Svona höldum við upp á 17. júni
Gleðilegan þjóðhátíðardag kæru landar. Lengi lifi sjálfstæðið!
Síðasta sunnudag héldum við daginn hátíðlegan með pompi og pragt hérna í Sönderborg. Reyndar er allt sem við gerum á vegum Íslendingafélagsins, gert með pompi og pragt.
Þarna er Kristín forstjóri Íslendingafélagsins, með stjórnarhúðflúr í andlitinu.
Við erum aftur farin að nota gamla A kjallarann á gamla stúdentagarðinum og ég lofa ykkur, gömlu Sönderborgarar, að þar er allt við það sama. Gamli blái sófinn, blóðslettur fyrir utan A uppganginn og sama lyktin… En þetta virkar.
Við byrjuðum á skrúðgöngunni þar sem ættjarðarlögin voru sungin svo hátt að tré klofnuðu og flugurnar sprungu. Söngva“keppnina“ unnu Páll Birgis Pálsson og Jóna Lára Önundarfirðingur.
Eftir skrúðgönguna reyndum við að gera pláss fyrir mig með ljóðið en íllgresið var í meira lagi þetta árið.
Þarna eru öldungarnir í félaginu saman komnir…
Síðan las ég upp ljóð að eigin vali… Valið var erfitt. Ég vildi fjallaljóð og finnst Urð og grjót e. Tómas Guðmundsson alltaf skemmtilegt og ég þekki sjálfa mig vel í því… æði bara e-ð í blindni. En það er kannski heldur þekkt og hefur örugglega verið tekið áður. Ég leitaði að ljóði um Herðubreið (drottningu allra fjalla) og var bent á gullfallegt ljóð eftir Jón Magnússon sem heitir „Möðrudalur“ og birtist í Lögbergi 1935. Síðan datt mér alltíeinu í hug bókin hennar mömmu… auðvitað.
Þar er að geyma ljóð e. Evu Hjálmarsdóttur (sem Eva dóttir Þrúðar heitinnar og Reynirs heitins er skírð eftir) og heitir ljóðið „Gunnhildur“. Gunnhildur er uppáhalds fjallið mitt frá barnsaldri og á ég eftir að klífa það þótt það sé íllkleift. Þetta ljóð er hreint fjallaástarljóð enda Gunnhildur með eindæmum rómantísk.
Hún bjó þarna í fjallinu hin fagra álfasnótin
og fríður piltur sá hana þar uppi við hæstu grjótin
Hann dreymdi haha um nætur, á daginn hana mundi
um dægrin löng hann glaður við svipinn hennar undi.
Og huldumeyjan sá hann og honum aldrei gleymdi
í huga sér hún myndina af fögrum sveini geymdi
Hún mótaði hana í hjarta og hugans innsta leyni
og hjó í bergið myndina af hinum prúða sveini
Eitt blíðkvöld, þegar máninn hellti siflri yfir sundin
sveinninn kleif upp á fjallið, þá rann upp óskastundin
Hann mætti fögru huldunni og með henni svo fór hann
og marga trausta eiða á kvöldinu því sór hann
Gunnhildur hét mærin, hin góða, milda og blíða
sem gjörði sveininn heilla, hinn hrausta, trygga og fríða
og fjallið sem hún bjó í, enn heitir hennar nafni
og hátt of sveit það gnæfir tignarlegum stafni.
Það þarf vart að taka það fram að Gunnhildur er í Loðmundarfirði!
Þjóðbúningur Íslendingafélagsins er í boði Lindu Bjarkar. Hún var svo úséð hérna um árið að hafa hann í one size for all. Takk Linda! Hvað er hann annars orðin gamall?
Síðan var það kökukeppnin. Sú sem ég sagði ykkur frá um daginn. Ég tók eingöngu þátt til að vera viss um að keppnin yrði haldin og krafðist að það yrðu skussaverðlaun því ekki vildi ég fara tómhent heim! Kakan sem vann er fremst… held þetta sé Surtsey. Allavega er lundi og maður á henni, ásamt mosa.
Á meðan „ópersónulega“ dómnefndin (einn dómarinn var mikið tengdur 3 kökunum og reyndi að gera sig eins ópersónulegan og hægt var) dæmdi, spiluðum við hin hringbolta, fullorðnir á móti börnum. Það þarf ekki að spyrja að því hverjir fór með sigur úr bítum og hverjir lágu eftir í blóði sínu á vellinum. (Ef einhver er í vafa, þá unnu hinir fullorðnu).
Þegar verðlaunaafhendingin hófst og byrjað var á skussaverðlaununum mínum langaði mig til að sökkva niður til Kína… grey Sunna frá Norðfirði vann! Allt mér að kenna. Fannst alveg að ég hefði getað unnið og því fengið þetta bláa tré í verðlaun. Því ég er ein af þessum konum sem ætti EKKI að hlekkja við eldavélina!
Þarna er svo kökuhópurinn með viðurkenningarnar sínar. Ég negldi mína upp á vegg… Fúsi verður örugglega svakalega sáttur því það á víst að negla á sérstakan hátt í veggina okkar!
Eftir að hafa étið allar 17 kökurnar upp til agna vildum við vinkonurnar andlitsmálningu eins og börnin. Og helst flottari en þau.
Hlébarði, tígrisdýr og kanína… hversu mörg snapchöt eru í því?
Eitt barnið var algjörlega ómeðvitað um hættuna sem steðjaði að.Þarna ætlaði tígrisdýrið að éta kanínuna en kanínan hélt að tígrisdýrið ætlaði að gera á sig sogblett!
Og afþví að Elenu og Fúsa fannst allt frekar vandræðalegt í kringum okkur og báðu okkur um að vera annarsstaðar, var bara best að vera alveg oní þeim…
Þetta var æðislegur 17. júní dagur og ég vona að hann verði jafnskemmtilegur hjá öllum Íslendingum á Íslandi í dag!
Bestu sjálfstæðiskveðjur til ykkar allra og sérstakar báráttukveðjur til mömmu og pabba á Eiðum, sem væntanlega lesa þetta ekki núna, mamma vegna anna og pabbi vegna lélegrar heilsu.
…Fram, fram, aldrei að víkja.
Fram, fram, bæði menn og fljóð.
Tengjumst tryggðarböndum,
tökum saman höndum,
stríðum, vinnum vorri þjóð.