Þetta veður!
Mánudagsmorgun: Ég sá flottan himinn og hljóp út á peysunni og í crocks skónum hans pabba. Það var í fyrsta og síðasta sinn í þessari ferð sem ég fór þannig klædd út fyrir hússins dyr.
Auk þess kviknaði í Fjarðarheiðinni þennan morgun… eða morgun, klukkan var nú að nálgast hádegi!
Sama dag, ákvað ég að fá mér göngutúr. Þetta var dagurinn þar sem ég ætlaði ekki út fyrir hússins dyr því ég hafði annað þarfara að gera.
Fallegt veður sama sem úti veður.
Klókar konur í sveitinni segja að þetta heiti Fitjatún. Ég er svolítið eins og álfur út á hól í örnefnunum í þessari sveit. Spyrjið mig um gömlu sveitina mína og ég skal segja ykkur hvað hver einasta þúfa heitir. Og nákvæmlega á milli hvaða þúfna Hómer frá Steðja datt ofan á mig og lá þar þangað til hann stóð upp.
En síðan fór að snjóa… Og síðan hætti að snjóa!
Seinna varð veðrið bleikt og Lagarfljótið líka.
En bleika veðrið var skammvint og það fór að snjóa. Svo þétt að það sást ekki á milli stikna. Ég var næstum lent ofan í skurð þarna því ég á svo erfitt með að gera tvennt í einu. T.d. get ég varla keyrt og tekið mynd. Allt testosterónið muniði. Þessvegna þetta göngulag.
Það gerði reyndar alveg bandbrjálað veður á kafla. Ég komst alveg í jeppafíling á Litla Rauð hans pabba. Sem er alls engin jeppi, bara gamall Subaru úr Eiðaþinghánni með lágu drifi og fínni miðstöð.
Mamma spurði mig hvort ég væri nokkuð hrædd við að fara inn eftir? Hún hefði nú alveg eins getað spurt mig hvort ég væri einfætt – eða heyrði raddir – eða væri með þyrlupróf – eða hefði tamið ísbjörn… hún á að þekkja mig nógu vel til að spyrja mig ekki svona spurningar. Hef aldrei verið veðurhrædd né bílhrædd með sjálfri mér. Og ef ég væri, myndi ég aldrei viðurkenna það. Bara ef ég er vel klædd, vel nestuð og með síma, þá færi ég alein yfir Sprengisand í nótt ef ég þyrfti. Reyndar þyrfti ég að vera svakalega vel nestuð til að leggja í svoleiðis ferð. Einsömul, að vetrarlagi. Ég myndi líka taka með mér teppi og skóflu.
Allavega, ég leitaði að sköflum og fór í loftköstum yfir þá eins og pabbi kenndi mér… taka þetta allt saman bara á ferðinni.
Hestarnir fengu sitt daglega ferska loft, þrátt fyrir veðrið…
Já, á meðan ég man… hvursu vatnsheld er ein myndavél? Og þola myndarvélar skafrenning?
Það kom snjóhúsaskafl en ég er orðin heldur gömul til að fara grafa snjóhús handa sjálfri mér. Því miður!
Síðan kom aftur þetta fína veður en brunagaddur!
Þessu hafði pabbi stöðugar áhyggjur af í haust… að það myndi frjósa… En afhverju? Hann átti að vita að það væri nú lítið mál fyrir slíka bóndu eins og hana móður mína að redda þessháttar smáatriðum!
Með Arsenal húfu. Í stíl við bálið.
Já nei, það er ekkert aðgerðarleysi í sveitinni skal ég segja ykkur!
En norðurljósin hafa verið allt annarsstaðar en í kringum Eiða á meðan ég hef verið á staðnum. Var meira að segja orðin svo örvingluð í kvöld að ég fór út og leitaði að þeim í klukkutíma. Jú, það var kalt! Nei, ég fann þau ekki. Ætla að færa mig suður á morgun og rýna eftir norðurljósum í Reykjavík. Nei, ég hef ekki séð spána. Nei, ég vil ekki sjá spána.
[…] ritgerðina, kreisti hvolpana, skrifaði jólakort og gerði laufabrauð með mömmu og Aldísi. Veðrið lék líka á alls oddi og komst ég varla lönd né […]