Þegar brettaskórnir mínir fóru á brettakeppni.

Ég hef kynnt ykkur áður fyrir Hr. Schumacher hérna á blogginu en hann er heimalingurinn á efri hæðinni. Við nánari eftirgrennslan, kærastinn hennar Svölu. Og þrátt fyrir að vera ekki Íslendingur, þá vinnur hann á. Eiginlega alveg yndislegur 17 ára piltur. Í síðustu viku áttu þau 4 mánaða afmæli og átti að halda upp á það með lautarferð og kirsuberjum á ströndinni. En þau sváfu yfir sig.

4 mánuðir… það þykir nú  ekki mikið og varla mikil alvara í sambandinu hjá þessum börnum. En þau virðast á öðru máli, eða sérstaklega Schumacher. Eftir að hafa sótt sér bol í skápinn hjá Sigfúsi, bauð hann 3 vinum að gista í gærkvöldi. Í herbergi mágkonu sinnar!

Í morgun þegar ég fór á fætur, blöstu við mér skór…

IMG_8894

Jú jú, hjólabrettagaurar frá öllu landinu. Það er hjólabrettamót í bænum um helgina.

Og það var nú þannig sem ég vann mig inn í hjarta tengdasonarins (sem við köllum að öllu jöfnu ekki tengdason, því það er of snemmt). Á öðrum degi klæddi ég mig í strigaskóna mína fyrir framan hann og haldiði ekki að hann hafi tekið andköf… „átt þú brettaskó???“

Ég: „ha, ég veit það ekki…?“

Hann: „jú, þetta eru brettaskór…“

Ég: „já, er það?“

Hann: „cool“

Okkur hefur samið vel síðan.

IMG_8895

Þarna laumast mínir skór til að vera með hinum…

Annars hafa þessir skór sem keyptir voru  í brettabúð í Barcelona fyrir nokkrum árum, fyrr komið fyrir í sambandi. Dóttirin hefur nefnilega áður átt kærasta, og ekki nóg með að hann hafi heitið sama nafni og bróðir minn, átt sama afmælisdag og systir mín, heldur átti hann eins strigaskó á litinn og ég, nema hans voru ekki brettaskór. Enda fór sambandið útum þúfur eftir örskamman tíma.

Hr. Schumacher hafði semsagt boðið vinunum í morgunmat og hræddi þar með líftóruna úr mér… fjórir 17 ára unglingar í morgunmat… óvænt! Án undirbúnings! Ég er aldeilis óvön karlkynsunglingum á heimilinu og því eru ekki til 10 lítrar af mjólk, 3 rúgbrauð og 4 pakkar af áleggi. Ég hef bara átt stelpur og stelpuvini þeirra. Þær eru ekki matargöt. Þær eru líka álíka stórar og ég… ekki 2 metrar!

En þetta bjargaðist. Rúgbrauð, rúnstykki úr frystinum, fjall af pönnukökum og heil kanna af kaffi björguðu málunum. Já, þeir voru að Fúsa skapi þessir drengir… upprennandi kaffikarlar frá Aarhus og Odense!

En það þarf nú að standa sig, eigandi af dýrum brettaskóm. Svo við mæðgur dubbuðum okkur upp í lakk og leður (ásamt skónum) og fórum að sjá Hr. Schumacher í brettahöllinni…

Og haldiði ekki bara að okkar maður hafi hreppt 1. verðlaunin í B flokknum. Sem er flottur árangur því þeir í A flokknum voru flestir frægir og lifa af þessu sporti.

IMG_8915

Hann fékk flottan bakpoka fullan af dóti! Tvenn pör af skóm, bretti, legur, húfur, föt og allskonar fleira hjólabrettagauradót.

IMG_8929

Þarna er hann, annar frá hægri… brosandi og glaður.

IMG_8932

Svo mikið krútt hann Schumacher minn. En hversu alvarlegt er sambandið orðið þegar ég mæti á hjólabrettikeppni og Schumacher opnar hús tengdaforeldranna fyrir vinum sínum?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *