Austurglugginn sem seldist upp!

Um daginn þegar ég var á Íslandi, fór ég í Kaupfélagið (til að hitta fólk). Þar sá ég sjálfa mig í blaðarekkanum… í hundruðatali, ef ekki þúsunda.

2014-11-23 14.58.54

Ég flæddi bókstaflega út um allt. Ásamt Simma og Þráni. Og fyrir framan flóðið stóð kona og var að skoða fótboltablöð. Sko kona á mínum aldri, ekki stelpa. Ég benti henni á að Austurglugginn myndi henta henni betur. Hún leit á mig og sagði: „já neiiii….“

Og ég greip frammí: „þetta er ég þarna“ og benti. „Ég er bara uppstillt þarna, þessvegna áttaðirðu ekki á þetta væri ég“.

Hún leit á mig og ætlaði að labba í burtu (mjög dónalegt). Ég tók í öxlina á henni, sagði henni að bíða, að ég væri með penna. Tók einn Austurglugga og áritaði: með kærri kveðju, þín vinkona í KHB, Dagný“ rétti henni og sagði henni bara að borga við kassann. Það urðu einhverjir varir við þetta uppátæki hjá mér en urðu feimnir við frægðina og hættu sér ekki nær.

Viku seinna…. 2014-12-07 16.32.12

…allt búið. Þessi eina áritun mín varð til þess að Glugginn hreinlega mokaðist út. Þrátt fyrir að hann hafi ekki verið sá allra nýjasti. Og ég seldi stórjaxlana Simma og Þráinn líka.

Í fyrrakvöld sendi ég ritgerðina til yfirlestrar. Ég lofa bæði ykkur og sjálfri mér að þetta verður í síðasta sinn sem ég minnist á hana, bæði munnlega og skriflega. Mér er orðið óglatt af að heyra sjálfa mig segja þetta orð.

Ég vil ekki heldur heyra orðið blindarfavitlaus og gufuruglaður bylur. Og allra síst orðið „veðurteppt“. Mamma segir að spáin geti alveg eins valdið því að ég missi af millilandafluginu. Ég sem þarf að komast til DK! Fúsi er nefnilega búin að skreyta allt húsið á meðan ég hef verið hérna. Ég þarf að komast heim og líklegast breyta skreytingunum áður en jólin skella á. Þetta getur varla verið eins og ég vil hafa það?

Ég var aldrei búin að birta seinastu Gluggaskrif hérna, en ég notaði eina gamla bloggfærslu og breytti henni talsvert.

Austurglugginn einhverntímann í nóvember minnir mig:

Ég hef að mestu fylgst með eldgosinu í Holuhrauni í gegnum Rás 2 og ekki komist hjá því að taka eftir rödd eldfjallafræðingsins sem oft er tekið viðtal við. ”Eldfjallafræðingur” -afhverju er ég að uppgötva þessa starfsgrein fyrst núna?!

Flestar starfgreinar hafa einhverja ímynd eða orð á sér. Eitthvað sem maður sér fyrir sér eða alhæfir út frá reynslu eða orðrómi. T.d. eru bændur fámálir og hrjúfir. Hjólbarðaverkstæðismennirnir segja allt sem segja þarf með höndunum … skemmtilega útkámugum og heillandi. Sjómenn eru úfnir, skeggjaðir og herðabreiðir. Vegagerðarmenn eru ofurhugar! Standandi á miðjum veginum i Jökuldalnum, lappandi upp á holu med bílana þjótandi fram hjá á ógnarhraða… Kennarar eru mestmegnis í köflóttum skógarhöggsmannaskyrtum og með bakpoka. Ekki veit ég af hverju. Leikskólakennarar eru oft barmmiklir, hlýjir og í skóm sem aðlagast fótunum. Og allra helst ljósfjólubláum peysum. Sölumenn/búðarfólk tala mest af öllum. Þad er ekki möguleiki að ætla að skjótast inn í búð því búðarfólkið vill spjalla, ef ekki til að selja, þá um heima og geima. Og ef búðarfólkið spjallar ekki i búðunum þá sjá viðskiptavinirnir bara um það. Ég hljóp inn í Bónus í sumar til ad kaupa flatkökur og ekkert annað. Það tók mig þrjú korter. Fjölskyldan sem beið i bílnum á meðan var ekki með bros a vör þegar ég kom út aftur! Ég klóraði í bakkann og reyndi að útskýra fyrir þeim að Bónus væri aðalstaðurinn til að hitta fólk, en þau svöruðu ekki heldur urruðu.

Síðan er það læknastéttin; lyflæknar ganga rösklega með hvíta kyrtilinn opinn, þannig að hann stendur beint út undan þeim að aftan. Þeir líkjast ofurhetjum og takast því sem næst á loft. Þeir eru líka óhemju gáfaðir og smámunasamir.

Skurðlæknarnir aftur á móti hafa lítinn haus og stórar hendur. Sérstaklega bæklunarskurðlæknarnir en á móti kemur reyta þeir af sér brandarana. Meltingarfæraskurðlæknarnir segja fáa brandara enda hálfir á kafi ofan í kviðnum á fólki.

Svæfingarlæknarnir eru samkvæmt rannsóknum, hættulegastir… algörir Femmes fatales. Casanova ganganna. Þeir geta látið heilu sjúkrahúsin nötra með því einu að blikka öðru auganu. Og síðan þarf að þurrka móðuna af gluggunum.

Heimilislæknarnir eru kafli út af fyrir sig með sínar þægilegu róandi rödd. En þrátt fyrir að hafa róandi rödd þá eru þeir hinir snöggustu. Hver nennir líka að sitja á biðstofu í klukkutíma? Einu sinni var rekið slíkt á eftir mér þegar ég var að fara í leghálskrabbameinsskoðun (í DK er það framkvæmt af heimilislæknunum), að ég fór í kollhnís aftur á bak af bekknum. Síðan hef ég pantað tvöfaldan tíma.

Loks er komið að dæmigerðum eldfjallafræðingi eins og ég held að hann líti út. Hann er meðalhár, vöðvastæltur frá náttúrunnar hendi og með svolitla þykkt og lengd í hárinu. Hann kastar uppvöfnu reipinu upp á öxlina, sveiflar hakanum og arkar af stað stórum skrefum, aldeilis óhræddur í átt að glóandi hrauninu og spúandi sprungunni. Hann er heljarmenni að utan sem innan og allt að því holdgervingur Gunnars á Hlíðarenda. Hvorki meira né minna.

 


Aldis 011 For Print ©Patricio Soto

Ljósmynd: Pato

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *