Aftur á Borgarfjörð… Jónas -Já sæll!

Í gær bauð ég eiginmannninum honum Sigfúsi frá Fellabæcity á tónleika. Eiginlega var þetta ekki val, heldur skipun. Ég verð seint talin sú rómantíska því ég breddast bara áfram í gegnum hversdagsleikann og því var eins gott fyrir hann að fylgja mér eftir, loksins þegar tækifærið bauðst. Þar sem ég hef geðvonskast heima hjá mér á Myllugötunni í DK síðastliðin 2 sumur yfir að missa af hverri tónlistaruppákomunni á eftir annarri á Borgarfirði og sparkað í allar borðlappir á heimilinu, hoppaði ég hæð mína og ef ekki hærra þegar ég sá Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar auglýstan í Dagskránni. Þessa uppákomu varð ég að sjá og heyra.

Við brunuðum af stað, ég keyrði því ég vildi mæta snemma. Ég bjó til örnefnagetraunaleik sem gekk útá það að vera fyrstur til að segja hvað allir sveitabæirnir, fjöll, þúfur og skörð í Hjaltastaðaþinghánni, Njarðvíkinni og Borgarfirði heita. Fúsa fannst þetta afburða leiðinlegur leikur því hann vissi aðeins eitt nafni, og það voru Dyrfjöllin… og ég sagði það á undan. Það lifnaði samt yfir honum þegar við vorum í Narðvíkurskriðum og ég benti honum á Fúsagil. Honum fannst það fallegt og bað mig um að taka mynd af því og það var þá sem ég fékk sjokkið. Myndavélin var látin… steindauð. Neitaði að taka mynd.

Það þurfti ekkert að ræða það frekar, gilinu var gleymt og því var haldið í Álfakaffi í kvöldmat. Og ekki nóg með að fiskisúpan hafi verið á sínum stað… Kalli var það líka. Fúsi heillaðist upp úr skónum af bæði súpunni og Kalla. Enda gamlir viskí spekúlantar frá seinnihluta síðustu aldar.

Síðan var það Fjarðarborg, í annað sinn í þessu sumarfríi. Og það sem ég hafði hlakkað til. Þótt Jónas hafi þróast heilmikið frá því að vera Trassi, Sólstrandargæji og yfir í Ritvélarnar, þá er hann fyrir mér, enn sá almesti trommuleikari sem ég hef upplifað… stærri en Lars U. Ég hafði aldrei séð annað eins þegar ég var 16… og það gleymist seint.

10526907_10203824334036442_129458924_o(Myndin er fengin að láni af Já Sæll Fjarðarborg síðunni)

Jónas getur enn trommað og það sem meira er… röddin í honum hefur ósköp svipuð áhrif á mig og röddin í Pálma Gunnars. Þótt mér dytti seint í hug að líkja þeim tveimur saman þá gerist bara e-ð með þessar raddir. E-ð sem best er að ræða ekki svona opinberlega. Finnið þið þetta kannski líka? Já nei, ætlaði ekki að bora meira í þetta.

Og hver annar en Jónas kemst upp með að mæta með einskonar Big Band (?) inní Fjarðarborg? Og kór? U.þ.b. 15 manns á sviðinu, skapandi e-ð sem erfitt er að lýsa en auðvelt að upplifa.

Þetta sumarfrí… sem byrjaði með svo mikilli rigningu og grámygluleika… það er held ég, alveg að fara fram úr sér! Allt að gerast og allt sem gerist er skemmtilegt.

IMG_6432

Læt mynd fylgja með (klikkið og stækkið) sem ég tók um páskana af Eiðum og Eiðavatni, í takt við eitt lagið á tónleikunum, með kærri þökk fyrir yndislega upplifun!

P.s. Og haldiði ekki að Pálmi Gunnars sé að koma í Fjarðarborg um næstu helgi… dvölin er hér með framlengd!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *