Vikuuppgjör

Eftir að hafa sleikt sólina, glasabarma og blaðsíðurnar í íslenskri glæpasögu fyrstu 2 daga vikunnar var komin tími til að vinna. Það var á miðvikudeginum. Neminn minn og ég ræddum íslensk hestanöfn, hún á hest sem heitir Goði. Mamma átti einu sinni hest sem hét Goði og það er til mynd af mér á honum. Man það eins og það hefði gerst í gær, hann tölti svo vel undir mér. Ég var eins árs.

Á miðvikudagskvöldið kl. 19.00 spurði ég Aldísi hvort hún nennti að kíkja með mér í Borgina (verslunarmiðstöð) því mig vantaði jakka eða peysu fyrir 30 tugs afmæli daginn eftir. Kl. 19.07 vorum við mættar og klárar í jakkaveiðar… en allt var lokað. Allt lokaði kl. 19. Ok, ekkert mál, ég færi bara daginn eftir þegar ég væri búin í vinnunni. Ég ætti að geta verslað jakka á 0.5 sek. því ég hafði ekki meiri tíma. Mæting í afmæli strax eftir vinnu… því það byrjaði kl. 13.00 og ég ekki búin að vinna fyrr en 15.10.

Daginn eftir fer ég á fætur til að fara í vinnuna og undra mig á svefnfestu bóndans… spyr hvort hann ætli ekki að drullast á lappir? Hann segir „NEI“, að þetta sé helgidagur. Þar fór jakkinn fyrir bí… því Danir loka fatabúðum á helgidögum.

Þessvegna fór ég í afmæli í gamalli snúinni lopapeysu því þetta var sumarbústaðaafmæli með bálkesti og ég kom heim verr lyktandi en skáti.

10406555_10153049143565639_2880248991974340729_n

Það er svosem ekkert merkilegt að gleyma svona helgidegi á fimmtudegi nema í mínu tilfelli… þetta er annar helgidagurinn í maj, sem ég gleymi. Ég lennti í vandræðum með fermingargjöf vegna hins.

Föstudagurinn fór í annan hjúkrunarfræðinema sem sagðist ekki vilja tala um hestanöfn því hann væri hræddur við hesta. Hann vildi frekar tala um öndunarvélar og þessvegna urðu þær aðalumræðuefni dagsins.

Í gær var hringt og beðið um að kerran yrði laus í dag fyrir fjölskylduhjólaferð til Þýskalands. Það þurfti að sækja liðið og keyra því heim aftur.

10411321_10202820548167660_7166831998998538336_n

Ég bið Aldísi um að minna mig á að biðja Fúsa um að tæma kerruna. Þá segir Aldís: „erum við ekki að fara í þessa hjólaferð?“

Ég: „nei… langar þig?“

Aldís: „já, fær maður ekki geggjaðan rass á svona ferð?“

Ég: „jú örugglega, förum með…“.

Það hjólar annar hver maður langt yfir 33km annan hvern dag hérna og því ekkert athugavert við að hjóla 33km svona á sunnudegi. En ég hef ekki hjólað meira en 1,5 km í einu í 8 ár. Ekki síðan ég fékk væga hjóladellu og hjólaði stundum 20km endrum og eins eða þegar ég vann stundum út í Augustenborg (7 km). Síðan þá hef ég ekki hjólað útfyrir miðbæ Sönderborgar… ekki fyrr en í dag. Ferðin niður í Þýskaland var róleg, enda allur aldur í hópnum, sá yngsti 7 ára, sá elsti 51 árs. Einhverjum var keyrt á slysó, það þurfti að borða, nokkrar pissupásur voru haldnar og önnur óhöpp töfðu tímann.

10440702_10202820543207536_5292079877924574383_n

10368197_10202820547047632_3606372988612335137_n

 

 

 

 

Þarna sést ég bæði borða og pissa.

 

Yfir landarmærin komumst við, skelltum á grillið og sóttum bjór í sjoppuna. Við Aldís athuguðum hvort rassarnir væru orðnir geggjaðir og komumst að þeirri niðurstöðu að hennar væri… ekki minn. Enda segir blákaldur veruleikinn mér það að 33km séu ekki nóg fyrir suðursíginn konurass. Ég hafði því ekkert val, ég varð að hjóla heim aftur. Við vorum fjórar í liði. Sem betur fer!

10346049_10203854857761055_5753996444904707999_n

Veit ekki hvort þær vildu bara vera samfó eða hvort það var eins komið fyrir þeim. Allavega hjóluðum við 66km í dag. Það er 64,5km meira en ég hjóla dagsdaglega.

Þegar heim var komið, kl. 17:50, fattaði ég að ég hafði gleymt að redda gjöf handa vinnufélögu sem á 10 ára starfsafmæli á morgun… og allar búðir lokaðar… nema Bilka. Er nokkuð asnalegt að gefa Bilka kertastjaka? Ca. 10 stykki því þeir eru svo ódýrir? Eða 15 blómavasa? Hvort er betra?

Verkefni júní mánaðar verður að læra á opnunartíma verslanna í mínum eigin bæ.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *