Heimili einhleypinganna…
Síðan ónefndur bróðir minn (held fast í nafnleyndina á blogginu) flutti til Keflavíkur, hefur verið fastur liður að gista hjá honum fyrir flug. Það var alltaf vandræðalaust, þar til hann gerðist einhleypingur. Þá byrjaði vesenið.
Ég kemst reyndar alltaf heil til Danmerkur, þ.e.a.s. hvorki vannærð né svefnvana. Svo við höfum það á hreinu.
En…
Það er svo margt annað. Það er ekki nóg að borða og sofa. Stelpur eins og ég, þurfa líka að blása á sér hárið fyrir flug!
Í vor setti ég inn status á facebook eftir að hafa gist. Hér er smá sýnishorn; „… svaf aftur yfir mig, ranglaði í sturtu og vaknaði betur við það að það er enginn hárblásari á heimilinu. Stóð úti á svölum í 20mín og snéri mér reglulega. Ekkert gekk. Fann ekki ryksugu og prófaði því brauðristina… Ef þið sjáið fúla stelpu í Leifstöð í dag, með mjög slæman hárdag, þá er það ég….“
Já, það er rétt, ég svaf 2svar yfir mig þennan dag, e-ð verkfallsvesen og þannig lagað.
Í vor tók ég mynd til að sýna týpískan skáp á baðherbergi einhleypings.
Ég meina það sko! Að hafa ekki neyðarpakka sem inniheldur hárblásara í skápnum er náttúrulega alveg út í hött. Þessi neyðarpakki mætti einnig innihalda:
- bómullarskífur
- dömubindi
- sléttujárn
- tannbursta
- sköfu
- gestaklósettpappír með myndum á (betri gæði en það sem einhleypingar almennt nota)
Nei, í staðin inniheldur skápurinn einungis sexkant og pungahrífu… og þetta er ennþá þarna. Ég kíkti um helgina. Myndin er tekin í vor, muniði.
En semsagt, ég upplifði hárblásaraleysið aftur um helgina, reyndar í fjórða skiptið á þessu ári. Uppgötvaði rétt fyrir miðnætti að ég ætti ekki flug kl. 7 heldur 14.15. Það var þá sem allt fór í vaskinn, því ef ég á flug kl. 7, fer ég seint að sofa og á fætur um 5 og þá nær hárið ekki að umturnast, heldur vakna ég eins og þegar ég sofnaði. En þegar ég á flug svona seint, þá vakna ég eins og ég hafi velt mér upp úr snjøoskafli, lent síðan í hvirfilbil og þaðan ofan í frystikistu. Ég er öll bólgin og hárið eftir því. Og það kemur bara ekkert annað til greina en sturta!
Ég fór sem sagt í sturtu þarna í Keflavík, heima hjá einhleypningnum honum Magnúsi. Og þá voru góð ráð dýr. Ég endurtók svalaratriðið síðan um vorið, enda meiri vindur á mánudaginn en í vor. Það þarf varla að minna neinn á að þennan dag var um 15 stiga frost! Og fór ég því freðin upp á völl og var að ranka við mér í dag.
En það sem ég ætlaði að segja með þessari færslu er að það er bara skylda allra einhleypinga að vera með gestapakka. Hjá langflestum einhleypingum gista mæður, dætur, systur, frænkur eða „frænkur“ alltaf annað slagið. Þarf enginn að segja mér neitt annað. Og það er bara ekki hægt að bjóða okkur stelpunum upp á t.d. hárblásaralaust heimili! Nei, það er ekki heiglum hent.
Heima hjá mér á ég allt til alls ef það kemur allslaus karlmaður í gistingu. Og nú hugsiði; já já, gott hjá henni, hún lánar þeim bara dótið hans Fúsa…
En nei, það geri ég ekki.
Ég á t.d. vax og hársprey í karlmannlegum umbúðum sem myndu sæma sér fullkomnlega á hvaða pungabaðherbergi sem væri.
Svo á ég einnota lítið notaðar sköfur.
Og þar sem við erum öll feministar þá skiptir liturinn engu.
Einnig á ég ilmvatn sem hæfir báðum kynjum.
Og auðvitað á ég gæru til að nota í myndatökur… lifandi gæru!
Síðan á ég tvennar karlmannsnærbuxur af fyrrverandi tengdasyninum (Sjúmakkerinum), sem eru ekki í notkun. Engir blettir… fínt merki en teygjan er aðeins slök.
Og síðast en ekki minnst á ég tannbursta sem hentar hvaða tannsetti sem er. Þetta er norskur og frekar harður bursti. Ég gafst upp eftir þriðju notkun.
Vaski finnst hann ekki of harður, enda karlmannshreystið uppmálað. En hann fer vel með tannburstann svo hann er bara tilbúin fyrir næsta gest sem gleymir burstanum sínum.
Fæ ég semsagt hárblásara í jólagjöf?
já, nei nei… en eitthvað svipað 🙂