Tønsberg

Þegar ég fór í fyrstu vinnuferðina mína til Noregs árið 2010, var mér bent á að taka öryggisnesti með því það er ekkert víst að maður komist í búð með það sama.

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega uppfinningarsöm í langtímanesti sem krefst ekki kælingar. Og borða ekki fisk úr dós, því ef ég gerði það, væri málið leyst. Sardínur, makríll, tún, kappers, síli og fleira í þeim dúr myndi metta stóra magann minn í marga daga.

Svo árið 2010 stóð ég í Kaupfélaginu og pældi í hvað ég ætti að taka með mér. Og datt niður á hnetusmjör… Alltaf fundist það svo girnilegt og krukkurnar flottar. Svipað og með mysing… veit ekki hvað ég smurði margar heilhveitibrauðsneiðar með mysing í gegnum æsku mína því hann líktist karamellu. En um leið og ég setti tennurnar í „karamelluna“ fattaði ég að þetta var ekki karamella. Held ég hafi verið á 17 ári þegar ég hætti að reyna. Hnetusmjör er skárra… en samt sama prinsippið. Og það hefur fylgt mér í öllum mínum vinnuferðum til Noregs… því mér finnst það svo girnilegt.

Núna var ég í Noregi og á laugardagsmorguninn þegar ég barðist við að kyngja rúgbrauði með hnetusmjöri og eplum, hét ég sjálfri mér því að hætta þessari margra ára þrálátu matarsjálfsblekkingu og taka Nutella með næst.

2014-09-12 09.53.28

Ekki einu sinni gamalt Fréttablað frá 6/9 hjálpaði við meltinguna… Greinilega fleiri sem kunna íslensku en ég í þessum íbúðum.

Allavega, eftir 10 tíma ferðalag…

2014-09-10 14.00.53…(það er svona að búa í sveitinni og fara í sveitina í Noregi) stóð ég undir sturtunni í sjúkrahúsíbúðinni. Það var eins og að vera komin til Noregs… Allsstaðar í Noregi, alveg sama hvort maður er fyrir norðan, sunnan eða vestan, er eins lykt af vatninu. Svolítið sæt… eins og sæta lyktin af sæði ef maður myndi sundurgreina lyktirnar af sæði. Ég stend mig alltaf af að athuga hvort vatnið hlaupi nokkuð í kekki.

Tønsberg er miðaldarbær, líklegast sá elsti í Noregi og er m.a. frægur fyrir Oseberg víkingaskipið sem fannst þar. Það var víst meiriháttar fornleifafundur og síðan hafa bæjarbúar ekki getað hamið sig í forninni.

Ég var þarna í tæpa fjóra sólarhringa og eini frítíminn var fyrriparturinn á föstudaginn. Eftir svona vinnuferðir vil ég geta sagst hafa séð annað en sjúkrahúsið, svo ég fór snemma á fætur, var eldsnögg í sæðissturtunni og farin út. Æddi í hendingskasti upp á Fróðaásinn (Frodeåsen) til að sjá yfir bæinn…

2014-09-12 10.53.15

… og sjúkrahúsið sem er þarna til vinstri.

2014-09-12 10.57.21

Ég hafði þurft að velja á milli þess að taka myndavélina eða tölvuna með í töskuna því plássið var takmarkað… og auðvitað valdi ég tölvuna! Því ég ætlaði að læra! Um leið og ég svæfi?!? Saknaði myndavélarinnar heil ósköp þessa 2 tíma… og opnaði aldrei tölvuna. Fúsa finnst ég rugluð að troða henni sí endurtekið ofan í tösku, innan um nærbuxur, mandarínur og hársprey. Hann segir að það sé þessvegna sem það er sambandsleysi í skjánum… að hún þoli ekki þetta flakk. Að ég eigi að vera með tölvutösku á öxlinni! Hahhahaha nei! Glætan… ég er ekki bisnesskarl. Hann getur bara gefið mér alvöru tölvu… t.d. MacBook sem  passar í konuveskið mitt. Og þolir endalaust hnjask.

En af Frodeåsen arkaði ég niður og þaðan upp á Slottsfjellet (Kastalafjallið).

2014-09-12 11.21.39

Ekki núna hugsa, lesandi góður: „Vá hvað hún Dagný er dugleg… labbar bara upp og niður ása og fjöll eins og risastór tröllskessa á fartinum…“

2014-09-12 11.19.56 Nei nei, þetta eru bara hólar… inn í miðjum bæ. Einfættur astmasjúklingur kæmist þetta líka.

2014-09-12 11.34.59-1

Upp á þessum hól eru rústir af gömlu borgarvirki og kirkju. Öllu rústað af Svíum árið 1503. Þarna virðast myndarlegir norskir feður halda til með börnin sín… Þeir voru eins og gorkúlur út um allt. Ég varð alveg vandræðaleg.

Síðan var það höfnin… held reyndar að þær séu margar en sá bara þessa.

2014-09-12 12.10.17

Þetta eru veitingarstaðirnir… mjög fín fiskisúpa á einum þeirra. Náði bara að prófa einn.

En til hægri við alla veitingastaðina er ofur lítill tangi þar sem Víkingaáhugafólk heldur til. Ég var bara á röltinu (þessu hraða) þegar það kemur harðfullorðin kona í fornaldarklæðum á móti mér, tekur í hendina á mér og leiðir mig útá tangann og fer að segja mér frá starfsseminni. Ég bara: „já já veldig interessant… já já“. Þau eru búin að byggja eftirlíkingu af Osebergskipinu og eru nú að byggja annað fornaldarskip. Eftir að hafa útskýrt fyrir mér byggingaraðferðina og annað verkfræðilegt (líkist ég manneskju sem hef vit á svoleiðis?) þá dró hún mig inn í skúr sem var búð… (líkist ég kaupóðri manneskju?). Þegar ég steig inn í skúrinn kom næstum alvöru fornaldarskrímsli á móti mér… jafnhátt mér en steindautt sem betur fer, nákvæm eftirlíking af konu sem fannst í Víkingaskipi. Hún hafði þjáðst af hormónatruflunum og var klædd í jarpa hesthúð. Nú var komið að lifandi konunni að reyna að selja mér… Og ég sem á svo auðvelt með að láta pranga inn á mig. Hún vildi selja mér saltskeið úr tini. Sagðist sjálf hafa keypt um 15 stk og gefið í gjafir. Ég sagðist bara týna þessu. Hvort hún ætti ekki bara segul á ísskáp með fornaldarlegri mynd? Því ég er mjög hlynnt sögulegri varðveislu og er meira en til í að styrkja svona aðgerðir. Auk þess eru fornleifafræðingar uppáhalds starfstéttin mín (fyrir utan eldfjallafræðinga). Nei það átti hún ekki, en hún átti fornaldarskartgripi… og ég var næstum búin að leyfa henni að selja mér hring sem passaði ekki á mig fyrir 300kall norskar en þá var ég bara með kort og þau tóku ekki kort. Þá vildi hún ólm skrá mig í Víkingafélagið í Tönsberg. Þá setti ég henni stólinn fyrir dyrnar og sagðist þurfa að fara að shoppa í miðbænum áður en ég færi í vinnuna.

Ég gerði stór innkaup!

2014-09-15 13.33.14

Missti mig alveg… Elska Farris með mango. Og bláberjadjúsinn… er alltaf að sulla í einhverju dönsku lífrænu… en þetta…! Mikið betra og óhollara. Lifði á svona bláberjadjús á norsku gjörgæslunni þar sem matartímarnir voru af skornum skammti. Fúsi varð alveg óður þegar ég bar þetta úr bílnum í gærkvöldi: „varstu nú að strauja kortið kona…???“

Í gær fór ég svo heim og þegar ég kom á Gardermoen fór ég beint í sjálfsalann og tékkaði mig inn… ýtti bara á „áfram… áfram… áfram…“ án þess að spá neitt og fékk boardingpass og töskumiða. Það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar ég fór að ath með gate-ið, að ég sá að ég var að fara að fljúga með öðru flugfélagi en ég bjóst við og annað en ég bjóst við. Ég hélt að það væri SAS til Kaupmannahafnar-Billund. En nei nei, mikið varð ég glöð þegar ég sá að það var Norwegian til Billund. Í Gardermoen sat ég og las Elling -Fugladansinn við öll tækifæri… gat ekki sleppt henni þótt þetta sé í annað skipti sem ég les hana. Þetta er í rauninni bók sem maður á að lesa einn. Ekki í margmenni. Því þótt hún sé tragísk þá er hún líka fyndin. Hláturinn byggist upp inn í manni þangað til maður spingur… og ömurlegur núðluréttur frussast út úr manni. Eða maður skellir upp úr í yfirfullum biðsalnum… og líka í þéttri röðinni í flugvélarbrúnni… allsstaðar er maður flissandi og frussandi, afþví að maður reynir að bæla hláturinn niður. Það er bara ekki hægt. Og svo lítur maður út fyrir að vera jafn klikkaður og Elling. Þessi bók er skyldulesning.

 

 

 

Trackbacks & Pings

  • Stjarna í nágrenninu « Alrunarblogg :

    […] er í Noregi núna (á þessum stað). Á morgun hef ég alltof mikinn frítíma. Fer ekki á næturvakt fyrr en kl. hálf tíu […]

    10 ár ago

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *