Aldís og Hengifoss
Næst síðasta daginn minn á Íslandi fórum við Aldís upp að Hengifossi. Ég hafði ekki séð hann í fjölda ára og hún aldrei. Veðrið var hlýtt og gott og lá leiðin í gegnum Hallormstað þar sem ég kom við til að sýna henni Hússtjórnarskólann og segja henni frá þegar við vinkonurnar sköffuðum okkur skrúfjárn og brutumst út að nóttu til, til þess eins að heimsækja strákana í Hallormstaðaskóla. Ég sýndi henni leiðina og sagði frá atvikinu í smáatriðum. Ég var 14 ára þegar þetta gerðist og var bara nokkuð lúnkin með skrúfjárnið. Aldís sagði: „mamma þó!“
Leiðin upp að Hengifossi og niður aftur tekur tæplega klukkutíma. Við gátum varla rennt bakpokanum því ég hafði nestað okkur svo vel. Við ætluðum ekki að svelta. Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast í göngum, reiðtúrum og lengri hjólatúrum, er að borða nesti. Elska hreinlega nesti útí náttúrunni. Í gamla daga þegar við riðum í Loðmundarfjörð yfir Tó, var alltaf borðað nesti á Múlanum. Ég man hversu skítug á höndunum ég var orðin þá. Hestarnir búnir að vaða mýrarnar, sveittir og skítugir og ég eftir því. Nestið á Múlanum var besta nesti í heimi, kramdar rækju eða hangikjötssamlokur og volg kókómjólk. Kannski súkkulaðikex líka. Þegar mamma tók þetta uppúr drullugri hnakktöskunni, slefaði ég nánast. Síðan sat maður þarna, í gufunni af hestunum sem síðar breyttist í úða því flestir þurftu þeir að pissa. En mér var alveg sama. Þetta var besta máltíð í heimi. Seinni nestispásan var á Klifunum… þá var allt orðið enn skítugra, kramdara, volgara og ENN BETRA og allir klárir í brattann.
Þetta var smá hjáleið… varð að deila nestisást minni með ykkur.
Við Aldís fórum semsagt upp að Hengifossi og þar sem barnið er ágætlega upp alið, kann hún að nýta það sem náttúran býður upp á. Myndavélin hafði bilað kvöldið áður og því var síminn bara með í för. Endalaust svekkelsi það, þegar myndavélin er farin að fylgja manni hvert fótmál, en það hindraði mig ekki í að taka myndir af öllu sem barnið gerði.
Hengifoss er þriðji hæsti foss landsins, 118m og leiðin upp að honum er gullfalleg ef maður heldur sig alltaf við brúnina á gilinu.
Aldís er hinn besti ferðafélagi, róleg, talar ekkert sérstaklega mikið og í ágætis formi. Hún pósar þegar ég segi henni að gera það og er ekki lofthrædd. Er eiginlega ekki hrædd við neitt.
Heldur ekki hrædd við skilti sem varar við „mjög“ hættulegum skriðum?!? Þarna áttuðum við okkur á því að Hengifoss, ein af náttúruperlum Héraðsins er eiginlega bara álíka og Esjan… eiginlega algjört túristadæmi og missir mikin sjarma þegar maður varla þverfótar fyrir ferðamönnum á stígnum og þarf að bíða og bíða til að losna við ókunnugt fólk á myndunum sínum, auk þess fékk ég ekki bílastæði og þurfti að leggja útí skurði.
En auðvitað vilja allir sjá þennan fallega foss í þessu góða gönguveðri. Alveg eins og við.
Litlanesfoss er líka á leiðinni þar sem stuðlabergið er svo fallegt og sérstakt. Hengifoss er í fjarska.
Það var ágætlega mikið í ánni vegna hlýinda og bráðnunar jökla…
Aldísi datt í hug að fá sér sopa úr straumnum…
…en áttaði sig á að það gæti fari vatn í augun og maskarinn blotnað og runnið til.
Hætti því við
og skrifaði í gestabókina.
Ef maður væri jarðfræðingur, væri þetta örugglega enn skemmtilegri ganga og maður vissi meira. Ég er svoddan rati í svona… eina sem ég veit er að þetta hefur e-ð með hraun, storknun og aldur að gera. Allavega stuðlabergið… er ekki alveg viss með þetta á ofanverðri mynd. Hlýtur að vera svipað.
Lítið brot af nestinu, eiginlega einum of heilt og hreint. En samt bragðaðist þetta unaðslega.
Ég meinti þar sem ég sagði áðan… Aldís er yndislegur göngufélagi og finnst skemmtilegt að vera útí náttúrunni. Ég skildi öll útivistarfötin mín eftir á Íslandi og því er hún til í hvað sem er. Þessvegna er tilvalið að taka hana með í gönguferðir ef hún er í fríi og fólki vantar þægilegan félagsskap. Hún er eins og ég; er til í flest, segir bara já og brosir 🙂
Hugsa sér! Að hún skuli vera flutt tímabundið að heiman… flutt frá mömmu til ömmu! Ég hélt ég myndi verða eyðilagðari en ég er. Líklega líður mér bara ágætlega þar sem það er væntanlega eðlilegt að feta sig frá heimilinu að verða 19 ára og gott að vita að henni líkar mjög vel í vinnunni á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Einnig er gott að vita af henni á föðurlandinu og er það einlæg ósk mín að ég eignist íslenskan tengdarson með tímanum og treysti ég því á vini og ættingja að hafa augun opin og klærnar úti. Nóg er nú danskan samt.