Þriðjudagur… sem endar svo vel!
Hvað haldiði að ég hafi verið að skrá mig í!?!
Svar: kökukeppni.
Já, þið lásuð rétt! Ég kem sjálfri mér ekkert á óvart við að taka þátt í róðrakeppni (hafði aldrei róið), skrá mig í allskonar nám, hjóla 66km í engu formi, klæðast furðubúningum og margt fleira… en kökukeppni. Hef nú hingað til ekki verið þekkt fyrir framúrskarandi hæfileika í eldhúsinu (nema í sushigerð). Lét reyndar tilleiðast þegar ég fékk það í gegn að það yrðu skussaverðlaun. Það er þá einhver von um verðlaun. Annars á þetta líklega eftir að lenda á Fúsa því ég er á næturvöktum næstu helgi og enn vonlausari en ella í eldhúsinu. Hann veit það bara ekki ennþá og ég bíð með að tilkynna honum það þangað til á laugardaginn (keppnin er á sunnudaginn) til að rústa ekki vikunni.
Annars byrjaði ég daginn vel. Mætti á seinustu stundu í vinnuna með fullan munn af rúgbrauði því ég er orðin einstaklega lagin við að borða rúgbrauð með osti á hjólinu og get því sofið 3 mín lengur. Á morgnana hittumst við öll á skrifstofunni og tökum stöðuna á deildinni. Í morgun auk okkar venjulegu voru 2 gestir frá Esbjerg, 2 hjúkkur sem voru á 1. degi eftir fæðingarorlof og ég var að taka á móti 2 splúnkunýjum nemum. Guð og ekki má gleyma fallega lækninum sem ég kalla alltaf „ástarsögulæknirinn“… hann var þarna líka. Við höfum verið upp undir 20 manneskjur þarna inni. Ég stend ein út á miðju gólfi og er e-ð að væflast… Finn hvað buxurnar eru þröngar og get í rauninni varla hreyft mig að aftan, en hunsa það og segi hæ, kynni mig og svona fyrir öllum nýju manneskjunum. Þá galar Gurli: „Sylvía, ertu enn einu sinni í buxunum öfugum?“ Og Bente bætir við: „ertu í hlébarðabrókinni þinni í dag?“ Nemunum fannst ég örugglega geggjaður leiðbeinandi svona við fyrstu kynni :/
Dagurinn endaði líka vel. Ég fór með Vask í göngutúr áðan og í svona veðri… (akkúrat núna kl. 23.00 er logn og 21 stiga hiti)… liggur leiðin beina leið niður á höfn. Þegar við vorum í tröppunum hjá Maríukirkjunni barst til okkar þessi fallegi trompetleikur. Ég hugsaði með mér að það væri e-ð um að vera við höfnina.
Þriðjudagskvöld í Sönderborg:
- Trompetleikurinn var bara frá þjóðverja sem stóð á slétta fletinum á bátnum sínum og spilaði út í kvöldið og sundið. Vinir hans sátu í bátssófanumm, drukku bjór og sögðu brandara.
- Það var varla þverfótað fyrir fólki og endalaust margir voru með ís
- Bátafólkið skálaði við Vask.
- Þýskbúandi rúmenar veiddu þorsk á bryggjusporðinum
- Ég hitti Færeyska manninn sem ég hef svo oft talað við í síma á nóttunni og konuna hans.
- Fólk sat fyrir utan á veitingarstöðunum og það var ekki að sjá á því fararsnið.
- Arabavinir mínir úr líkamsræktarklúbbnum sátu á bryggjukantinum og töldu margglittur á arabísku.
- bílar keyrðu um með opna glugga og háværa tónlist.
Það var ekkert um að vera… en samt ólgaði allt af lífi. Það hvarflaði að mér að taka mynd en stemmingin var of góð til þess. Við Vaskur nutum bara.
Þegar heim var komið fórum við beint út í garð og enn sit ég úti og blogga. Þakkandi vélritunarkennaranum á Eiðum fyrir að hafa reynt að kenna mér fingrasetninguna því aðeins tunglið og 2 kerti veita mér birtu í þessu svartamyrkri á heitri sumarnótt í Danmörku.
Góða nótt.