Svo mörg mistök…
Haldiði ekki að Kíllemúsin mín… nei nei nei -ég sagði þetta ekki! Ég kallaði ekki hjólið mitt mús. Það er of danskt, of væmið, of lítið ég. Ég er ekki svona væmin. Ég sem er fædd á laugardagskvöldi í fiskifýlu og fylleríi. Meira að segja læknirinn var aðeins í’ði. Enda Verslunarmannahelgi og veisluhöld.
Nei, þetta geri ég aldrei aftur… að kalla Kildemoes Kíllemús. Þetta er það hræðilegasta sem ég hef gert í dag.
En það sem ég ætlaði að deila með ykkur var gleði mín yfir að fá hjólið úr viðgerð. Ég kynntist eldsprækum ellilífeyrisþega hérna um daginn og vildi hann ólmur fá að flikka upp á fákinn. Hjólið hafði nefnilega verið fast í 3 gír síðan í febrúar, orðið ljóslaust, nánast keðjulaust, ryðgað og brotið. Síðan í febrúar hef ég þurft að setja aukamínútur á tímann sem tekur að hjóla að heiman og í vinnuna.
Ég fékk hjólið til baka á sunnudaginn og mætti í vinnuna á mánudagsmorguninn, 5 mín of snemma! Því bráðum 9 ára, mikið notaða hjólið mitt er aftur orðið sprækt og því er ferðin á því eins og á eldingu. En ég gleymdi að draga mínúturnar frá sem ég hafði lagt við ferðatímann þegar hjólið var fast í 3ja. Vinnufélagarnir spurðu hvort e-ð hefði komið uppá, afhverju ég væri mætt svona snemma. Ég útskýrði fyrir þeim mínútureiknisdæmið og afsakaði mig í bak og fyrir, fyrir að mæta „of“ snemma.
Daginn eftir mætti ég 4 mín. of snemma. Þau spurðu hvort ég væri í einhverju dópveseni… spítti eða e-rju álíka. Nei nei, alls ekki. Bara ekki enn komin með stjórn á mínútureiknisdæmið.
Á miðvikudaginn mætti ég 2 mín. of snemma. Þá spurðu þau hvort ég væri byrjuð að stunda e-ð kukl? T.d. heilun eða yoga? Ég baðst bara innilegrar afsökunar á nærveru minni. Næst skyldi ég mæta á réttum tíma.
Í gærkvöldi tókst það. Á mínútunni, 22:55 (sem er mætingartíminn). Ekki mínútu fyrr. Og nú þekkja vinnufélagarnir mig aftur. Þarna var ég aftur orðin gamla góða ég.
En ég verð samt að játa annað fyrir ykkur, fyrst ég fór að tala um væmnina… því þetta uppnefni á hjólinu var ekki það eina. Í fyrradag skein sólin glatt og ég var útí frá snemma morguns fram í svarta myrkur. Undir kvöldmat fannst mér puttarnir á mér vera orðnir velbrúnir og langaði því í svertingjakonunaglalakk, en það er naglalakkslitur sem fer einstaklega vel við mjög dökka húð. Ég fór í krukkurnar og leitaði innan um uþb. 40 naglalakksliti. Fann loks e-ð sem myndi undirstrika brúna litinn á puttunum.
En tókst ekki betur til en þetta…
Þetta naglalakk gerir ekkert fyrir mig nema valda mér velgju. Sá fljótlega að þetta var einum of velgjugrænt og setti því eina bleika… og ekki batnaði það. Síður en svo. Mætti í íþróttatíma og vinkonu minni lá við yfirliði, aðra eins handarhörmung hafði hún ekki séð í háa herrans tíð. Og ekki undirstrikast brúni liturinn! Sem er kannski bara ímyndun þar sem ég hef aldrei orðið sérstaklega brún og á ekki eftir að verða það (og vill ekki vera það). Ég myndi persónulega giska á að það væri of mikill Íri í mér.
Þannig að þegar ég þurfti að fara í vinnuna sem ég annars nennti varla í gærkvöldi, þá var það samt ólýsanlegur léttir að þurfa að fjarlæga þennan ógleðislit.
Talandi um vinnuna… enn einu sinni. Á þriðjudaginn og miðvikudaginn sátu sjúklingurinn minn og ég útá gjörgæsluverönd, drukkum kalda drykki og sóluðum okkur. Hann bað mig um ískaldan bjór en ég færði honum eplasafa og þá sagði hann að ég væri líklega fædd sem engill Guðs. Við héldum síðan áfram að sóla okkur innan um gjörgæslublómin (sem fá að njóta sín á Instagram undir alrun75).
P.s. ekki vera að minnast á þennan ílla heppnaða naglalakkslit við mig, ég er sjálf búin að gleyma þessu atriði núna.