Þorláksmessa með fiskilykt

Ég er búin að vera pollróleg yfir þessum jólum síðan ég kom heim frá Íslandi um daginn, þangað til í dag… um kl. 16.30… þegar ég uppgötvaði að ég átti eftir að kaupa um það bil 9 jólagjafir og einungis ein var ákveðin. Ég hafði 90 mínútur til stefnu. Búðirnar loka kl. 19.00. Ég náði þessu, enda eins og elding í þessháttar aðgerðum ef ég fæ að vera ein. Núna eru pakkarnir komnir undir tréð og ég orðin ofur spennt. Veit tvennt. Mamma hringdi áðan og spurði hvort ég hefði nokkuð kíkt? Ég sagði já. Hún spurði þá hvað væri í pakkanum frá sér…

  • Ég: það eru meðal annars tvær bækur…
  • Hún: hvaða bækur…?
  • Ég: önnur er eftir Ófeig
  • Hún: ha já! og hin?

Ho ho ég veit núna að ég fæ Ófeig. En ég kíkti ekki… mamma límdi svo kyrfilega fyrir þá í ár. Í fyrsta skipti í mörg ár! (Hún hefur ekki gert það hingað til). En ég veit líka hvað fæ ég frá pabba. Hann er löngu búin að tala af sér -ég fæ Helga Björns!

Meira veit ég svo ekki… en vona innilega að pakkinn frá Fúsa innihaldi eitthvað ótrúlega skemmtilegt og spennandi.

Muniði eftir síðustu færslu? Um desemberósættið okkar hjóna? Nú skal ég bara sýna ykkur hvað ég er að meina… og sanna mál mitt.

IMG_9685

Ég vandaði mig þessi ósköp við aðal pakkann hans. Klæddi hann í dumbrauðann erótískan pappír, batt um hann babybláa slaufu til að viðhalda ferskleikanum, setti síðan á hann eitt epli til að narta í og eitt brómber til að krydda tilveruna. Valdi svo látlausan og fallegan merkimiða sem segir allt sem segja þarf. Þetta tók mig hræðilega langann tíma (4 daga) þar sem ég er alls engin föndurmanneskja. Búin að segja ykkur 117 sinnum að það var þessvegna sem ég lærði ekki leikskólakennarann. Get ekki handfjatlað lím né skæri. En var samt alveg ánægð með pakkann. Ég meina; það er hellings meining og hugsun á bakvið hann.

Síðan birtist Fúsi með pakkann til mín. Hafði stungið af niður í svefnherbergi til að pakka inn. Var þar í 3 mínútur. (Myndin er birt með góðfúsalegu leyfi Fúsa)

IMG_9690Já, ég vona svo sannarlega að þetta einkennilega ferkantaða spottaskrímsli innihaldi annað hvort linsu, iMac, utanlandsferð, Audi eða rándýra og gullfallega skartgripi. 3 mínútur?!?

En það þýðir ekkert að svekkja sig á þessu. Ég setti pakkann bara á bakvið jólatréð.

Annars lenti ég í hræðilegu atviki í dag. Á sjálfri Þorláksmessunni. Við fórum í skötu á sunnudaginn og ég fór í fína jakkanum mínum en hafði ekki miklar áhyggjur af lyktinni þar sem þetta var í stórum sal og opið út allan tímann. Auk þess hefur verið rigningarsuddi síðan ég kom heim um daginn. Endalaus rigning! Svo mikil að við þurftum að kaupa öflugri rúðuþurrkur á bílinn. Út af rigningunni hefur ekki verið hægt að viðra eitt né neitt.

Í dag átti svo að fara niður í Borgina (verslunarmiðstöðina) og Aldísi fannst ekki hægt að ég færi í töffarajakka, ég varð að fara í þeim fína því að það eru að koma jól. Ég fór í þeim fína. Og þegar ég var búin að vera í honum í smá stund fór ég að finna lyktina. Svona líka sterka. Ég hreinlega angaði af úldnum fiski. Ég sem var að reyna að vera svolítið fín.

Þegar sameiginlegu erindum var lokið, skiptum við liði og ég hélt áfram ein… átti jú eftir að kaupa 9 jólagjafir og versla í matinn fyrir næstu 3 daga.

Þegar ég fór í Kaupfélagið þá sá ég fallega pólitíkusinn í Sönderborg. Þennan sem ég átti í leynilegu ástarsambandi við, fyrir síðustu jól. Já já, okay, leynilegu ástarsambandi við plakatið af honum… rétt skal vera rétt. Hérna er fyrri færslan um hann síðan í desember í fyrra. Þetta var kosningarspjald sem fauk skyndilega inn í garðinn minn eftir kosningarnar síðasta haust. Fannst það vera tákn um að ég mætti taka það og fara með það inn.

2013-12-19 19.16.05Seinni færslan um hann er hérna. Skil enn þann dag í dag ekki afhverju Fúsi vildi ekki sofa hjá honum Stephan þarna í fyrra.

En já, í dag… þetta sem ég lenti í. Ég var semsagt að labba inn í Kaupfélagið og finn skyndilega heitann andardrátt aftan á hálsinum á mér (í gegnum þykkan trefilinn). Þá var það hann Stephan minn. Í fyrstu varð ég voðalega upp með mér, þangað til ég mundi eftir og fann skötulyktina. Mig langaði til að sökkva niður í gólfið! Þetta var hræðilegt! Ekki nóg með að mér fannst ég þekkja hann svo vandræðalega vel, eftir þessar vikur í svefnherberginu okkar, sem hann reyndar veit ekkert um, þá lyktaði ég verr en fisksali, beitningarkona, síldarstúlka eða hákarlsverkunarkerling. Og vinurinn var ekkert bara að ná sér í raksápu… nei nei, honum vantaði líka önd og mjólk eins og mér og því fylgdumst við að um allt Kaupfélagið! Inn í mjólkurkælinn, ofan í fuglakælinn. Mjög mjög óþægilegt. 

Takk Aldís, fyrir að banna mér að fara í öðrum jakka… Eiginlega er ég fegin að Fúsi er löngu búin að brenna plakatið því ég hefði ekki höndlað að horfa í augun á Stephan í svefnherberginu okkar eftir þessa skötuangan í Kaupfélaginu.

Annars eru jólin á morgun… Gleði og friðarjól til ykkar allra <3

 

5 Responses to “Þorláksmessa með fiskilykt

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *