Bollurnar

Ég var búin að heita því að skrifa aldrei aftur matarblogg, því þau mistakast alltaf. Ekki vegna þess að ég er vonlaus kokkur, heldur vegna þess að samhæfing í eldhúsinu er fyrir neðan allar hellur. Ég get brennt kartöflur þegar ég ætla bara að sjóða þær, því ég var bara að skera grænmeti eða svara mailum (einmitt). Get varla gert tvennt í einu, hvað þá þrennt.

Ég ætla ekki að standa við þetta heit mitt í þetta sinn því ég kolféll fyrir bollum sem ein bloggsystirin setti út um daginn og einhver vinur minn deildi á facebook og ég sá. Og þar sem þetta verður matarblogg hjá mér og hún er matarbloggari, þá erum við í augnablikinu bloggalsystur. Nú fór ég fram úr sjálfri mér í bulli. Aftur að bollunum.

Þetta voru Kotasælubollur og uppskriftin er hér. Það er líka uppskrift af tómatsúpu þarna en skrollið bara yfir hana því hún er frekar vond. Ef ykkur dauðlangar í súpu með tómatbragði, getiði bara spurt mig. Ég á vangefnislega góða uppskrift af Ítalskri naglasúpu sem er miklu betri og á rætur sínar að rekja til Vattarnesvita í Fáskrúðsfirði. Baldur og Elinora voru matgæðingar DV einhverntíma á tuttugasta áratugnum og komu þá með þessa súpu. Vá, ég var að uppgötva að ég skrifaði „vangefnislega“ góða uppskrift. Þetta verð ég að leiðrétta svo ég fái ekki hálfa familíuna inn á gólf til mín, vopnaða kylfum og köðlum, því þau eru nefnilega flest þroskaþjálfar, lærð og eða sjálflærð, ásamt nokkrum sem eru þroskaheft, aðallega sjálfgreind þó. Allt saman mjög viðkvæmt mál og til að halda friðinn, tölum við um fatlaðslega góðar uppskriftir en ekki vangefnislegar. Þetta átti ég að vita, bölvuð fljótfærnin í mér alltaf hreint.

Hvert var ég komin? Já, bollurnar.

IMG_0128

Eins og ég auglýsti kyrfilega fyrir viku síðan, þá er ég búin að hella mér út í íþróttirnar. Alveg orðin óð… eða örvæntingarfull. Samt til að hafa það á hreinu, þá sé ég til þess að svitna ekki né verða ekki rauð í framan. Það er eitt af þessum lykilatriðum sem allir verða að passa upp á þegar verið er að koma sér í form. Engin sviti, engin roði -maður verður að halda virðingunni, stílnum, klassanum. Vera almennilega til fara, ekki í útþvegnum og billegum buxum. Muna glossinn og töff vatnsbrúsa!

Bollurnar! Hvurskonar einbeitningarskortur er þetta eiginlega? Já og íþróttirnar! Þetta hangir allt saman sjáiði til. Hreyfing sama sem hollt mataræði. Þessvegna bætti ég fersku spínati í þær (þá slepp ég við að gera salat, er ekki kanína), jók kotasæluna sem verður svo skemmtileg í bakstri því hún er ostur, setti helling af „fuld korni“, sem ég man ekki hvað heitir á íslensku, en það er ekki drukkið þótt það berist fram sem fúll á dönsku, þetta er bara mjög gróft og síðan gleymdi ég sesamfræjunum sem skipta hvort eð er engu máli því það meltir engin venjulegur maður þessi fræ.

Þessar bollur eru dúnmjúkar, unaðslegar og það þarf eiginlega ekki smjör á þær en það er að sjálfsögðu smekksatriði, ég set þykkt lag. Þær slá ALLTAF í gegn, alltaf (!!!) og þessvegna ómissandi í matargerðina þar sem vísitölufjölskyldan og hundurinn sameinast í gæðastund yfir pottunum og dásamar hvernig kotasælan brúnast yfir spínatinu. Ég skrifaði þetta ekki, það voru puttarnir á mér.

En þetta var ekki það eina sem var í matinn, gvuð nei, myndi aldrei gefa fjölskyldunni bara bollur í kvöldmatinn. Ég gerði hollusturétt á pönnu með kjúlla, brokkolí, gulrótum, hvítkáli og fleiru mjög hollu. Þetta var bara svo hræðilega ljótt að það kom aldrei til greina að taka mynd. Þetta var heldur ekkert gott. Það er erfitt að vera í þessarri hollustu skal ég segja ykkur og erfitt að gera marga hluti í einu. Kjúllinn var leiðinlega svartur og gaf öllu leiðinlegt brunabragð. Í eftirmat borðaði ég 100 grömm af Cadbury – Dairy Milk með karamellu. Ég þarf á mjólkuvörum að halda til að passa upp á beinin, við erum að tala um aldurinn, kynið og allt það.

Vinkona mín að benda mér á matarblogg sem væri líklega að mínu skapi. Læknirinn í eldhúsinuÉg er víst svolítið langt aftan á merinni í bloggheiminum því allir virðast þekkja þennan gaur. En ég les bara þrjú blogg og þá er mitt eigið meðtalið. Engin matarblogg á mínum lista. Annars fékk ég hugmynd út frá lækninum. Mynduð þið vilja lesa um teiknarann og hjúkkuna í eldhúsinu? Kannski með tilheyrandi myndum? Það er komin tími til að breyta til í þessu bloggi. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *