Útlendingar

19. júlí hvarf 21 ára kona frá Padborg sem er bær við landamærin. Hún fannst í gær við hraðbrautina skammt frá Padborg, dáin. Í morgun heyrði ég í fréttunum að fyrrverandi kærasti hennar væri í varðhaldi, ákærður fyrir morð. Ég var stödd í litlum hópi fólks fyrir hádegi í dag og talið barst að þessum hræðilega atburði. Þá segir einn: „hann (morðinginn) er auðvitað útlendingur, enda þeim líkt…“. Ég spurði hvort hann hefði verið Normaður eða Argentíni? Ha? Normaður? Ég benti á að viðkomandi hefði sagt að hann væri útlendingur… Já nei, hann er einhver múslimi, þetta er svo týpískt fyrir þá…! Ég spurði hvort það væri gleymt þegar peru danskur Dani drap fyrrverandi konu sína og börn í nágrannablokkinni minni árið 2007? Linkur hér

Þegar ég kom heim, fletti ég yfir facebook og sá þar frétt þar sem talsmaður Venstre (blárra) talar um breyttar áherslur fyrir innflytjendur þar sem á að fara gera kröfumun eftir löndum. T.d. meiri kröfur á Sómala sem eiga erfitt með að aðlagast dönsku samfélagi. Fréttin var allt í lagi, ég hef ekki nógu mikla þekkingu til að vera með eða á móti, en það fer ekki fram hjá neinum að það þarf að gera e-ð til að hjálpa fólki að aðlagast. Það sem sló mig voru athugasemdirnar. Maður minn lifandi! Hópur Dana gekk berserksgang, vildu loka landamærunum, vildu ekki flóttafólkspakk inn í landið sitt, töldu þetta rænandi og ruplandi lýð sem þæði bara og þæði en gæfi ekkert til baka. Þeir vildu meina að ef fólk gæti ekki séð fyrir sér og sínum ætti það bara að vera heima hjá sér í sínu eigin föðurlandi! Og hana nú. Þeir lækuðu svo hart hjá hvort öðrum.

Í fréttunum á RUV í gærkvöldi var sýnt frá hörmungunum á Gaza svæðinu -meira að segja asnarnir eru sprengdir, eða svona nokkurnvegin, þarna lágu þeir hálflifandi í sínu eigin blóði og blóði barnana í kring. Fólkið getur ekkert farið, FN búðirnar eru sprengdar, skólarnir og sjúkrahúsin sömuleiðis. Ekkert athvarf, ekkert öryggi.

Ef við segðum sem svo að þetta eftirlifandi fólk á Gazasvæðinu kæmist í burtu og alla leið í öryggið í Danmörku, höldum við að það ætti auðvelt með að aðlagast? Höldum við að það geti lært dönskuna á stuttum tíma, hvernig þingið er byggt upp og hvað ráðherrarnir heita?

Til að læra, þarf öryggi, manni þarf að líða vel og finnast maður velkomin.

Þegar Íranir komu til Danmerkur á níunda áratugnum, voru þeir látnir hafa reiðhjól. Fæstir höfðu nokkurntíma hjólað og kunnu því ekki að hjóla. Fæstir fengu sálfræðitíma.

Árið 2002 vann ég á leikskóla í nokkra mánuði. Á þessum leikskóla var hópur Bosnískra barna. Öll börn fórnalamba Balkansstríðsins. Ég man sérstaklega eftir einum foreldrum. Hún var jafngömul mér, hann aðeins eldri. Hún var frosin á svipinn og pirruð við börnin. Oft hristi hún þau og einstaka sinnum fengu þau löðrung inn á leikskólalóðinni. Hann keðjureykti, flissaði og skalf alltaf eins og hrísla. Börnin voru oft ílla nestuð og afskaplega tætt. Það var talað um að hún hefði lent í nauðgunarbúðum og að hann hefði bæði verið á víglínunni og pyntaður. Árið 2002 var tveggja ára biðlisti í áfallahjálp í Vejle. Þau voru bæði á biðlistanum. Hvernig getum við ætlast til að svona fólk sjái fyrir sér, geti hugsað almennilega um börnin sín og séu fullgildir meðlimir atvinnumarkaðarins? Fólk sem skelfur bara.

Hælisleytendur í Danmörku geta þurft að bíða allt upp að 10 árum eftir úrskurði. Aðbúnaðurinn er ekki alltaf upp á marga fiska, sálarleg hjálp er af skornum skammti og það eru ekki mörg ár síðan börnin gengu í sér skóla á vegum Rauða krossins. Og við erum steinhissa á glæpatíðninni í kringum þessi hæli eins og t.d. Sandholmlejren á Sjálandi?

Sum flóttafólksbörn alast upp hjá íllaförnum foreldrum sem geta hvorki annast sjálfa sig né börnin. Sumir eru ólæsir á sínu eigin tungumáli og eiga því erfitt með að læra annað. Sumir hafa allt aðra trú en við og vilja að börnin alist upp við hana. Börnin alast því oft upp í tveimur gjörólíkum menningarheimum, annarsvegar á heimilinu og hinsvegar í skólanum. Sumir segja að ef fólk „velur“ að koma til DK, frekar en að búa í stríðshrjáðu landi, eigi það bara að aðlaga sig danskri menningu. Ég kem frá Íslandi, verð íslenskari með hverjum deginum og held fast í mína siði og menningu. Annað kæmi ekki til greina. Ég get ekki aðlagast fullkomnlega og myndi skítfalla á aðlögunarprófinu sem flóttafólkið þarf að taka. Þar er spurt útí kóngafólkið árið 1500, stjórnmálamenn í byrjum 20. aldar, eyðieyju fyrir norðan Fjón osfrv. Þetta er bara ekki sanngjarnt.

Árið 1907 byggði keisaralegi þýski sjóherinn, sjóherstöð í Sönderborg. Stuttu seinna var byggt sjóhersjúkrahús sem er í dag hluti af núverandi sjúkrahúsi. Eftir seinna stríð var byggingin notuð til að geyma lík af Dönum sem höfðu dáið í útrýmingarbúðum nazista. Árið 1961 varð þetta að liðsforingjaskóla. Í ár var honum lokað.

2013-11-27 11.09.49

Þarna sést hluti af honum. Myndin er tekin frá sjúkrahúsinu.

Nú er komin upp sú hugmynd að gera þetta að flóttamannahæli fyrir Sýrlenska flóttamenn. Bæjarbúar eru margir hverjir æfir! Vilja ekki skítugt glæpahyski í sinn bæ. (Skítugt glæpahyski er tekið úr athugasemdum úr umræðu á netinu í dag). Vilja heldur ekki útlendinga í þetta fallega og sögulega hús (einnig tekið úr athugasemdum á netinu). Þeir sem eru á móti eru bara á móti. Geta ekki rökstutt það neitt að ráði. Ekki einu sinni bæjarpólitíkussinn (venstre/blár) kom með svör. Hann sagði bara nei! Ég sjálf, veit ekki hvort þetta húsnæði hentar eða ekki, hef ekki nógu mikið vit á svona löguðu til þess, ég get allavega hvergi lesið góðan rökstuðning á móti, en að byggingin sé falleg og söguleg eru ekki haldbær rök.

Það nenna fæstir að taka á vandamálum flóttafólksins. Það vilja fæstir hafa það við hliðina á sínum garði. Og aldrei myndum við sjálf vilja vera flóttafólk. Því það er bara „skítugt glæpahyski sem drepur konur“? Það lenda alltaf einhverjir út af sporinu, kannski af því að það er einungis látið hafa reiðhjól í staðin fyrir sálarlega hjálp og sagt að hjóla í góða veðrinu þótt það kunni ekki að hjóla.

Ég er svo innilega þakklát fyrir að koma frá Íslandi þar sem fordómaleysi og náungakærleikur er við ríki, sérstaklega gagnvart öðrum kynþáttum, t.d. Pólverjum og kynsystrum mínum frá Asíu…(?)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *