Sigfús er með karlmennskuna til sölu.
Það eru stóratburðir að gerast á Myllugötu í dag. Það er útsala á karlmennskuhlutum.
Þetta ferlíki! Þetta skuluði ekki láta plata inn á ykkur á Tupperwarekynningu. Best er að sleppa því að fara á kynningu. Skynsamlegra er að fara í bíó, í leikhús, á kaffihús eða annað hús.
Ég gaf eiginmanninum þetta í bestu meiningu. Af einskærri ást (og hefnd). Hérna er færslan um þessa gjöf. En boxið er of stórt og þetta smádót sem fylgdi með er ónothæft. Fúsi hefur þurft að gjalda fyrir þessa velviljan mína. Vinnufélagarnar hafa strítt honum ótakmarkað. Bæði vegna þess að hann á konu sem fer á Tupperwarekynningar og líka vegna þess að þetta er um 7 lítra box. Nú vill hann bara losna við þetta. Tilboð óskast. Of lágar tölur verða hunsaðar. Smádótið fylgir að sjálfsögðu með.
Síðan er það karlmennskusíminn. Já hver hefði trúað því að þessi eðal sími, þetta ferlíki, þessi geimtæknivædda Star Wars græja ætti eftir að yfirgefa heimilið? Ekki ég! En jú, nú er komið nóg. Lífið heldur áfram og tímarnir breytast. Tvö og hálft ár og nú á að slíta naflastrenginn. Ég man ennþá þann dag þegar hann fékk hann í hendurnar. Svo margir effektar, skjárinn var eins og gárur á vatni, íslenski fáninn blakti við hún og stærðin … fullkomin!
Með í sölunni fylgja tveir aukahlutir. Annar er penni sem hægt er að stinga inn í símann. Þar hefur hann verið í tvö og hálft ár, aldrei notaður. Hinn er svart, glansandi sílikonhulstur sem hefur sérlega skemmtilega viðkomu.
Það er myndavél á ferlíkinu, ónotuð að mestu. Örfáar veikburða rispur eru á bakhliðinni sem sjást ekki ef sílikonhulstrið er sett á.
Þessi gæðasími hefur lifað þægindalífi. Hann hefur aldrei nottið niður á neitt gólf, aldrei dottið í poll né annað vatn, það hefur aldrei verið sest né lagst ofan á hann og alveg laus við matarleifar. Skjárinn hefur verið hreinsaður að meðaltali tvisvar á dag með sérstöku spreyi og klút. Þetta eru semsagt kjarakaup.
Ekki senda fyrirspurnir á mig því ég kann ekkert á, né veit ekkert um þessa tegund síma. Veit ekki einu sinni hvað hann heitir meira en Samsung. Minnir samt að það sé eitthvað í sambandi við vetrarbrautina eða sólkerfið … þið kveikið kannski? Þetta er sumsé gæðagræja sem hefur hríðfallið í verði sem þá selst hræbillegt. Og alveg get ég garanterað að næsti eigandi á eftir að elska, dá og virða hann fram í rauðan dauðann að eilífu, amen.