Villtar vinkonur á Helgafellinu
Ja hérna hvað mér líður líkamlega vel. Þrátt fyrir massívar innri blæðingar. Það er nefnilega þannig að ég hef verið í líkamlegum dvala síðan síðast í mars, þangað til núna á þriðjudaginn, fyrir utan örfáa auðvelda göngutúra á Íslandi. Á þriðjudaginn mætti ég galvösk í boxið. Og haldið ekki að ég hafi með með glöðu geði gert óendanlega fjölda af uppsetum, armbeygjum, froskahoppi, uppsetum aftur á bak og fleirum pyntingaræfingum. Og við erum ekki að tala um 20 stk af hverju, heldur allavega 120! Ásamt boxi… og hlaupi og öðrum andskota. Miðvikudagurinn var þolanlegur. Gærdagurinn var kvöl. Og þrátt fyrir það valhoppaði ég brosandi í crossfittið… með sjálfspíningarhvöt á hæsta stigi. Og einmitt þar fann ég fyrir alvöru fyrir þessum innri blæðingum. Ég fann hvernig blóðdroparnir sprautuðust í allar áttir inní lærunum, maganum, bringunni, bakinu, öxlunum og já svei mér þá, held líka í kinnunum og enninu. Að innanverðu leit ég út eins og japönsk ofbeldisteiknimynd… ég veit það því ég fann það. Svona er nú gott að hreyfa sig!
Fyrst ég minntist á göngutúra á Íslandi er við hæfi að rifja upp síðustu náttúruferð okkar Sigrúnar. Við reynum að gera eina náttúruferð í hvert sinn sem ég kem. Og allar verða þær pínu spes. Við förum aldrei neitt velskipulagðar með hlutina á hreinu og erum ekkert að brillera í sjálfum ferðunum hvað varðar rötun, áttun og öryggi. En alltaf er jafn gaman hjá okkur.
Einu sinni fórum við með bláókunnugum handahófsGrundfirðingum upp á Kirkjufellið um miðja nótt og töldum okkur heppnar að sleppa lifandi niður því samkvæmt Wikipedia hrapa menn reglulega niður þetta fell. Og ég skal segja ykkur að ef maður hrapar þá verður maður aldrei sjálfum sér líkur aftur.
Árið eftir fórum við í hellaferð með 4 krakka með okkur, 2 ljós og ekkert vatn. 50% af hópnum var í gönguskóm, restin í spariskónum. Innst inní Raufarhólshelli hálfvilltumst við og vorum nær dauða en lífi úr þorsta.
Síðan höfum við farið á Þverfellshorn í annarlegu ástandi og nístandi kulda. Önnur var með bullandi hita, hin var á skjálftanum vegna þynnku og munaði sáralitlu að toppurinn á Esjunni hefði verið útældur vegna volgrar kókómjólkur. Það hefði síður verið fögur sjón fyrir höfuðborgarbúa ef þetta horn hefði birst þeim með brúnum fossum niður hlíðarnar.
Um daginn ákváðum við að taka einn stuttann svo Helgafellið í Hafnarfirði varð fyrir valinu. Fengum skýrar og góðar skriflegar leiðbeiningar frá einum helsta Helgafellssérfræðingi Hafnarfjarðar svo ekkert átti að geta farið úrskeyðis.
Við ætluðum að vera eldsnöggar!
En í einhverjum ægðarlátum fórum við strax vitleysu. Kannski því við töluðum of mikið, kannski því hugarnir okkar voru hálfsvegar í veikindum fyrir austan og á Landsspítalanum, kannski bara því okkur er ekki ætlað að fara neina ferð án nokkurns rugls. Samt fundum við topp, en óvíst er hvort hann tilheyrir Helgafellinu enda er það aukaatriði.
Fyrir kjúklinga eins og mig var ég ósköp fegin að finna svona fínan topp, það var þá allavega einhver áskorun fyrir mig… önnur en að villast!
Ég áleit það frekar hættulegt að ganga á þessari brún og spurði því Sigrúnu hvort hún vissi hvort þessi brún væri mannskæð. Það vissi hún ekki.
Loks fundum við sjálft Helgafellið en þá kom babb í bátinn því engin var uppgönguleiðin eins og mælt hafði verið með.
En upp komumst við samt og pössuðum okkur á að snúa „rétt“ á öllum myndum til villa um fyrir sjálfum okkur þegar við færum að skoða seinna…
… því þótt við værum í fínu formi fyrir svona hól, þá vorum við ekki alveg að nenna að vera labba alltof langt og því betra að vera bara ruglaðar í rýminu. Þarna er t.d. ekki nokkur einasta leið að sjá í hvora áttina ég ætla.
… sem var í rauninni algjör óþarfi því við vorum svosem ekki lengi að rölta þessa rúmlegu 12km. Og þvílík fegurð!
Þarna erum við annaðhvort á leiðinni upp eða niður, það er ómögulegt að sjá.
Já, þessi litli móbergsstapi er algjör náttúruperla, ef ég ætti heima á höfuðborgarsvæðinu þá myndi ég tjalda þarna í sumarfríunum og eiga heima þarna!
Þrátt fyrir vörðuna villtumst við, og þrátt fyrir að stapinn sé ekki nema 338m hár þá tók þetta okkur semsagt rúmlega 12km og tæpar 2 og ½ tíma á göngu með sama og engu stoppi. Þarna gæti ég einmitt bæði verið að fara upp og niður.
En kæru lesendur, látið ferð okkar Sigrúnar ekki aftra ykkur, þetta er að öllu jöfnu örstutt og lauflétt ganga með endalausu óvæntu landslagi, bergi og skemmtilegheitum. Maður kæmist þarna upp á einni löpp. Við vinkonurnar komum bara alltaf svo miklu í verk þegar við erum saman… eins og t.d. á þessum eina sólarhring um daginn en þá gerðum við eftirtalið þó ekki í réttri röð;
- Helgafellsganga
- Tapashúsið
- sváfum saman og töluðum eins og unglingsstelpur frameftir (því Filipseyski eiginmaðurinn var ekki heima, hann var útí Filipseyjum)
- kaffiheimsókn í Hafnarfjörðinn
- brutum saman 17 kg af þvotti og þar á meðal braut ég saman nærbuxurnar af Filipseyska manninum hennar! (Frekar langt gengið að setja mig í það job :-/)
- Saffran (skyndibitastaðurinn)
- heimsóttum mömmu hennar í vinnuna
- sinntum börnunum hennar fjórum
- Slippbarinn
- fórum í vinnuna hennar og ég fékk kaffi og sá persónurnar úr Ástríðar þáttunum með eigin augum. Eða svona cirka því vinnan hennar Sigrúnar er alveg eins og Ástríðarþættirnir… meira að segja kaffivélin er eins og Davíð og Bjarni eru þarna báðir!
- sund
- Og þetta voru bara stærri atriðin…
Svona er auðvelt að ferðast til Íslands í gegnum bloggið mitt! Danmörk er reyndar að slá í gegn veðurfarslega séð og allt í sómanum hér en það breytir því ekki að landið er ferlega flatt og allsvakalega grænt. Eiginlega bara grænt.
Annars er Sigrún að fara á Hvannadalshnjúk núna í maí… best að stinga upp á því við hana að við tökum hann saman í sumar… bara við tvær. Hún ætti að rata þá.
Takið eftir klæðnaðinum… Sigrún sagði að það hefði mátt halda að við værum á gæs!