Bókaþynnkan
Muniði eftir nestisboxinu sem ég gaf Fúsa um helgina? Þessu karlmannlega frá Tupperware? Þar sem testosterongufan lak upp úr því?
Hann fór með það í vinnuna í gær… og harðneitar að gera það aftur. Honum var strítt á því. Vinnufélagi hans sem sá það, spurði hvort þetta væri verkfærabox? Annar spurði hvort þetta væri lítill peningaskápur? Hvort konunni væri ekki treystandi fyrir klinkinu? Sá þriðji spurði hvort konan vildi hafa hann feitan…? Vildi meina að það rúmaðist heilt hrossalæri í þessum kassa. Síðan var honum Sigfúsi mínum bent á að taka mig tali og segja mér að það fengjust alveg jafngóð box í Fötex fyrir 50kall, í staðin fyrir þetta yfirverðlaga, klunnalega box fyrir 200kall.
Í staðin ætlar að hann að halda áfram að nota gamla, ílla leka Star Wars boxið sitt sem hann elskar svo heitt. Og ég ætla aldrei aldrei aldrei aftur að láta plata mig svona upp úr skónum.
Annars er ég með það sem kallast „book hangover“ eða bókaþynnku. Um daginn las ég Karitas – Óreiða á striga og grét í 2 daga samfleytt eftir að ég kláraði bókina, m.a. yfir endinum (sem var eðlilegur), yfir söknuði á fólkinu og ég hélt áfram að sjá fyrir mér snjókomuna þegar Sigmar lá við hliðina á bátnum sínum.
(þetta er hluti af bókunum sem ég tróð í töskuna á Íslandi á leið heim til DK í sumar)
Til að komast yfir þetta ástand, hellti ég mér í Lars Kepler því glæpasögurnar fara oftast bara inn og út og engin eftirköst af þeim. Las nr. 2 og 3 á einu bretti og ætlaði svo að segja „Bless í bili skemmtibókmenntir“.
En það hræðilega gerðist… Joona rannsóknarlögga skildi eftir sig persónulega lausa enda og ég fylltist þvílíkum tómleika innvortis að það var nánast sársaukafullt. Ég fann fyrir óreglulegum hjartslætti og pínu verk rétt fyrir neðan þindina. Gekk fram og aftur um gólfin í húsinu og tautaði: „fara niður í Fötex og kaupa fjórðu bókina… nei, lesa vísindakenningar (sem ég á að vera gera samkvæmt bossinum mínum)… fara niður í Fötex og kaupa fjórðu bókina… nei, lesa vísindakenningar… fara niður í Fötex og kaupa fjórðu bókina… nei, lesa vísindakenningar… Fúsi sagði að þetta væri ekki eðlilegt og var viss um að ég léti eftir freistingunni því kvöldið áður hafði ég ákveðið að hætta að borða sætindi á virkum kvöldum. 5 mínútum seinna fór ég með Vask í göngutúr niður á höfn og beinustu leið í ísskúrinn til að kaupa mér súkkulaðilakkrís ís með jarðarberjafroðu!
Fúsi uppgötvaði að ég hafði verið niður á höfn (Instagram kom upp um mig) og spurði hvað ég hefði verið að gera…? Ég sagðist hafa verið að fylgjast með fallega kvöldsólarlaginu ásamt Sýrlensku flóttamönnunum og Vaski. Hann spurði hvort allir hefðu verið með ís…? Ég hafði þá skilið eftir bæði ís og jarðarberjarfroðu á efri vörinni… svo mikil var græðgin.
En nei, ég hef ekki farið í Fötex til að kaupa fjórðu Kepler bókina… þó 4 dagar séu liðnir frá lestrarlokum þeirrar þriðju.
Í staðin rugga ég fram og til baka á stólnum, reyti af mér hárið og blogga. Og stelst til að kíkja aðeins í bók sem ég er þegar búin að lesa… Elling – fugladansinn e. Ingvar Ambjörsen, hún er svo góð! og fyndin! Og meira en það! Vísindakenningarar geta beðið þar til morguns…