Öll nektin
Ég er alvön að fara í sund á Íslandi og spássera strípuð innan um kynsystur mínar í sturtunni án þess að kippa mér upp við eitt og eitt blautt og nakið faðmlag svona inn á milli. Meira spéhrædd hélt ég að ég væri ekki.
Um daginn hringdi vinkona mín í mig og bað mig um að hoppa í stað annarrar á róðrarbát. Það hélt ég nú, enda þaulvanur róari frá því í fyrra þegar ég réri 4 sinnum og keppti svo.
Þessi mynd er tekin fyrir ári síðan og þarna sjáiði mig… held í bátnum sem er lengst til hægri i fjarska… í bátnum sem fyrstur.
Stína vinkona ætlaði að sækja mig á bílnum og sms’aði rétt áður en hún kom; „taktu handklæði, við förum í Víking á eftir“.
Ég: „ok“
Ég: „heyrðu… hvað með bikini???“
Stína: „nei, ekkert vesen… ekkert bikini“
Og viti menn, ég fór bara í panik…. og hellti mér yfir vesalings Sigfús minn; „ég er sko ekki að fara allsber í sjóinn með fullt af stelpum… kemur ekki til greina… ég tek mitt bikini með!!!“ Og strunsaði síðan út í bíl til Stínu, veifandi bikininu. Ég get staðið í sturtu með stelpum en vil synda í sundfötum.
Við rérum fram í rökkur og fórum því næst niður í Víkinganúdístaklúbb sem er bygging á ströndinni sem býður upp á sjóböðun allt árið, með aðskildri aðstöðu (og sjó) fyrir kynin og inn í því eru sturtur, sauna og rómantísk ljós. Rosa huggulegur staður.
Ég sat aftur í á leiðinni og ríghélt í bikiníið mitt og spáði mikið í hvernig ég ætti að bera mig að… því hinar voru aldeilis búnar að segja mér að ef ég færi í bikini, myndi ég líta út eins og viðrini. Það væri engin í sundfötum. Púnktur.
Maður þarf að vera meðlimur í Víkinganúdístaklúbbnum til að komast inn eða vera gestur eins og ég. Þær rifu sig úr fötunum og ég líka. Þær trítluðu þarnæst allsberar út og ég líka. Ég var seinust í röðinni af fjórum. Birta var fyrst. Hún stakk sér af tröppunum í 12 stiga heitt vatnið, snéri sér yfir á bakið og sönglaði hástöfum: „ohh det er så dejligt… så dejligt… det er så skønt… så skønt…“
Ég er ekki fædd í gær og veit því allt um að 12 stiga heitt vatn er ekki dejligt (indælt/gott) og því hvarflaði að mér að hika og bara bíða eftir hinum. En nei… ekki þegar Birta lá þarna svamlandi á bakinu og hinar 2 að fara að snúa sér við á bakið og söngla með henni og með útsýni upp eftir tröppunum. Ég skellti mér útí og rotaði öll smásíli í kringum mig með vissum líkamspörtum.
Ég var því miður ekki með myndavélina en þessi náðist á öryggismyndavélarnar… held að þetta séum við… að fagna.
Eftir á, var þetta ekki hryllilegt. Eiginlega var þetta bara geggjað! Æðislegt! Daginn eftir sagði ég öllum sem vildu heyra í vinnunni að ég hefði komist inn fyrir dyrnar á Víkinganúdístaklúbbnum… en vinnufélagarnir sem eru klúrar hjúkkur upp til hópa, heyrðu mig segja „Víkingamedisterklúbbur“ en medister eru tippapulsur og því héldu þær að ég hefði komist inn fyrir karla megin. Þeim fannst ég lukkunar pamfíll.
Í dag fór ég í skóginn með Vask og komum við við á leyniströndinni okkar þar sem ég borða mig sadda af brómberjum og mirabelle plómum. Þar er komin baðbryggja sem er ca. svona.
(Myndin er stolin af netinu og þetta er ekki sama bryggja en samt týpísk baðbryggja)
Við Vaskur vorum að sniglast út á endanum þegar sólgleraugun mín, sem hengju í hálsmálinu detta ofan í sjóinn. Þarna stóð og ég horfði á eftir þeim sökkva til botns! Og sagði við Vask: „sækja“… en hann horfði á mig eins og ég væri snar… honum datt ekki til hugar að fara að kafa á eftir H&M gleraugum sem kostuðu heilan 50KALL. Ég er svakalegur sólgleraugnaböðull og því væri siðferðislega rangt af mér að kaupa dýrari gleraugu. En ok, reyniði að útskýra það fyrir hundi! Ég vissi líka að það gætu liðið margir mánuðir þar til ég færi næst í H&M (sem er 650m frá húsinu mínu) og að þetta væru uppáhalds sólgleraugun mín svo ég varð að gera e-ð í málinu. Enda orðin þrælvön köldum sjó eftir nektarböðunina um daginn.
Svo ég reif mig úr fötunum og skildi þau eftir á ströndinni. Fór svo útá enda á bryggjunni og oní ískaldan sjóinn og sótti gleraugun. Kom uppúr aftur og áttaði mig þá á, þar sem ég stóð þarna í síðustu sólargeislunum, að alveg við, og þá meina ég ALVEG VIÐ pínulitlu ströndina liggur Gendarm stígurinn á milli Sönderborgar og Hörup (sem er mjög vinsæll hjólastígur) og það var umferð… Fuck. Ég snéri mér við, til að snúa baki við hópnum sem var að fara framhjá, og átti mig þá einnig á að það var miðvikudagur… dagur seglbátanna… Jibbí, allir út að sigla í kvöld… og þeir voru alltíleinu bara svo nálægt. Svo óþægilega nærri… Og fötin mín svo óþægilega fjarri. Vaskur hoppaði í kringum mig, þvældist fyrir löppunum á mér og ég vissi svei mér þá ekki hvernig best væri að snúa, hvort væri hentugra að bátarnir eða hjólahópurinn fengi skut eða stefni?