Eldfjallafræðingur…

…hvað er það? Eld fjalla fræð ing ur… þetta þarf ég að melta!

10424976_689781084432556_4037226131466105565_n

Allar starfsgreinar hafa ákveðna ímynd á sér, e-ð sem maður sér fyrir sér eða alhæfir útfrá reynslu eða orðrómi. T.d. eru píparar rólegir og vinarlegir.

Bændur eru fámálir. Hestamenn eru með íturvaxin læri og rass. Kennarar eru í köflóttum skógarhöggsmannaskyrtum og með bakpoka. Sálfræðingar eru í flauelsbuxum. Konur á kassa eru brjóstastórar. Verkfræðingar eru húmorsnjáðir. Sjúkraþjálfar eru fullir af orku og hreyfa sig eins og ballettdansarar. Sölumenn eru með svitabletti undir höndunum og tala mikið. Smiðir eru með þeim bestu í rúminu. Iðjuþjálfar eru smámunasamir. Slátrarar eru daðrarar. Gluggaþvottamenn eru áhættufíklar… og svona mætti lengi telja. Já og læknastéttin… ekki má gleyma henni.

Geðlæknar eru eins og sálfræðingarnir, í dökkbrúnum flauelsbuxum og ljósbrúnum flauelsjakka. Talandi við sjálfa sig og lausir við alla kynhvöt.

Barna og fæðingarlæknar eru alltooof mjúkir og yndælir yfirhöfuð. Það nenna fáir þeim.

Innkirtlafræðingar… jesús!

HálsNefogEyrnalæknar… æði. Þeir eru alltaf með vissan daðurs/getnaðarsvip. Það er alltaf gaman þegar þeir kíkja við á gjörgæslunni. Ég var á frábærum tónleikum á föstudagskvöldið þar sem söngvarinn í hljómsveitinni er að læra HálsNefogEyrnalækningar og ég er búin að vera með hálsbólgu síðan…

Lyflæknar (t.d. hjarta og lungnalæknar) eru miklir nördar og hafa hraðan gang.

Heimilislæknar eru snöggir eins og elding. Gleymi seint þegar ég fékk sprautu í öxlina hérna um árið. Faðir minn hafði hrætt úr mér líftóruna um að þetta yrði svo vont en Hr. Scaumborg hafði engan tíma í neitt væl heldur skaut bara í gegnum peysuna og augnabliki seinna var ég komin útí bíl. Eða þegar maður fer í leghálskrabbameinstjekk… einu sinni var rekið svo mikið á eftir mér að ég fór í kollhnís aftur á bak og endaði rotuð á gólfinu fyrir neðan höfðagaflinn á bekknum.

Þvagfæraskurðlæknar… eru með frábæra kímnigáfu, passlega klúrir og klóra sér í sífellu á vissum stöðum.

Beinalæknar eru vöðvastæltir með stórar hendur og lítinn heila (segja hinir), og eru svipaðir og smiðirnir í rúminu. Þeir telja sig bera af hvað varðar brandarahæfni og kynþokka.

En samkvæmt rannsókn (gert 2009 af Dagens Medicin með 600 þátttakendum) eru svæfingarlæknarnir kynþokkafyllstir og fyndnastir. Algjörir Femmes fatales… stórhættulegir! Casanova ganganna. Þeir fá hjörtu hinna læknanna, hjúkrunarfræðinganna og hreingerningarfólksins til að slá hraðar og það myndast gufa á gluggunum. Jú jú látið mig þekkja þetta… við stöndum þétt saman, snúum bökum saman allan sólarhringinn. Og þegar ég hringi um miðjar nætur og bið svæfingarlækninn um að koma og tékka á hvort öndunarvélin sé ekki örugglega að vinna vinnuna sína, koma þeir oft svona…

51o4UjAs5JL

… og hlusta.

En ELDFJALLAFRÆÐINGAR…
10646852_689781067765891_1666662994046996654_n

…eru þeir ekki fullir af innri orku sem leysist úr læðingi þegar síst er von á? Spúa eldi og brennisteinum og líta ca. svona út?

22897a5f0a144e0dbb1c872e0d3e282c

Sá sem ég hef hlustað á í útvarpinu í allan dag… Ármann Eldfjallafræðingur held ég að hann heiti, hann lítur svona út. Örlítið öskufallinn og brúnaþungur eftir erfiðan dag. Og það vantar ekki öxina… menn með öxi! Það er ekkert sem kemst með tærnar þar sem menn með öxi hafa hælana. Ef ég einhverntíman giftist aftur, ætla ég að giftast eldfjallafræðingi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *