Það er bláeygð kona í svefnherberginu mínu!
Kosningarnar um sæti í EU (Evrópusambandinu) eru yfirstaðnar, meirihluta Dana eru sáttir og við eiginlega líka þótt við höfum ekki kosningarrétt. Erum sammála um að það þurfi að stokka upp í þessum EU peningajósturscirkus. Sjáum ekki hvernig samrýnd lögun agúrku getur skipt máli og hvernig sé hægt að funda um það á heimsálfuplani… Bein agúrka eða bogin… Samasem tugi klukkutíma fundartími með fleiri tugi ef ekki hundruða fundargesta á ágætislaunum!
En það var ekki það sem ég ætlaði að blogga um heldur langar mig til að sanna fyrir ykkur hversu umhyggju- og hugulsöm eiginkona ég er. Það hafa margir bent mér á að þeir vorkenni Sigfúsi útfrá blogginu. Það er algjör óþarfi.
Ég hef aðeins verið að auðga tilveruna mína með því að bæta karlmönnum inní líf mitt. En held mig þó innan velsæmismarkanna og vill helst hafa þá liðna, eða ekki til í alvörunni, eða þá svo fræga að ég á aldrei eftir að hitta þá.
Þessi er frægur, rekst reyndar oft á hann en hann segir bara „hæ“, ekkert meira, hann er of frægur fyrir mig. Þarna er hann í svefnherberginu mínu, skreyttur með marglituðum geislabaug í boði Jesús Kr. og jólanna.
Þessi er löngu liðin en hann borðar með okkur.
Þessi er of fjarlægur… en ég varð samt ólétt á svipaðan hátt og María Mey.
Það er visst öryggi í þessum karlmönnum. Þessvegna varð mér strax hugsað til Fúsa míns þegar ég sá Christel Scraldemose eða Kristall Ruslamýri eins og hún myndi heita heita á íslensku, liggja upp við ljósastaur sem ég hjólaði framhjá í vinnuna á leið á næturvakt. Ég var á seinustu stundu og á of mikilli ferð til að stoppa og ákvað því bara að taka hana með heim um morguninn.
Þvílík mistök! Ég hefði betur stolið henni í engri umferð kl 22.45 og mætt of seint í vinnuna heldur en að gera mig að þjófi fyrir framan morgunumferðina kl. 07.20. Hún lá hinum megin upp við ljósastaur við Lerbjerg sem er breiðgata. Ég þurfti semsagt að fara yfir götuna og það getur verið heiglum hent og frekar óvinsælt í mikilli umferð. En ég komst. En þá brást mér allur kjarkur -ég þorði ekki taka spjaldið! Tók símann, þóttist vera að tala, senda sms, tala aftur… tók mig síðan saman og tók spjaldið. Setti það einhvernvegin á bögglaberan ásamt töskunni minni, spólaði af stað og beygði af við fyrsta tækifæri, inn á örmjóa kindagötu inná milli trjánna. Þessi gata var íll yfirferðar og snarbrött og því stoppaði ég skyndilega og allt hrundi af bögglaberanum. Veskið að venju opið, svo
- bók
- lyklar
- varalitur
- 12 svæfingarlyfjaglös úr gleri (sem ætla að þjóna tilgangi blómavasa í stúdentaveislu)
- sími
- tyggjó
- smápeningar
- nafnskilti
og auðvitað
- kosningarpjaldið Kristall Ruslamýri
rúlluðu þarna niður snarbröttu kindagötuna og útá hjólastíg. Sérstaklega lyfjaglösin… Ég brosti breytt! (NEI, það gerði ég ekki). Ég týndi upp eigur mínar, hálsbraut Ruslamýrina, skorðaði þetta vel á bögglaberann og fór fjallabaksleiðina heim til að fyrirbyggja orðróm um bæinn um skrítnu konuna sem stelur kosningarspjöldum.
Mér finnst sjálfri ég hafa lagt mikið á mig.
Og núna get ég skilið Fúsa minn eftir einan á nóttunni ca 5-9 nætur í mánuði í öryggum höndum. Þarna vakir hún yfir honum, svona bláeygð og traustvekjandi og lætur honum vonandi dreyma vel.