Arendal

Eftir að hafa unnið eins og sönnum Íslendingi sæmir eftir sumarfríið mitt svo að vinnufélagarnir gætu verið í sínu sumarfríi áhyggjulausir, kom ad borgunardögunum. Bara fullt af frídögum í september! En nei, ekki eru þeir nýttir til að liggja á meltunni né sauma út. Með dollaramerkið í báðum augum fór ég aftur til Noregs. Seinnipartinn á fimmtudaginn var það ákveðið og allt klappað og klart með flugmiða og þessháttar fyrir skrifstofulokun. Jei… alltaf gott að vera í Noregi. Fyrir utan hversu mikið brauð er borðað. Einskonar heilhveitibrauð… í morgunmat, hádegismat, kvöldmat og með súpunni kl. 21. Jú jú ég er í fríu fæði í þetta sinn. Og blæs upp… svo mikið að í gær þegar ég vaknaði og hafði borðað kvöldmat kl. 16:30, leit ég niður á mig og hugsaði með sjálfri mér: „skyldi getnaður hafa átt sér stað?“ En nei, við frekari eftirgrenslan var þetta bara brauðloft. Ég prumpaði og sleppti brauðinu með súpunni í gærkvöldi. Og borðaði hrísgrjónagraut kl. 2 i nótt.

Í þetta skipti lá leiðin til Arendal. Bæjar sem ég hafði heyrt mikið um, að hann væri svo huggulegur og að höfnin væri einstök. Því reif ég mig upp í gær eftir næturvaktina, til að berja bæinn augum.

IMG_9198

Og vissulega er hann huggulegur, nema fyrir allt ruslið! Maður lifandi, aldrei hef ég séð svona mikið rusl í bæ áður. (Játa hér með að ég hef ekki komið til landa þar sem rusl er hluti af hversdagslífinu). Við verslunarmiðstöðuna er tröppuveggur og hann var þakin rusli. Á gangstéttunum og torgum var rusl út um allt. Og í Pollinum (Pollen) sem er ekkert ósvipað Nyhavn, flutu vínflöskur, bjórdósir, sælgætisbréf og sígarettustubbar í svo miklu magni að varla sást í sjóinn. Þetta er ekki dæmigerður Noregur skal ég segja ykkur. Alls ekki. Kannski var villt bæjarhátíð í gær, rétt áður en ég kom?

Þessi mynd er tekin annarsstaðar þar sem ekkert rusl var.

IMG_9201

En ég rölti þarna stefnulaust um, var ekki svöng, nennti ekki inn í verslunarmiðstöðina og sá þá mann sem var borðandi e-ð upp úr dalli. Áður en ég fékk neinu við ráðið, þá var ég búin að spyrja hann hvort þetta væri Frozen Yogurt og hvar hann hefði keypt svoleiðis? Ég er nefnilega nýbúin að uppgötva þetta fyrirbæri og elska það. Samt borða ég næstum aldrei yogurt. En frosin… jú jú, við hvert tækifæri, niðrí bæ, á flugvöllum, lestarstöðvum, norskum smábæjum og allsstaðar annarsstaðar.

IMG_9205

Þegar ég var orðin enn óléttari að sjá eftir að hafa, bókstaflega, hámað þetta sykursull í mig, var ekki annað í stöðunni en að rölta heim á sjúkrahúsið aftur. Upp brekkuna. Arendal er ólíkur þeim 7 öðrum bæjum sem ég hef verið í útum allt land, að því leitinu til að hann er allur sundurgrafin. Það eru göng sitt á hvað innanbæjar. Allt hefur verið sprengt í druslur!

IMG_9240 IMG_9224

Í þetta skipti hefur mér verið komið fyrir á sjúklingahótelinu. Það er alveg fínt, ég er með eigið baðherbergi, mjög hátt klósett, handföng út um alla veggi og bjöllu.

IMG_9246

Ég íhugaði alvarlega í gærkvöldi að toga í spottann og segja við bjarta og fallega norska hjúkkann sem var á vakt að ég gæti ekki sofnað. En gerði það ekki. Leonard Cohen var í sjónvarpinu og hann á ég ein.

Um daginn þegar ég var í Tönsberg, heillaðist ég mjög svo að hönnun sjúkrahússins þar. Allt var svo útpælt, bjart og töff. Ég varð alveg dáleidd.

Núna er sagan önnur. Mér fannst ég ganga inn á gamalt danskt hótel þegar ég kom inn.

IMG_9248 IMG_9251

Og gardínurnar! Hvað gerðist? Ég höndla ílla þessa músteina innanhúss. Þetta er líklega ástæðan fyrir geðvonsku minni um helgina. Alltof neikvæð og tuðandi. Að hugsa sér að láta múrsteina fara í skapið á sér…

Og ekki skánar það þegar allir eru eins…

IMG_9214 Alveg með ólíkindum.IMG_9212

Kl. 19 í gær voru allir að fara á djammið… ALLAR voru í húðlituðum nylonsokkabuxum og svörtum háhæluðum skóm. En til að verna um nafnleyndina á blogginu mínu, klippti ég hausana af. Nafnleyndin er mikilvægust. Og já, ég elti þær, hlaupandi við fót með myndavélina.

Svona til að tryggja að engin haldi að ég sé vonlaus og tuðandi starfskraftur, þá er gjörgæslan yndisleg. Ég hef það fínt á næturvöktunum… þrátt fyrir að hafa þurft að fara nokkur ár aftur í tímann og skrifa allt á klukkutímafresti niður með kúlupenna… bláum og rauðum. Það er ekkert verið að flækja málin með of mikilli tækni árið 2014 🙂 Mig rak í rogastans. Og fékk mér svo hrísgrjónagraut.

IMG_9256 IMG_9258

Sjúkrahúsumhverfið er fínt.

Ég fann hól á bakvið það í morgun. Köllum hann fjall. IMG_9259

Mamma segir að maður eigi að horfa á fjöllin, ekki príla upp á þau. Ég fór ekki að hennar ráðum og fór upp á „fjallið“ í von um útsýni yfir Arendal.

IMG_9264

En nei, aðeins hluti af sjúkrahúsinu, þyrlupallurinn og einhver greniskógur. Kannski var þetta bara hóll. Held ég sleppi því að fara út í kvöld og borði sjúkrahússúpuna upp í rúmi, aftur!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *