Það er skylda hvers mannsbarns að horfa á Django Unchained
Ég er sú manngerð sem óttarlega ódugleg við að horfa á sjónvarp nema þetta skylduáhorf eins og fréttirnar og Landann. Ég fylgi að mestu heimilisstraumnum en tuða jafnframt hástöfum ef á skjánum er e-ð af eftirtöldu:
- of hátt í sjónvarpinu
- öskrandi ófreskjur
- slímug óraunveruleg dýr
- vélmenni
- hjartahnoð og endurlífgun á rangan hátt
- vélmenni í mannslíki
- of langar samræður
- rifrildi
- læti í krökkum
- auglýsar
- drukknir unglingar
- töluð suðurjóska
- barnauppeldi
- og margt margt fleira…
Þannig að í rauninni er ég sítuðandi yfir sjónvarpinu og erfitt að gera mér til hæfis. Finnst samt gaman að fara í bíó og á það til að horfa á mynd heima hjá mér. Aldís er stuðningsfulltrúi minn í myndavali. Hún segir mér hvort ég eigi að horfa á ákveðna mynd eða ekki, því hún þekkir kvikmyndasmekk minn betur en ég sjálf. Um daginn spilaði hún lag sem heitir Django í bílnum og ég féll kylliflöt, eða eins kylliflöt og hægt er í fólksbíl. Ég spurði útí lagið og Aldís sagði mér frá myndinni… Tarantino! Áhugi minn var vakin. Ég er líklega einn sá öflugasti Kill Bill aðdáendi á mínum aldri í mínu fólksneti. Ég hreinlega stenst ekki neitt í Kill Bill, hvorki leikinn, tökurnar, litina, tónlistina, atburðarrásina… ekki neitt… Kill Bill eru mínar ær og kýr. Em það þarf samt svolítið að mata mig. Við tókum frá laugardagskvöldið til að horfa á Django Unchained.
Allir á öllum aldri eldri en 12 ára ættu að sjá þessa mynd. Hún er hreint út sagt ekki síðri en Kill Bill! Þetta er í raun kúrekamynd sem gerist 2 árum fyrir Borgarastríðið í Bandaríkjunum og er áherslan lögð á þrælahaldið í Suðurríkjunum. Tarantino sýnir hryllinginn sem viðgengst gagnvart þrælunum, gerir grín að Ku klux klan, lætur blóðið sprautast og valdi bestu leikara í heimi til að koma þessu til skila.
Yndislegi Leonardo DiCaprio… minn. Hefur þessi leikari einhverntímann klikkað? Svarið er nei. Aldrei. Hann klikkar heldur ekki í þessu skúrkahlutverki frekar en fyrri daginn. Leonardo er einu ári eldri en ég og hann blastar fallegustu broshrukkum í víðri veröldinni. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um hann… hann er bara einn sá besti.
Samuel L. Jackson er líka á meðal leikenda. Hann státar ekki af sama fallega smettinu og Leonardo en hann leikur jafnvel.
Það var á laugardaginn sem við horfðum…
Og síðan hef ég verið með tónlistina úr myndinni á endurtekningu… aftur og aftur og aftur… Varð bara að segja ykkur frá þessu. Þessi mynd og tónlistin skipta mig álíka miklu máli og að vera hjólbörueigandi.
En þetta var ekki eina sjónvarpsupplifunin um helgina… ó nei! Ekki hélduði að RUV myndi bregðast mér…? Þótt Landinn sé komin í sumarfrí, þá kemur bara e-ð annað gæðaefni í staðinn. Sunnudagskvöldið lá ég í sófanum, úttroðin af villisvíni og sykri, gat mig hvergi hrært nema þumalputtann á fjarstýringunni sem lá í hendinni á mér. Í mókinu ýtti ég á RUV, horfði á fréttirnar, svaf síðan yfir auglýsingunum og Birtu Líf, en vaknaði við Ómar Ragnarson. Ferðastiklur er alvöru sjónvarpsefni með tilheyrandi skammti af fróðleik, fallegri náttúru og klámvísum. Þar á eftir kom þáttur um mannlífið lengst inní Ísafjarðardjúpi, mjög svo athyglisverður. Ég horfði þögul á, ekkert tuð, ekkert nöldur og hafði gaman af. Fór seinust að sofa það kvöldið eftir velheppnaða sjónvarpshelgi. Lengi lifið imbinn.