Hjá sálfræðingi í dag

Í dag var ég send til sálfræðings… loksins! Búin að vera spögulera upp á síðkastið að skella mér í tíma -svona mest til að kynnast sjálfri mér en ekki tímt því. Þetta eru svoddan okrarar og ég hef verið hrædd um að koma út frá sála engu nær. Áfram eins og spurningarmerki og hálftýnd í tilverunni. En ég ímynda mér samt að það sé skárra að hitta sálfræðing á sálfræðistofu en út í bæ. Ég lenti nefnilega í því í haust -að hitta sála „út í bæ“. Ég var stödd í 50tugs afmæli hjá Dóru frænku og við hjónakornin fundum okkur sæti við borð útí garði þar sem þrælmyndarlegur, nauðasköllóttur íslenskur karlmaður sat. Eins og oft var spurningin „hvað gerir þú svo?“ borin upp sem sú fyrsta. Við Fúsi svöruðum fyrst… ósköp sakleysisleg, enda í sakleysislegum vinnum. Síðan svaraði maðurinn: „ég er sálfræðingur“. Og ég hugsaði bara…. „fokk fokk fokk… ég dey… hægt… og kvalarfullt“ og skimaði eftir öðru sæti en sá ekkert laust. Ég varð því að setja mig í stellingar og reyna að loka fyrir sálina mína, þ.e.a.s. ekki hleypa neinum inn. Ég hef alltaf óttast sálfræðinga svo svakalega á almannafæri. Er alveg handviss um að þeir geti séð inní mig. Og greint mig. Og skilið mig í sundur án þess að ég verði þess vör. Kannski hef ég þessa tilfinningu því ég þekki engan sálfræðing persónulega og er því aldeilis óvön þeim.

En þarna sátum við hjá sálfræðingnum, þeir Fúsi spjölluðu og ég var bara stíf. Þá kom konan hans og settist og aftur var spurt: „hvað gerið þið svo?“. Og haldiði ekki að hún hafi líka verið sálfræðingur. Ég var stödd í 4ja manna hópi þar sem 50% voru sálfræðingar. Mér leið hörmulega. Ég reyndi að segja sem allra minnst, og það litla sem ég sagði var bara yfirborðskennt og ópersónulegt.

Þegar einhver tími var liðinn, fór að slakna á mér… þau voru svo þægileg og indæl. Mér leið eiginlega bara vel. En þá fór mig að gruna að þau voru væntanlega að dáleiða mig eða e-ð þaðan af verra. En mér leið svo vel að ég gaf skít í það og leifði þeim bara að kukla í mér án þess að ég yrði þess vör og kvöldið varð stórfínt. Mér varð ekki meint af.

Í fyrradag gerði læknaforstjóri svæfingarinnar og gjörgæsludeildarinnar sér dagamun og borðaði hjá okkur á gjörinu. Sá er rólyndismaður, fámæll og hlustar líklega með öðru eyranu á kjaftaganginn í okkur. Mér hafði verið strítt svakalega þennan morgun í vinnuni og því ákvað ég að spyrja hann hvort hann gæti ekki, í valdi sínu, látið deildina sponsorera á mig svona ca 10 sálfræðitímum… hjá sálfræðingi að eigin vali. Hann spurði hvort stríðnin hefði verið svo alvarleg að ég þyrfti 10 tíma. Ég sagði já og lét tár falla fallega oní vatnsglasið mitt. Hann spurði hvort ég þyrði… ég sagði að það væri ekkert að þora, ég hefði engu að tapa. Hann sagðist þekkja dæmi þar sem manneskja hefði orðið öryrki af að kynnast sjálfri sér of mikið, og að það yrði of mikið vesen fyrir deildina ef ég yrði fyrir svipuðu.

Í dag fór ég svo til sála, reyndar með 37 öðrum hjúkkum og fékk borgað fyrir það. Sálinn var í eldri og þyngri kantinum. Við sátum í skeifu og ég sat inn í vinstra megin. Eiginlega beint á móti sála sem sat gleiður og afslappaður við borð. Hann var í ljósgráum þröngum buxum. Ég missti strax athyglina á því sem hann hafði fram að færa því eistun hans réðust á augun mín. Sama hvað ég blikkaði, þau gerðu árás. Aftur og aftur.

Síðan kom pásan, ég var að sjálfsögðu í svolitlu sjokki þar sem ég er svo viðkvæm. Eftir að hafa andað út um glugga, drukkið vatn og gleymt mér í tali, þurfti ég að pissa. Var hreinskilnislega sagt í spreng. Þegar röðin loksins kom að mér, hoppaði ég á einni löpp inn á klósettið, því það hjálpar þegar blaðran er full, læsti og ætlaði að gera eins og venjulega. En nei, ég var í samfesting og búin að gleyma því. Og þótt handleggirnir séu lengri en á meðal manneskju þá næ ég ílla aftur á bak. Og ég get svo svarið það, þarna var ég stödd, hoppandi á einni, með báðar hendur í trylltum dansi aftan á bakinu á mér og sprengfulla blöðru svo það var byrjað að leka úr nebbanum. Það versta í heimi gat gerst… að ég pissaði í buxurnar í dökkgráu (bleyta sést svo vel) og kæmi of seint inn í 40 manna hópsálfræðitímann!

Ekki veit ég hver hélt verndarhendi yfir mér, en ég náði að renna niður og kasta mér á klósettið.

Mér var svo létt að ég lét eistun í léttu rúmi liggja það sem eftir var tímans og ákvað að hætta að hræðast sálfræðinga. Því „Það er ekki við mig að sakast, heldur heilann í mér“ (Jón Gnarr).

IMG_7003

svona hefði þetta litið út ef ílla hefði farið… 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *