í dag“
Já, svona hélt þetta áfram, ég spurði og hún svaraði samviskulega og alltaf var sami endirinn á svarinu; ójafnvægi.
Síðan fékk ég smá tak í nárann og spurði hana hvort hún væri þar? Ha nei, ég er í lungunum núna… Einmitt.
Ég stóðst ekki freistinguna og nefndi hjartað og mögulegt hjartastopp. Nei nei, svo hart myndi hún ekki ganga til verks. Það myndi aldrei gerast í svæðanuddi. Ég sagði henni að maður gæti aldrei verið viss, að sumt gerðist bara öllum að óvörum. T.d. var ritarinn í vinnunni minni að hjóla í roki um daginn og fauk af hjólinu og alla leið út í skurð og handleggsbrotnaði. Aldrei hefði mér dottið í hug að vindurinn gæti mögulega feykt mér af hjólinu. Núna pikkar hún bara með vinstri og hægri er beint upp í loftið.
Svæðanuddarinn fann í mér þindina, þarmana og þvagblöðruna, allt saman í ójafnvægi og reyndi síðan að sannfæra mig um að ég þjáist af alvarlegum astma. Móðurlífið var á sínum stað og tilkynnti hún mér að ég væri enn í barneign og því vissara að vera með hjálm þegar hleypt væri á skeið. Nema náttúrulega ég ætla að fara unga út fleiri rollingum.
Í lokin spurði ég hana hvort ég ætti eftir að finna fyrir einhverju sérstöku það eftir lifði dags. Já, ég vann mikið með þvagblöðruna og losun úrgangsefna, svo það er viðbúið að þú eigir eftir að pissa mikið í dag. Áður en ég fór, lét hún mig drekka tvö glös í viðbót af vatni og sagði ítrekað við mig að drekka vel þangað til ég færi að sofa. Ég gerði það. Hef aldrei á ævinni drukkið svona mikið af vatni á einum degi. Og viti menn, hún hefur aldeilis losað um úrgangsefnin því ég var sípissandi fram eftir kvöldi. Merkilegur andskoti, hun er ábyggilega göldrótt.
Í einni klósettferðinni seint í gærkvöldi tók ég mynd út um gluggann, hafði svo góðan tíma skiljiði.
Svona er bakgarðurinn okkar núna, bara hellings snjór.
Annars var vídeófundur frá skólanum í Odense seinnipartinn í gær. Verið að kynna fyrir okkur komandi námsefni og einnig að kenna okkur á vídeóforritið sem verður notað alla föstudaga fram í eilífðina (eða apríl minnir mig).
Þetta er í fyrsta skipti sem ég læri í gegnum vídeó og vá hvað þetta á eftir að henta mér. Get verið á facebook líka. Já eða skrifað mikilvægan tölvupóst…
En í gær var ég eitthvað þreytt, líklega eftir þessar fjölmörgu klósettferðir. Ef ég hefði verið með skrefateljara, þá hefði hann sýnt um 40.000 skref (taldi þau gróflega).
Svo ég bara sofnaði á vídeófundinum. Fúsa blöskraði áhuginn og eftirtektin, tók mynd, vakti mig síðan og sagðist aldrei ætla að lána mér heyrnatólin sín aftur því ég hefði getað beyglað þau. Held að hann hefði átt að einbeita sér að einhverju öðru, t.d. að brjóta saman þvottinn sem hann gleymdi að fjarlægja áður en hann tók myndina.