Spákonuferð mín fyrir 12 árum síðan

Fyrir mörgum árum, þegar við vorum nýflutt til Sönderborgar var mér boðið á fund alvöru spákonu. Ég hafði alltaf verið afskaplega skeptísk á allt svona og það hvarflaði ekki að mér að borga krónu í þessháttar kukl. Fyrstu búskaparárin okkar bjuggum við í Fellabæ city og þar iðaði þorpið af fólki sem sá í gegnum holt og hæðir. Og ef það þurfti að krydda kuklið voru þeir pantaðir að sunnan. Eða að norðan. Eins og ég sagði, ég harðneitaði að taka þátt. En þegar samlandar mínir í Sönderborg sannfærðu mig um að spákona staðarins væri alvöru og hún hafði sjálf boðið mér, ákvað ég að slá til.

Það var hávetur og spákonan tók á móti mér í dimmri og leyndardómsfullri íbúðinni. Lokaði karl, börn og buru ofan í kjallara svo friðurinn væri algjör hjá okkur tveimur og útbjó sérstakt kaffibland. Hún var svarthærð með mjallahvíta húð, munnstór, há og grönn. Ég var frekar spennt.

The_Clairvoyant_by_FlorDeMetal

Hún byrjaði á að segja mér að það væri ekkert að óttast… að hún sæi ekki dauða né alvarleg veikindi fyrir því ef það væri málið, myndi viðkomandi ekki koma fram hjá henni… sem sagt, hún finndi ekki neitt! Svo við hefðum það nú á hreinu!

Fearful

Eins bláeygð og ég get verið, fannst mér þetta pínu draugalegt! Hvað nú ef ég spyrði: „á ég eftir að verða rík?“ „Hmmm, tja, ég sé þig ekki, þú kemur ekki fram hjá mér…“.

En spákonan kunni lagið á mínum líkum. Hún fór beint inn á framtíðarstarfið og sporaði sig inn á sjúkrahúsið (þá var ég búin að skrá mig í sjúkraliðann). Hún sagði að ég ætti eftir að hjóla töluvert (??? tilviljun ??? ég var jú í DK). Hún sagði að við ættum eftir að eignast lítin strák… eða kannski hund, hún var ekki viss (líkurnar voru gífurlegar, 27 ára gömul). Hún sagðist líka sjá hús, annað hvort í DK eða Íslandi (???). Vá hvað þetta passaði! Ég hoppaði hæð mína og vel það!

happy-woman

Eftir að ég hafði fengið hinar og þessar upplýsingar um vini og ættinga, þar á meðal svæsnar og safaríkar, áræddi ég að spyrja um fullorðin mann sem stendur mér nær. Þá sagði spákonan: „ég sé ekkert um hann, finn barasta ekki neitt!“ 

scared_woman

Allt blóð hvarf úr líkama mínum, lak eftir gólfinu, gegnum þiljarnar og niður í kjallarann hjá spákonunni. Skjögraði út og heim til mín, féll máttlaus í fangið á eiginmanninum og tilkynnti honum um yfirvofandi dauða afskaplega náins ættingja. Grét meira að segja. Sigfús gerði sig herðabreiðan og sagði mér að trúa ekki þessari vitleysu! Að það væri engin að deyja á næstunni.

En þetta sat í mér alla vormánuðina og alveg þangað til þessi kæri maður heimsótti okkur um sumarið. Ég var enn sannfærð um sannmælgi spákonunnar og því var þetta væntanlega síðasta heimsókn mannsins. Við vorum öll útkeyrð eftir þessa 5 daga, því ég hafði ákveðið að maðurinn ætti að sjá sem mest af Danmörku síðustu daga ævi sinnar. Við fórum því í 2 dýragarða, 1 skordýragarð, útá eina eyju, versluðum í Sönderborg, versluðum í Flensburg, skoðuðum hallir og garða, og keyrðum þvers og kruss eftir Danmörk endilangri. Það voru allir hættir að halda haus í bílnum nema ég.

Maðurinn er sprelllifandi í dag, 12 árum seinna.

Þegar Þórhallur Guðmundsson miðill var auglýstur hér í Sönderborg í gær og ég sagði Fúsa að ég ætti nú kannski bara að skella mér til að skyggnast dýpra inn í líf mitt, hann hefði nú verið svo góður í útvarpinu hérna í denn, sagði Fúsi: „Ó NEI, ég meika ekki annað eins tímabil í sambandinu!“

Hugsa að ég verði bara heima…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *