Laugardagurinn sem endaði í bruna…

í morgun fór ég í vinnuna í svarta þoku og var nærri gengin á húsvegg á göngugötunni því hjólið er í viðgerð. Í rauninni get ég þakkað biluðu hjóli fyrir að ekki fór verr, því ferðin hefði verið meiri ef ég hefði verið hjólandi.

2014-05-17 06.48.20-2

Kom að deildinni minni þar sem ég sting nefinu reglulega út til að anda að mér blómailminum. Þar sem útsýnið er af skornum skammti á gjörgæslunni búum við í staðin að endalausri blómstrun. Þau myndu vaxa innum gluggana ef þeir væru of lengi opnir.

Það voru rólegheit á gjörinu og féll það í minn hlut að vera sjúklingalaus og sjálfskipaði ég mér því það verkefni að segja brandara. Eftir að hafa tekið til, fyllt á og sagt brandara í lon og don í tæpa 4 tíma, var ég send heim. Vinnufélagarnir töldu að ég myndi gera meira gagn þar. Sögðust líka vera orðin þreytt á að heyra sama brandarann aftur og aftur. Ég vill nú ekki meina að þetta hafi verið sami brandarinn þar sem ég breytti alltaf smá, t.d. nöfnum, staðháttum eða ýkti bara meira. En þau um það… þau misstu bara af.

Þegar heim var komið skein sólin. Ekki það að ég ætli að pósta veðramyndum og státa af 25 stiga hita en sólin hlýjaði samt sem áður. Og þar sem það er fermingarveisla hjá vinarfólki á morgun, var ekki seinna vænna að bæta á sig freknum því dressið sem ég ætla að skarta krefst svolítils strípls. Ég fór því í eins lítil garðvinnuföt og hægt var og garðvinnan hófst… loksins. Ekkert hefur verið aðhafst að ráði í allt vor og erum við því ca 2 mánuðum á eftir öðrum virtum húseigendum í álíka reglusömu hverfi. Við vorum bara 3 í garðvinnunni… Sigfús minn, Vaskur og ég.

Aldís hafði verið í afmæli í Nordborg (sem er bær nánast norður í ballarhafi) kvöldið áður og líðanin eftir því.

IMG_6908

Taldi sig best geymda í skugga og undir feld!

IMG_6917

Svalan greiddi sér í glugganum við mikin fögnuð nágrannadrengjanna… og við minni fögnuð foreldra beggja. Þessar unglingshnátur!

Ég réðist aftur á móti á eplatréð með limgerðisklippunum, sem eru með mótor, en eftir 3 mínútur kom nágranninn hinum megin við girðinguna og rétti mér greinaklippur (með engum mótor)… sagðist fá hægðir fyrir hjartað af því að heyra mig níðast svona á limgerðisklippunum… að þær væru ekki gerðar fyrir TRÉ! Ég hvíslaði að Fúsa að þau nenntu bara ekki að hlusta á klippurnar mínar sem hljóma svipað eins og Kanadísk vélsög. En þáði þó greinaklippurnar og hnykklaði vöðvana fyrir vegfarendur uppfull af testosteróni. En það entist aðeins í skamma stund… testosteronmagnið hríðminnkaði og ég fékk blöðrur í lófana! Jafnréttisbaráttan féll um sjálft sig og ég bað Gamla Gaur um að taka við… hann er líka lærður smiður og á því að vita allt um tré… líka hvernig á að klippa þau.

Ég studdi hann sálarlega í staðin… og tók til.

2014-05-17 15.46.34

Vaskur taldi sig vera hjálpa til en það má ræða endalaust hvursu mikil hjálp það var. Þegar þarf að berjast blóðugum bardaga um hverja grein þá seinkar vinnunni svo um munar.

2014-05-17 15.46.03

 

Hann vildi fara með greinarnar til vinstri… ég vildi að þær færu beint áfram. Það þarf svo ekki að spyrja að hver sigraði.

Þegar kom að kvöldmat, var hundurinn, ég og limgerðisklippurnar á lífi en eplatréð lá í valnum.

Ég var sjálfkjörin grillari því eiginmanninum er meinílla við að grilla mat sem minnir á hans eigin líkamshluta.

2014-05-17 19.18.23

Þessar bragðast ágætlega miðað við að ég er lítið hrifin af pulsum -þótt þær minni meira á útbrunna líkamshluta karlmanna en pulsur.

Freknurnar sem ég ætlaði að bæta á mig hurfu í brunarústum, þó ekki brunarústum pulsanna…

2014-05-17 17.52.23Og er þessi rúst engan vegin í samræmi við fyrirhugað dress morgundagsins… þvílíkur skandall! Ég verð asnalegust í fermingunni á morgun… svipuð og rauðskjótt hryssa… eða rauðröndótt sebrahryssa með svörtu ívafi!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *