Hrekkjavakan

Hrekkjavakan er í kvöld og eins og undanfarin ár erum við hjónin algjörlega óundirbúin banki barnanna. Stelpurnar eru löngu vaxnar upp úr þessu sælgætisbetli en það breytir engu um undirbúningsleysið á heimilinu, það hefur alltaf verið jafn slæmt. Ár eftir ár hefur bankið komið mér á óvart og ekkert sælgæti átt til að gefa. Í fyrra fengu öll börnin eitt sólblómafræ.

10404143_10153222854528362_6061537353538498841_n

(Þetta er litli frændi minn, Daníel Darri með íturvaxið grasker í fanginu. Ljósm. Maggi)

Í dag sat ónefnd vinkona mín (köllum hana X vegna nafnleyndar) hjá mér og drukkum við kaffi saman hlið við hlið við borðstofuborðið. Þá var bankað. Við heyrðum barnsraddir. Og ég fraus. Hvíslaði að Ágústu að ég ætti ekkert nema kókósmjöl að gefa þeim. Þau bönkuðu aftur -og aftur -og aftur. Við sátum grafkjurrar hlið við hlið og létum sem við værum ekki heima. Eins og við hefðum skroppið örsnöggt út og skilið eftir raf -og kertaljós út um allt hús. Á endanum fóru þau, líklegast sár og svekkt, frá þessu uppljómaða húsi þar sem í það minnsta 5 manneskjur voru heima.

10665694_10153226107013362_126946106356790988_n

(Þetta er Viktor Nói frændi að teikna á íturvaxna graskerið. Ljósm. Maggi)

Síðan fór X vinkona mín heim og ég fór að elda matinn. Þá var aftur bankað og eldavélin er í beinni línu frá útidyrahurðinni. Ég gerist stytta. Ég hreyfði mig ekki og beið af mér bankið.

10683449_10152491328718471_9176092968698527292_o

(Þetta er nafna mín á leið í Halloween party í Hörup. Ljósm. Dísa)

Seinna, eftir að við höfðum borðað, var enn einu sinni bankað. Fúsi stóð upp en ég sagði: „NEI, við eigum bara kókósmjöl“. Fúsi tvísté og aftur var bankað. Þá greip hann anonymous grímu, setti hana á sig, slökkti ljósið í forstofunni, reif upp hurðina og öskraði: „hvad fanden vil I?!“

o-ANONYMOUS-facebook

(myndin er tekin af internetinu)

Vesalings krakkaskaranum brá svo svakalega að þau hrundu eins og dominókubbar niður tröppurnar… tólf stykki! Niður þrjár tröppur! Jesús Pétur hvað það var fyndið. En nú voru góð ráð dýr. Það hefði verið siðferðislega rangt að strá kókósmjöli ofan í pokana þeirra eftir þessa byltu. Við litum ráðvilt hvort á annað og stungum upp á súputeningum (ég hélt oft að það væru karamellur þegar ég var lítil), pastaskrúfum og piparkornum. Ekkert af þessu var nógu gott (nema súputeningarnir að mínu mati), en þá kom húsbóndinn með þessa snilldar hugmynd. Stundum komu stelpurnar með smápeninga í pokunum hér áður fyrr því það voru greinilega fleiri óundirbúnir eins og við. Fúsi stakk upp á að gefa þeim peninga úr leiðindarpeningakrukkunni. Og það gerðum við… sturtuðum handahófskennt ofan í pokana þeirra íslenskri einni krónu og pólskum zloty. Börnin ljómuðu og þökkuðu 1000 sinnum fyrir sig –tusind tak, tusind tak!!!

Við Fúsi minn stóðum hinsvegar hlið við hlið í rökkrinu á tröppunum með skítaglott, veifuðum og sungum lágt út í myrkrið:

Deutschland, Deutschland über alles,
Über alles in der Welt,

Blüh’ im Glanze dieses Glückes,
Blühe, deutsches Vaterland.

Deutschland, Deutschland über alles,
Und im Unglück nun erst recht.

Altso, recht!

Gleðilega hrekkjamessu börnin góð nær og fjær.

10420191_10152447900846538_4537900761939214501_n

(Þetta er María Ísól, „Ítalska“ vinkona mín. Ljósm. Tinna)

Myndirnar í þessarri færslu eru allar fengnar að láni með leyfi en hafa samt ekkert með hegðun okkar að hjóna að gera.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *