Flughræðsla er ekkert grín.

Þegar ég flaug suður um daginn var vélin nánast full… af Eistnaflugsgestum. Ég hafði tekið eftir ungum manni fyrir aftan mig í innritunni, stóran á velli, rauðbirkinn með gítar sem hann plokkaði í röðinni. Ég settist við gluggann í 4A. Sá stóri settist við hliðina á mér. Hann var ekki bara stór, hann var alvöru heljarmenni.

220px-AM426_Grettir

Klæddur brúnum snjáðum leðurjakka, barni síns tíma, gráum gallabuxum og strigaskóm nr 49 minnst. Hann var mjög rauðbirkinn, sérstaklega í andliti, eiginlega eins og karfi vegna sólbruna, hálf fullur, uppundir 2 metrar og langt yfir 120 kg. Langt langt! Um leið og hann settist, þrengdi hann mér upp að veggnum þannig að mjaðmaummálið mitt sem venjulega er rúmlega 90 cm varð einungis 47 cm. Allt annað á mér minnkaði einnig, ég var bókstaflega eins og sardína í alltof lítilli dós! Afhverju er ekki raðað í sæti eftir kílóum? Eða ummáli? Annað er bara ekki sanngjarnt! Finnst hart að borga 24.000kall fyrir að sitja eiginlega á veggnum í vélinni! Hvað um það, hann spennti beltið, pantaði 2 lítra af vatni fyrir flugtak og spurði mig hvort ég fílaði að fljúga? Já, sagði ég og brosti, finnst það frekar afslappandi, sofna oftast bara. Hann sagðist hata það og strauk hratt yfir andlitið. Þambaði vel úr flöskunni og strauk sér aftur.

Ég sat þarna, inniklemd og það byrjaði að svífa á mig. Mig langaði líka í vatn. Áfengis remman af honum og öllu hinu Eistnaflugsfólkinu fyllti öll mín vit og lungu en komst ekki út aftur fyrir þrengslum. Þetta átti eftir að verða athyglisvert flug. Og þarna þurfti ég að velja á milli þess að sofa eins og venjulega eða vera þeim stóra til halds og trausts, því flughræðslan leyndi sér ekki hjá honum. Ég ákvað að vera góða gellan þennan dag. Strax í flugtaki byrjaði ég að spjalla og spurði hvort hann hefði ekki verið á Eistnaflugi?.

Hann: „ha jú“.

Ég: „var gaman?“

Hann: „ha já“

Ég: „var Skálmöld góð?“

Hann: „ha, veit það ekki, sá þá ekki held ég“

Ég: „hvað með Sólstafi?“

Hann: „Sá þá heldur ekki“

Ég: „Angist?“

Hann: „ha, hvað er það?“

Ég: „Sástu þá Jónas Sig, hann var í gærkvöldi?“

Hann: „ha, Jónas? hver er það“

Ég: „kræst, hvað varstu að gera þarna? dorga?“

Hann: „ha nei, bara var þarna sko, á tónleikum og svona“

Á meðan ég spurði hann spjörunum úr, strauk hann ótt og títt yfir andlitið án þess þó að taka svarta horköggullinn með sem sat greinilega sem fastast í vinstra nasahorninu. Ef ég spurði ekki einhvers, þá spurði hann mig: „hvað er að gerast?“

Ég: „ha? ekkert…“

Hann: „jú, var hún ekki að hristast eitthvað?“

Ég: „ha nei, ekki fann ég nú fyrir því.“

Hann: „nú ok, gott maður.“

Flugtakið var í austurátt og þurfti vélin því að taka beygju og fljúga inn með Fljóti. Stóra leyst ekkert á beygjuna, byrsti sig og spurði hver andskotinn væri í gangi??? Ég spurði hann hvort hann hefði pantað flug til Noregs…? „Ha, Noregs? nei, afhverju?“ Þá þurfti ég að útskýra fyrir honum áttirnar og hvar hann var staddur og afhverju við beygðum… að við værum nú að fljúga inn eftir Lagarfljótinu. „Ha, Lagarhvað?“

Fljótlega eftir að hann settist við hliðina á mér fann ég e-ð rakt við lærið á mér. Það var bara hann, límdur upp að mér. Brosandi flugfreyjan sem heitir Júlíana kom og bauð upp á kaffi, te og vatn. Hann spurði hana hvar við værum nákvæmlega og benti á mynd af Íslandi á höfuðservíettunni á sætinu fyrir framan hann. Hún sagðist halda að við værum nýbúin að fljúga yfir Snæfellið. Hann spurði þá hvað það væri nákvæmlega langt eftir í mínútum og kílómetrum!

Yfir Snæfellinu voru buxurnar mínar orðnar blautar og ég fann hvernig húð heljarmennsins límdist við mig í gegnum tvenn gallabuxnalög. Ég þakkaði Ágústu í hljóði fyrir að hafa gert lærið mitt mjúkt og hárlaust eins og barnsrass. Held samt að hann hefði ekki tekið eftir neinu þótt ég hefði verið með læri á við górillu eða krókódíl.

Í hvert skiptið sem flugfreyjan gekk framhjá spurði hann að því sama… lengd í mínútum og kílómetrum takk! Þegar hún sagði að við værum ca. yfir Landmannalaugum, spurði hann hvort það væri ekki heldur afskekkt???

Þegar við byrjuðum að lækka flugið og koma inná höfuðborgarsvæðið, hallaði hann sér yfir mig… eða nei, hann lagðist yfir mig og benti út um gluggann: „hey, þarna er skeiðvöllur“… „og þarna er annar skeiðvöllur… vá!“ Ég sá engan skeiðvöll enda með heljarmenni af stærstu gerð þvert ofan á mér í sitjandi stellingu… horfandi á skeiðvelli! Hann þurrkaði svitann framan úr sér og sagðist hata lendingar meira en nokkuð annað. Ég gat engu svarað. Síðan benti hann aftur og sagði að bróðir sinn byggi þarna. Ég spurði hvar við værum. „Nú yfir Norðlingaholtinu -sérðu það ekki?“ Nei vinur, ég sé bara þig og þinn breiða háls!“

Vegna hatursins á lendingum svitnaði hann enn meira og ég fann hvernig mestmegnið lak af honum og beint í kjöltuna mína… ég var að verða rennandi blaut með hann ofan á mér. Og örlítið æst… eða óþolinmóð myndi ég frekar segja. Minnti mig á þegar ég var einu sinni að taka slagæðarblóðprufu á svalri, íturvaxinni rokkaratýpu og akkúrat þegar ég sting, kippir hann að sér hendinni og ég sting sjálfa mig! Svona stungur þýða hellings vesen og ferli (fyrir utan smithættuna). Ég varð alveg æf inn í mér en hélt mig á mottunni og sagði mest lítið, reyndi að skilja. Alveg eins og í vélinni… nálahræðsla – flughræðsla… og svona stórir strákar? Reyndi líka að skilja.

Er við lentum tilkynnti sá stóri að hann ætlaði að skrá sig á flughræðslunámskeið hjá Icelandair… Já er það, sagði ég og bætti við að það væri alveg brilliant hugmynd. Rétt áður en vélin stöðvaðist, skaust hann upp úr sætinu eins og korktappi, kramdi tóman 2 L vatnsbrúsann í litla kúlu og hristi sig. Ég rétt náði að klappa á öxlina á honum áður en hann skaust upp og sagði: „Þú stóðst þig vel vinur“.

Já nei, það er ekkert grín að vera flughrætt heljarmenni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *