Austurglugginn part 3
Sumir sunnudagar eru bara ömurlegir! Þar á meðal þessi… alveg þangað til ég hringdi á Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupsstað áðan til að heyra hvernig pabba liði en hann var lagður inn í gær, orðin ílla haldin af krabbameini og öðrum fylgikvillum. Ég talaði við hjúkkuna hans sem gaf sér tíma til að hlusta á mig og skælið í mér og útskýrði svo fyrir mér stöðuna. Svona manneskja eins og þessi hjúkka (hún heitir Birgitta) er hrein himnasending… kannski alvöru engill. Þvílíkt sem hún reddaði restinni af deginum fyrir mig. Mín veika hlið er nefnilega að vera aðstandandi úr fjarlægð. Mín sterka hlið er aftur á móti að taka slagæðarblóðprufu og stilla öndunarvélina eftir henni… það er pís of keik! Vildi að ég gæti gert e-ð álíka við pabba og að allt væri í góðu.
Þessi lokaorð birtust í Austurglugganum 6. júní, 20.tbl. 2014.
Fjarlægðin…
Uppáhalds árstíminn minn í Danmörku er vorið. Hitabylgjan í mars, litadýrðin í apríl og grillsteikurnar í maí -lífið er ljúft í útjaðri Baunalands þegar sólin hækkar á lofti. En á bestu bæjum getur eitthvað raskað vorinu og gert það að verkum að maður tæpast sér blómin springa út og gleymir að fara úr úlpunni.
Þetta vorið komu upp veikindi í föðurhúsunum og varð fjarlægðin skyndilega mikið lengri en venjulega á milli Sönderborgar og Héraðsins. Ég fann hjá mér mikla þörf fyrir að koma heim til Íslands og linnti ekki látunum fyrr en vinnufélagarnir höfðu tekið vaktirnar mínar og ég var á leiðinni út á flugvöll. Ég mætti á svæðið með vissar væntingar um að geta orðið að liði, jafnvel gert eitthvað af viti…
Bú foreldra minna hefur heldur dregist saman frá því ég var barn og eru núna aðeins tylft hesta á bás, handfylli kinda í kró og hrúturinn út í horni. Því eru verkin ekki langsótt. En til að finnast ég vera einhvers nýt, þá ákvað ég að skítmokstur væri eitthvað fyrir mig. Ekki gat ég hugsað mér að óhreinka bæjarfötin mín, hvað þá skónna! Því fann ég alvöru hesthúsaskó nr. 43 af föður mínum og gamla lopapeysu sem ég hafði sjálf prjónað árið 1996. Lopapeysan er sú fallegasta flík sem ég hef gert en jafnfram sú stærsta. Hún rúmar 3 manneskjur og það eru engar ýkjur. Ekki veit ég hvað mér gekk til í prjónaskapnum þarna um árið og sérstaklega í ljósi þess að ég var þónokkrum prósentum léttari á 20. öldinni en vorið 2014.
Morgunstúrin og með hárið í allar áttir, arkaði ég út í hesthús í fatnaði sem flæktist að mestu fyrir mér. Fann mér tilheyrandi græjur og byrjaði skítmoksturinn. Ég skóf, sópaði og að endingu átti skíturinn að fara út um gatið og út í skíthúsið. Mamma hefur líklega fylgst grannt með aðferðum mínum því allt í einu heyrði ég hana segja: „þú verður að skutla skítnum almennilega stelpa, annars flæðir hann aftur inn“. Það var þá sem ég tók mig saman í andlitinu, reif mig úr 3ja manna peysunni og hófst handa við að skutla skítnum. Og það sem ég náði góðum tökum á þessu sporti. Ég hitti hjólbörurnar af 25 metra færi, skíthúsgatið á 15metra færi og ég lýg því ekki… skíturinn flaug út úr skíthúsinu, yfir Eiðalækinn, langt út á tún, beint í gæs sem bara steinlá. Hún var höfð í kvöldmatinn það kvöldið.
Síðan fór ég aftur heim til Danmerkur. Tilfinningarnar voru blendnar, það var gott að koma heim til Danmerkur til fjölskyldunnar og í hversdagsleikann en erfitt að fara frá fjölskyldunni á Íslandi og ég gat ekki varist þeirri hugsun að ég hefði átt að moka skítinn oftar en þrisvar á 17 dögum. Það getur nefnilega verið strembið að uppfylla sínar eigin væntingar um að verða að liði þegar flókin veikindi eru annars vegar. Hvernig var það, var enginn seyðfirskur flokkur með kosningarloforð um neðansjávargöng til Danmerkur til að stytta leiðina á milli Íslands og Evrópu? Ég yrði ekki lengi að skutlast á milli og gæti komið eftir þörfum og kannski gert gagn annað slagið.
Ljósmynd: Mamma