Aldurinn
Í vor var partý í Hörmarken hjá okkur vinkonunum. Við hlógum ógurlega að eigin fyndni, grettum okkur og geifluðum. Mér varð á einum tímapúnkti litið á vinkonu mína sem sat við hliðina á mér og broshrukkurnar í kringum augun á henni sem voru orðnar greiptar í hana. Ég leit yfir hópinn, það var eins komið fyrir hinum. Allar orðnar hrukkóttar af hlátri. Skyndilega fann ég fyrir ægilegri væntumþykju gagnvart öldrun vinkvenna minna. Mér fannst/finnst þær svo fallegar með þessar rákir í andlitinu.
Mér datt í hug „konur“, þótt maður tali alltaf um „stelpurnar“. Ég er reyndar ekki með á hreinu hversu gamlar vinkonur mínar eru, en held að þær séu einhversstaðar á milli 30tugs og 60tugs. Að eldast er svo heillandi og skemmtilegt (fyrir utan hvað allt verður *slappt á augabragði ef maður slappar mikið af, e-ð annað en þegar harður six packinn kom af sjálfu sér, 6 mánuðum eftir fæðingu þegar ég var 22 ára, og breytingarskeiðið maður lifandi! Ég ætla á hormóna, búin að ákveða það). Allavega hefur verið fínt að eldast hingað til og gæti ég best trúað að næstu 30 árin verði bara mjög fín. Allavega eru vinkonur mínar í fullu fjöri og gleymi ég hvað eftir annað hversu gamlar í árum þær eru orðnar. Því ég hef ekki enn vanist því að ég og mínir erum sjálf að komast á 50tugs og 60 tugs aldurinn. Því þetta eru bara tölur og ég hef aldrei verið sterk í stærðfræðinni. En aftur á móti eftir 70tugt getur allt mögulega hrunið. Fæ alveg tak í lifrina þegar ég sé mikla öldrun, hægan gang, máttleysi, jafnvægisleysi, einmannaleika og veikindi. Hugsa að ég éti bara hormóna ævilangt eins og systur mínar í USA.
En allavega núna, er gaman að eldast. Og ég get bara ekki beðið eftir að verða fertug. Fúsi var að segja mér frá rannsókn sem sýnir að afmæli séu holl fyrir heilsuna. Því fleiri afmælisdagar því lengur lifir maður! Og ef maður á alltaf afmæli á tveimur dögum eins og ég (1. og 2. ágúst), þá verð ég væntanlega hátt í 200 ára! Mér var óskað hjartanlega til hamingju með daginn í gær í vinnunni.
(Þarna sést brot af vinkonum mínum sem komu í morgunkaffi í morgun)
*Slappt… já ég orðaði það e-ð þarna áðan. Það sannaðist nú aldeilis fyrir mér um daginn að ég á héreftir að leggja allt stripp og strípl innan um fólk á hilluna. Hefði kannski átt að gera það fyrir löngu. Ég var í gallastuttbuxum og búbbíshaldara e-ð að barduxa í bakgarðinum þegar mér dettur í hug að tékka á hvort það sé e-ð í póstkassanum. Kl. var um 18 og því fáir á ferli, allir inni að borða. Ég opna póstkassann (sem er útá götu) og var hann tómur. Þá hendist Guðstengdi nágranninn út bílnum í innkeyrslunni sinni og kallar: „sæl indæla (söde), gaman að sjá þig…“ og stikar yfir götuna í 2 skrefum. Þarna stóð ég á maganum, aðeins klædd í stuttbuxur og bh. Rétt náði að draga andann djúpt ofan í lungun og keyra axlirnar aftur. Já sæll, og brosti með herkjum. Við Guð höfðum ekki hist síðan fyrir tvíburafæðinguna hans og fyrir sumarfríið mitt, svo honum fannst við hafa um margt að spjalla. Ég var föst þarna, örugglega með 2 lítra af lofti í lungunum, fött og ofandandi í rykkjum, til að missa ekki of mikið loft upp úr mér í einu og ekki einu sinni með póst til að skýla mér með. Það gerir magann nefnilega sléttari ef maður þenur út brjóstkassann og fettir sig aftur á bak. Þetta er einnig besta stellingin í myndatökum ef maður vill lýta út eins og Pam. Anderson.
En já, ég stóð þarna og hlustaði brosandi en brátt fór mér að svima því koltvísýringurinn var að verða búin. Og Guð var í miðri fæðingarlýsingu, aðeins komin á barn nr. 2 og ég vissi að fylgjan myndi fylga á eftir. Ég velti fyrir mér 2 möguleikanum:
- að leyfa mér að blána, líða útaf sæmilega útlítandi, láta hann gefa mér tvíhliða hjartahnoð á meðan ég lægi á bakinu með nokkuð sléttan maga (maginn er bestur þegar legið er á bakinu).
- að endurnýja loftið í lungunum, eiga á hættu að missa magann útum allar trissur og þá aðallega útyfir buxnastrenginn og missa af tvíhliða hjartahnoðinu á heitri gangstéttinum í skugga póstkassans.
Ég valdi nr. 1 og hef hvorki fyrr né síðar verið svona tengd Guði!
Ég fer aldrei á maganum útá götu aftur.
(Okkur finnst best að myndast ofan frá því þá er engin undirhaka)
Þegar ég byrjaði á gjörgæslunni fyrir 4 árum síðan var notað risastórt blað til að skrá allar tölur (blóðþrýsting, púls, vökva, lyf ofl.) niður á klukkutíma fresti. Sjálfar skýrslunar voru löngu komnar í tölvuna. Beta (sem ég gerði að draug um daginn) skrifar svo agnar agnar smátt að það er leitum að öðru eins. Vinnufélagarnir kvörtuði í sífellu, sáu ekki tölurnar og það var keypt stækkunargler… Ég átti ekki í neinum vandræðum og gerði óspart grín af sjóndepurð vinnufélagana. Stuttu seinna fór þetta blað líka í tölvuna og nú gengur engin um með kúlupenna og ég hef ekki séð skriftina hennar Betu í mörg ár.
Í vikunni bað ég Svölu um að gera innkaupalista, sem hún gerði og rétti mér…
Ég bað hana vinsamlegast um að koma með út að versla… afhverju þarf fólk alltaf að skrifa svona smátt???
Eigið góðan dag 🙂