Plastdallapartýið

Ég verð að segja ykkur frá hverju ég lenti í um daginn. Ég lenti nefnilega í Tupperwarepartýi (Danirnir kalla þetta það). Það var þannig að það var hengdur upp boðsmiði í vinnunni og ég hafði veður af því að gestgjafinn bakaði himneskar tertur sem átti að bjóða upp á samhliða tupperware. Ég skráði mig. Og það féll í minn hlut að keyra, en kynningin átti að fara fram í litlu þorpi útí sveit. Við vorum 3 og við villtumst sem varð til þess að við komum korteri of seint. Ég hafði nú ekki áhyggjur af því, þar sem ég hélt að þetta værum bara við úr vinnunni og allt á huggulegu nótunum.

Þorpið og húsið fundum við, ruddumst inn með þónokkrum látum, töluðum hver ofan í aðra og kvörtuðum yfir veganetinu í sveitinni á þessarri blessaðri eyju og kenndum hvor annarri um að hafa villst. Þegar við komum inn í stofuna sátu 30 konur, steinhljóðar og störðu á okkur. Maður mætir EKKI korteri of seint á svona samkomu! EKKi.

Undanfari kynningarinnar var heldur ekki auðveldur. Ég byrjaði nokkrum dögum áður á að segja honum Sigfúsi að ég væri að fara á stelpukvöld. Það var samþykkt. En síðan talaði ég af mér 2 dögum fyrir partýið.

„Tupperware…! ertu að fara á plastdallakynningu??? Þú?“

Já elskan… með stelpunum… 🙂

Þetta „með stelpunum“ er heldur ekki gott í augum Fúsa… næstum jafn slæmt og plastdallapartý! Þannig að þetta saman er mjög hræðilegt.

„Þú kaupir ekki allan bæklinginn…“

Ég meina, síðan hvenær hef ég keypt „allan bæklinginn“?

Það er reyndar hægt að telja Tupperware hlutina á heimilinu á annarri hendi.

Áhyggjur eiginmannsins vörðu í 2 sólarhringa.

Allavega… sjálft „partýið“… við fengum sæti á aftasta bekk, kláruðum veitingarnar á borðinu á innan við korteri, flissuðum, pískruðum og gátum ekki setið kjurrar. Sjálf Tupperware“daman“ (sagði þetta sjálf) var fyrrverandi kennari en hafði söðlað um á framabrautinni og ákvað að freista gæfunnar innan um plastdallana. Hún gerði okkur ljóst að ef það væri ekki plastdallaskipulag í skápunum værum við andlega veikar húsmæður. Ef við geymdum ekki allt í ísskápnum í plastdöllum, værum við sóðahúsmæður og ef við matreyddum ekki í plastdallapottum værum við vonlausir kokkar. En hún gat alveg eins talað við sófann sem ég sat í og reynt að sannfæra hann um það sama. Svona bull bítur ekki á mig.

En þar sem ég var pínu súr út í eiginmanninn fyrir að hafa sakað mig fyrirfram um að ætla að kaupa allan bæklinginn, ákvað ég að hefna mín og kaupa Tupperwareplastdall handa honum…

Tupperwaredaman hafði auglýst HERRALÍNUNA vel og vandlega og gert okkur ljóst að hún eimaði af karlmennsku. Hó hó…

IMG_9065

Húsbóndanum vantaði nestisbox… en á dauða sínum hefði hann frekar átt von á heldur en að fá karlmennskubox með stórkarla pungalykt. Ef þið skoðið myndina vel, þá rýkur testosteron út úr því. Hreinlega þykkt ský…

IMG_9068

Og ekki skemmir fyrir að þetta sé hágæða merkjavara… Vinnufélagarnir eiga eftir að verða grænir af öfund!

IMG_9097Þegar ég kom með þetta heim í morgun (eftir næturvakt, ekki djamm), pakkaði ég þessu inn og að sjálfsögðu var þemað eldgos. Hvað annað? En eins og þið sjáið, þá er þetta ekki bara einn pakki, heldur fjórir (hitt fylgdi með)… Daddarra da!!! Ég fór í rúmið og sagði Fúsa að það biði hans svolítið óvænt í borðstofunni… Hann rauk fram úr og ég heyrði hvernig pappírinn flaug í allar áttir. IMG_9084

Já kæru kvenlesendur… reynið að toppa mig sem fyrirmyndar eiginkona! Það getur varla verið hægt! Fjórir fallegir Tupperwareplasthlutir á einu bretti handa eiginmanninum! Hann svífur um í alsælu þessa helgina…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *