Fallegi dagurinn hans pabba
Þegar ég tók mynd í kringum jarðarförina spurði Svala mig hvort ég ætlaði að blogga um þetta? Nei, maður bloggar ekki um jarðarfarir, svaraði ég.
En núna er annað hljóð í skrokknum. Mig langar til að skrifa um þennan dag, bæði til að koma á framfæri þakklæti en líka til að deila með ykkur deginum sem ég vil muna.
Í dag eru tvær vikur síðan pabbi dó. 38 árum upp á dag eftir að hann og mamma byrjuðu saman. Það var verið að halda upp á afmælið hans afa í Berlín og ég, rúmlega eins árs, hef væntanlega verið sofandi uppi á lofti. Ég var líka sofandi þegar hann dó, 38 árum seinna.
Í dag er vika síðan pabbi var jarðaður. Tíminn líður hratt. Það er líka vika í að ég fari heim aftur. Heim til Íslands. Ég átti jú miða í desember. Ég get ekki beðið. Finnst ekkert spennandi tilhugsun að þurfa að vinna, að þurfa að hlúa að öðrum. Né að gera þessa bannsettu ritgerð. Leiðbeinandinn minn sagði í dag, að ég væri á réttu róli en að það væri samt í lagi að skríða með lágmarks einkunn. Kannski er það bara í lagi. Sjáum til. Á meðan ég man, kærar þakkir fyrir allar kveðjurnar sem hafa borist úr öllum áttum, blómin og faðmlögin! Þetta hjálpar. Umhyggja og væntumþykja ykkar ber mig í gegnum þetta!
Það verður færra um manninn á Eiðum þegar ég kem aftur. Um daginn var húsið fullt af fólki, 14 manns í gistingu og oft fleiri í mat. Í þessum aðstæðum styrkjast fjölskylduböndin og væntumþykjan verður meiri. Maður tekur eftir smáatriðum í fari fólks og metur þau.
Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum fengu smáatriði eins og hvolparnir samt mestu athyglina… hvolparnir sem Snotra hans pabba gaut þremur dögum eftir andlátið. Yndislega falleg dýr sem veittu öllum aldri mikla gleði og ánægju.
Þegar maður þarf að standa í því að jarða einhvern svo nákomin sem föður sinn, er í mínum huga, eftir á að hyggja, mikilvægt að allt takist vel. Að minningin sé falleg og ljúfsár.
Og mikið tókst allt vel. Athöfnin var alveg eins og hann og við vildum hafa hana. Pabbi hefði orðið ánægður með minningarorðin og hlegið með okkur.Einnig hefði hann orðið hrifinn af að heyra minnst á Ford ´67. Gamla traktorinn sem skipti hann miklu máli.
Í skipulagningunni hafði ég, í gríni, stungið upp á Helga Björns til að syngja, en fann um leið hversu mikilvægt var að hafa einhverja tengingu í söngnum. Því varð heimafólk fyrir valinu, að sjálfsögðu. Og mikið var þetta allt fullkomið. Hvort sem það var fjölskylda, vinur eða góðir sveitungar sem sungu. Ómetanlegt þegar fólk getur gert erfiða stund fallega.
Og hjálpsemin! Ég hef aldrei gert mér grein fyrir hvað orðið „saumaklúbbur“ þýðir í raun og veru. Nú veit ég það. Saumaklúbbur er lítill hópur góðra kvenna sem hjálpa hvor annarri í blíðu og stríðu. Og hrista fram úr ermunum þvílíku brauðterturnar, rjómaterturnar og aðrar tertur… Eins og ekkert sé. En ekki má gleyma allri hinni hjálpinni sem barst að -fjölskylda, sveitungar, góðir vinir og nágrannar steiktu flatbrauð, kleinur og skonsur, dekkuðu borð, löguðu kaffi, skúruðu og margt margt fleira. Ég varð eiginlega orðlaus og pínu klökk þegar ég sá hversu marga góða við og ekki síst mamma, eigum að. Hversu vel sveitin heldur utan um sína.
Það sem stendur upp úr þennan dag í huga okkar fjögurra er líkfylgdin. Útförin var frá Egilsstaðakirkju og síðan var pabbi jarðsettur í Eiðakirkjugarði. Bílljósin sáust fleiri kílómetra í rökkrinu. Alveg frá Kirkjuhöfðanum og inn á Mýnesás.(ÞA
(Þarna sést hluti af líkfylgdinni, þegar komið var á Kirkjuhöfðann, voru helmingi fleiri ljós)
Frændi okkar, sem keyrði bílinn vætti marga kvarma þegar hann stoppaði á Tókastaðavegamótunum. Það augnablik var svo virðingarvert og fallegt. Líklega mætti kalla þetta húskveðju. Pabbi hlýtur að hafa fylgst með þessu og séð hvernig bílljósin liðuðust í gegnum sveitina hans. Framhjá öllum innri bæjunum, þ.a.m. Finnstöðum, framhjá Mýnesi, framhjá Tókastaðaafleggjaranum, eftir Breiðavaðsblánni, meðfram Tókastaðaásnum og út í Eiða. Ég sé hann fyrir mér, þekki svipinn þegar hann fylltist lotningu og varð þakklátur. Ég hugsa um þetta aftur og aftur.
Já hann hefði orðið hrifinn. Líka ef hann hefði séð mömmu og Viktor (9 ára afastrákinn) fara á hestum á undan líkbílnum síðasta spölinn. Hann lifði fyrir hestana. Geysi, Kosningu, Kasper, Miðil, Heiði… Það risti djúpt í hann að þurfa að selja Heiði í sumar.
Undanfarnar tvær vikur hafa verið svo undarlegar, erfiðar og svolítið þokukenndar. Það rennur allt saman. Ég skrifaði minningargrein í Moggann eina nóttina á Eiðum en gat ómögulega munað um hvað hún var, þangað til mamma rifjaði það upp fyrir mér í dag. Það er ríghaldið í minningarnar um pabba eins og maður sé hræddur um að þær dofni. Þær gera það samt ekkert. Samt er svo gott að skoða myndir, bæði gamlar og nýjar, rifja upp og finna fyrir honum. Hlutirnir sem ég hef fengið frá honum upp á síðkastið fá einnig annan sess núna. Hann gaf mér þrælmerkilegan penna (hans orð) í vor stuttu eftir að hann greindist og átti svo erfitt. Penninn er núna í fremsta hólfi í veskinu mínu og er þrælmerkilegur. Í sumar erfði hann mig að Íslendingasögunum og málsháttarbók sem ég passa eins og gull og í haust sendi Aldís mér óvart eitt buffið hans þegar hún sendi mér útivistarföt sem ég hafði skilið eftir á Eiðum í sumar (hún hélt að það væri mitt því liturinn var svo týpískt ég). Ég skilaði viljandi aldrei buffinu. Hann átti svo mörg.
Þessi mynd var við hliðina á rúminu hans. Þarna er pabbi hárprúður og töffaralegur með sitt skakka nef, ég með skakkan topp sem var í tísku í denn og stíl við nefið á pabba og Maggi er sjálfum sér líkur nema ekki orðin skeggjaður þarna og ekki sköllóttur núna.
Úlfur bróðir pabba, var hjá okkur á Eiðum í kringum jarðarförina, sat í stólunum hans, sagði sögur frá því í gamla daga og talaði stundum og hló eins og pabbi. Ég elskaði það. Ég sá pabba stundum í rökkrinum út á hlaði, sérstaklega við græna jeppann hans. Einhvernveginn var hann þarna með okkur. Meira að segja á næturnar… Maggi bróðir hrýtur nefnilega alveg eins og pabbi. Það er eitt af þessum góðu smáatriðum.
(Lindin tær var sungin svo fallega af Magna í jarðarförinni)