1. desember
Það má segja að ég hafi verið mjög heppin kartafla í dag! Heppnari en venjulega.
Rétt fyrir hádegi mundi ég eftir að ég ætti eftir að skrá mig í næstu lotu í skólanum (sem byrjar í febrúar) og fór því inn á heimasíðuna til að klára það. Ég klikkaði og klikkaði, valdi stað og tíma og klikk. Þá blasti við mér skærbleik línan… SÍÐASTI frestur er 1. desember!!!
1. desember!!! Ég trúði ekki mínum eigin augum.
- Dagur eyðni sjúkdómsins.
- Fullveldisdagur Íslendinga
- Brúðkaupsdagurinn minn
- 1. í aðventu
Og ég orðin of sein að skrá mig! Því í dag var 5. desember!
Ég greip fyrir andlitið og reyndi að ná stjórn á önduninni. Hvernig átti ég að segja yfirkonunni á deildinni frá þessu? Að ég hefði klúðrað algjörlega að skrá mig á rándýran skólabekkinn! Að allt vorplanið væri komið á hliðina? Ég fór í mat og sagði ekki orð. Síðan fór ég á fund og sagði ekki orð. Kl. 14:55, fimm mínútum fyrir vinnulok, hætti ég mér í dyrnar hjá henni og stundi upp vandamálinu.
„Hvað segirðu, hvað er vandamálið???“ spurði hún aftur þrátt fyrir að ég hafi verið óvenju skýrmælt.
„Vandamálið er að það er 5. desember í dag!!!“ sagði ég, en langaði til að garga það og gráta líka.
„Vina mín, ef það væri 5. desember, værir þú væntanlega ekki á landinu… þú er ca. mánuði á undan okkur hinum í augnablikinu“ sagði hún og brosti svo róandi til mín, líkt og móðir Teresha hefði gert. (Sko þetta með að vera ekki „á landinu“ er planið mitt í desember).
Ég tilkynnti ÖLLUM í búningsklefanum að það væri bara 5. nóvember í dag og ég væri öldungis hamingjusöm með það! Hinar spurðu hvort ég hefði ekki verið svakalega stressuð fyrst að ég var komin alla leið í desember? Nei, reyndar ekki, þótt ég ætti allt eftir, bæði ALLT jólastúss, eina ritgerð sem væri komið að, að skila og að auki ekki á landinu… Nei sama og ekkert stress.
Þessvegna ætla ég út að hlaupa núna eða „hlaupa“… því í raunveruleikanum ætlum við allar að fara synda naktar í 11 gráðu heitum sjónum og sleppa öllu hlaupi.
Eigið sem allra best og afslappað miðvikudagskvöld.