Efnishyggjan…
Undanfarnar vikur hef ég ekki komist hjá því að hugsa hvert efnishyggjan sé að fara með okkur? Síðastlin ár hefur Kähler vasinn orðið vinsæll aftur. Margar konur óska sér hann í gjafir, gefa hann í gjafir eða kaupa hann handa sjálfum sér. Því þetta vinsæl vara sem gerir að allir vilja eiga eins.
Ég fékk gubbuna upp í háls þegar ég fann út að meirihluti vinnufélagana á svona og restin óskaði sér Vasann. Almennt langar mig ekki í hluti sem allir eiga.
Nýverið hélt Kähler upp á 175 afmælið og gaf út Vasa með gullröndum í takmörkuðu upplagi. Dönsku kynsystur mínar misstu sig. Fyrirtæki auglýstu gefins Vasa á facebook… allar líkuðu þær við og allar deildu og kvittuðu! Fyrirtæki notuðu Vasann í vinning í hinum ýmsu getraunum og leikjum. Imerco (búð með allskonar eldhúsdóti, dúkum og vösum) auglýsti tilboð á Vasanum á heimasíðu sinni og aftur takmarkað upplag. Tilboðið hófst kl 10 um morguninn. Kvennþjóðin tók sér frí frá vinnu, eða hringdu sig veikar, eða sagði upp vinnu… til þess eins að vera heima og nælt sér í Vasa! Ég skil þegar fólk sest fyrir framan tölvuna til að ná sér í miða á stórtónleika en ekki Vasa.
Skyndilega varð leitin að vasanum meiri en af Hinum Heilaga Kaleik eða sjálfum Hringnum. Heimasíða Imerco hrundi þegar fleiri tugi þúsunda kvenna riðluðust á lyklaborðinu vegna Vasans! Og þegar allt hrundi, færðu þær sig yfir á facebookarsíðu Imerco og skömmuðust þar og rögnuðu með munnsöfnuði sem gefur kommentakerfi DV ekkert eftir. Þar voru þær í þúsundatali og voru svo heppnar að komast í bæði blöðin og sjónvarpið! Hver vill ekki komast í bæði blöð og sjónvarp? Já og útvarp?
Allt útaf einum Vasa…? Á 350 kall danskar?
En sumir voru þó með kímnigáfuna í lagi… reyndar karlmenn í þessu tilfelli (því konurnar grétu Vasann).
Einn skrifaði:
„Jeg forventede at I forærede dem væk efter jeres groteske og fuldkommen uacceptabel, samt inhumane og naturkatastrofale dødssynd!
HVORDAN KAN JEG LEVE MIT LIV UDEN DEN VASE?! HVORDAN?!
Jeg har droppet ud af mit studie og sagt mit job op blot for at have tid til at sidde klar foran skærmen for at bestille den vase, og nu står jeg bare her, helt håbløs og ødelagt, hvad skal jeg stille op med mig selv og mit liv? Hvad kommer der til at ske?
Alle de spørgsmål, men stortset ingen svar…“
Hann segir þarna í lauslegri þýðingu að hann hefði búist við að Imerco hefði gefið Vasana eftir þessa hryllilegu og algjörlega óviðunandi, ásamt ómanneskjulegu og náttúruhamfara dauðasynd!
Hvernig á hann að geta lifað án vasans? Hvernig?
Hann hætti í skóla og sagði vinnunni sinni upp, bara til að hafa tíma til að sitja tilbúin fyrir framan tölvuna og panta vasann…. osfrv.
Annar skrifaði:
„Hej Imerco. Jeg vil bare sige, at jeg ALDRIG nogensinde vil handle hos jer igen! Det skyldes ikke, at jeg ikke kan lide jer, men jeg er simpelthen rædselsslagen for at rende ind i nogle af jeres sindsforvirrede kunder, der er blevet ramt af denne vasepsykose“.
Hann vill aldrei aftur versla hjá Imerco. Ekki vegna þess að honum líki ekki við búðina, heldur er hann dauðhræddur við að mæta einhverjum af þessum geðbiluðu kúnnum sem þjást af vasasturlun!
Konunum á Imerco facebookarsíðunni fannst þetta ekkert fyndið. Vasinn hefði orðið barnið þeirra. Reyndar voru þær sem voru svo „heppnar“ (í augum einhverra) að krækja sér í Vasann, fljótar að pósta mynd af Vasanum á facebook… og fengu óteljandi hamingjuóskakomment… eins og þegar fólk eignast barn. Já eða annan hlut sem gerir mann hamingjusaman.
Reyndar er ég ekkert skárri… í gær fékk ég nóg, harðneitaði að þrífa ofninn á eldavélinni einu sinni enn og ekki nennti sá gamli því enda ekki með aldur fyrir þess slags bogr. Við tókum því hvort annað í höndina og fórum og keyptum nýja eldavél. Bara sí sona á sunnudegi. Alveg tandurhreina!
Og væntalega er ég týpísk kona, verð yfir mig ástfangin af hlutum.
Þessum Enska Potti þarf ég því miður að leggja. Hann er bara fyrir gamlar eldavélar. Og hér rembist ég og rembist, við að halda tárunum aftur því ég elska hann svo mikið. Hann hefur fylgt okkur síðan amma erfði mig af honum um það leyti sem Aldís fæddist. Snærið á lokinu hefur alltaf verið þarna og súpurnar úr honum eru þær bestu. Hann heitir „Enski Potturinn“ því það gleymdu honum Englendingar í Stakkahlíð, líklega um miðjan 9. áratuginn.
Pönnukökupönnuna á ég eftir að syrgja jafnmikið. Hún er líka bara fyrir gamaldags eldavélar. Pannan hefur fylgt okkkur alla okkar búskapartíð en ég man ekki hvort amma eða mamma gaf okkur hafa. Það hafa verið bakaðar þúsundir pönnukakna á henni. Og aldrei þvegin…. En það munaði samt litlu þegar M. Schumacher skellti henni í uppþvottavélina um daginn… en ég uppgötvaði það í tæka tíð og tengdasonurinn fékk á baukinn.
Með þessu áframhaldi steypir efnishyggjan okkur í gröfina fyrir rest og mokar vel yfir.