7. júni 2001

Vissuði að í gær voru 13 ár síðan við fluttum til Danmerkur. 13 ár… hljómar svipað og 113. Fúsi hafði farið á undan. Við mæðgur lögðum af stað í byrjun júni. Kvöddum Áskel pabba í hlaðinu á Eiðum, settumst upp í bílinn hennar mömmu þar sem hún skutlaði okkur norður á fjöll á móti Sævari pabba. Ég vildi eyða smá tíma á Akureyri áður en landið yrði yfirgefið. Ég man voðalega lítið eftir þessari flutningsferð, ekki einu sinni hvar pabbi bjó… líklega í Norðurgötunni samt, í risíbúðinni sem var gul og öll útí blúndudúkum. Stiginn upp var svo þröngur að Svala sem var 4ja ára á þessum tíma, þurfti að skáskjóta sér bæði upp og niður. Pabbi keyrði okkur 3svar útá flugvöll. Við vorum á Icelandair starfsmannamiðum og því aðeins pláss fyrir okkur ef það var pláss.

Hin 2 flugin gengu betur, við komumst alla leið til Sönderborgar. Við höfðum leigt íbúð á stúdentagörðum… 62fm! Yfirdrifið nóg… við vorum jú námsmenn í útlöndum. Þetta var nýuppgerð íbúð með einu svefnherbergi og baðherbergi á stærð við meðalstóra skurðstofu. Þegar komu gestir fórum við þangað inn. Þar var rýmst.

Fyrsta fólkið sem við hittum og kynntumst voru Rósa og Hóddi, nágrannar okkar sem fengu að njóta stampsins í gólfinu. Jón Páll húsvörður kom og lagði fyrir okkur reglurnar og Hildur kona hans varð vinkona mín. Reynir kom með strákana sína til að leika og börnin okkar urðu bestu vinir. Reynir gaf okkur líka mörg misnýtileg ráð. T.d. að ég ætti að fara niður á bæjarskrifstofu og fá mér SEXBEHANDLER. Ég gapti og vissi ekki afhverju í ósköpunum hann vildi að ég færi til kynlífsráðgjafa hjá kommuninni. Reynir var nefnilega svolítið harðmæltur í dönskunni og ég skildi takmarkað fyrir og vissi því ekki að hann meinti sagsbehandler.

9 dögum eftir komuna eða þann 16. júni fórum við á 17. júni skemmtun hjá Íslendingafélaginu. Í Sönderborg er 17. júni haldin á hátíðlegur á laugardeginum næst sautjánda, því það er bæði fjölskylduskemmtun og fullorðinsskemmtun og því fæstir vinnufærir daginn eftir. Við þekktum voðalega fáa og fannst við ósköp ein e-ð. Við vorum svo ný.

Í byrjun ágúst komu Dísa og Snorri. Við fylgjumst enn nokkurnvegin að.

Fyrstu vikurnar vorum við bíllaus… við vorum jú námsmenn og ætluðum að lifa eftir því. Tókum strætó í bæinn og heim aftur, klifjuð þvottagrind, skúringargræjum, skrifborðsstól, hjóli, sjónvarpi, rúmi, pottum og pönnum. Strætóbílstjórarnir elskuðu okkur! Við tókum aðeins eina pallettu með okkur út (Ég kallaði þetta pallíettu í langan tíma). Síðan gáfumst við upp og keyptum okkur þann hræðilegasta bíl sem ég hef nokkurntíma átt og keyrt… fyrir 14.000 dkr. Það var Mazda ´88 án vökvastýris. Guð. minn. góður. hvað ég þoldi hana ekki. En samt fórum við á henni til Holstebro, Póllands, Kaupmannahafnar, Aalborg og Svíþjóðar. Ég skil það ekki í dag.

Ég kunni takmarkað í dönskunni en ætlaði mér að læra hana með öllum tiltækum ráðum. Þrúður heitin benti mér á að kaupa dömublaðið „Ude og hjemme“ og lesa það spjaldanna á milli. Það var ekki vitlaus hugmynd og fór ég eftir henni í ca. 6 vikur, eða þangað til ég pantaði tíma hjá lækni því ég var orðin ansi döpur. Læknirinn sagði mér að hætta að lesa svona sorgarsögublöð um foreldralaus börn og fólk í yfirvigt og ég tók gleði mína á ný. Þrúður gat heldur ekki hafa lesið þetta blað lengi því hún var alltaf hress. Fór því í staðin á bókasafnið þar sem mælt var með bók eftir Martha Christensen -Når mor kommer hjem. Svoleiðis fór ég af stað í dönskunni. 13 árum seinna er ég enn að læra!

Þegar ég byrjaði í skólanum tilkynnti ég öllum að ég héti Sylvía. Hafði fengið að vita hjá Dana á Íslandi að Dagný væri langalangaömmu nafn og að maður gæti ekki, sem 26 ára, heitið það. Enda tekst þessum kæru Dönum að afbakað fína nafnið mitt rækilega… Dánui! Síðan hef ég alltaf verið kölluð Sylvía af útlendingunum og Dagný af Íslendingunum. Mesta rugl, vitleysa og algjör óþarfi… En ég var ekki með þroska né manndóm þarna til að standa upp í hárinum á þeim og kenna þeim allt um mannanöfn… Ég hafði nýlega náð Gin og Campari þroskastiginu og því ekki komin lengra. Þótt Danir séu snillingar í hönnun og útflutningi þá eru þeir allsendis vonlausir hvað varðar nöfn. T.d. Jútte, Börge, Laust, Gry og Gurli eru alveg mannanöfn. Og engin spáir í hvað nöfnin þýða. Þau þýða sjaldnast e-ð. Allir kettir og kanínur heita Plet, kýr heita Maren, hænur Lotte, hestar Musse og hundarnir Chilli og Futte.

Mér þótti göngugatan hreinasta paradís… alltaf voru tilboð og flest kostaði bara 50kall. Við hengum á kaffihúsinu Druen og átum franskar á meðan börnin teiknuðu. Pöntuðum kínverskan mat á sunnudagskvöldum og borðuðum með hinum íslendingunum á garðinum. Ég elskaði ströndina og heitu sumarkvöldin þar sem við löbbuðum á djammið niður í bæ í ermalausum toppum. Mér þótti afskaplega vænt um Peter, nágrannann með grænu augun sem hélt verndarhendi yfir okkur og gekk á íbúðirnar sem spiluðu techno tónlist kl 5 á morgnana, og sagði þeim vinsamlegast að lækka, að það byggju börn á svæðinu. Við sóttum bæjarhátíðina fast alla 5 dagana og tróðum okkur út af candyfloss og kebab til þess eins að eiga á hættu að æla því upp aftur í tívolítækjunum.

Við stefndum á að vera í Danmörku í 3-4 ár…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *