Mánudagspæling útfrá Eurovision
Í morgun vakti Svala mig kl 6.30 til að ég gæti sett fasta fléttu í hana. Ég varð svo guðslifandi fengin að hún vakti mig því mig var að dreyma að ég væri í Noregi, í bæ sem heitir Homm og er skammt frá Þrándheimi. Ég þurfti nauðsynlega að komast heim til Íslands fyrir nóttina því ég var að fara á dagvakt daginn eftir. Málið var að ég átti enga flugmiða, hvorki innanlands né utan og það gengu hvorki strætóar né lestir frá heimilinu í Homm til Þrándheims… En ég var með „Dagnýjarstílinn“ á þessu… Þetta reddast, nema hvað ég var orðin frekar mikið stressuð. Svo kom yndislega Svalan mín. Og það er engin bær í Noregi sem heitir Homm. Hugsa að Eurovision hafi tekið fullmikið pláss í höfðinu á mér um helgina. Það var svo mikið „homm“ um helgina!
Ég lá eins og flatfiskur í sófanum og horfði spennt á Eurovision og hafði gaman af. Mér fannst umgjörðin flott, kynnarnir skemmtilegir, búningarnir flottir, mörg lög mjög flott, sviðsetning æði og gleðin mikil. Úrslitin voru eftir mínu höfði, Austurríki, Holland, Armenía, nema hvað ég hefði viljað skipta Svíþjóð út og fá Noreg í eitt af 4 efstu. Eina sem skyggði á, var púhið á rússnesku stelpurnar… en Eurovisionaðdáendur eru svo sárir útí Putin og hafa ærna ástæðu til, að þeir ráða líklega ekki við sig, enda tilfinningafólk með eindæmum.
Austurríska pulsan mín og Pollapönk gerðu þetta óaðfinnanlega og punkturinn yfir i-ið var boðskapurinn! 180 milljónir að horfa… frá Kína, niður til Afríku, upp til Kanada, aftur niður til Ástralíu!!! Ohhh hvað þetta var gott! Ég klappaði alveg hreint. Og fór svo á facebook…
…á facebook voru skiptar skoðanir sem er hið besta mál. En hvað í ósköpunum er það sem gefur löndum mínum, dönum og normönnum rétt til að kalla aðra manneskju „viðrini – ógeð – oj bara – gerpi – hommadjöful“? Manneskju sem hefur ekkert rangt né íllt gert? Það verður svo áþreifanlegt hvað fordómarnir eru gífurlegir útum allan heim, ekki bara í Rússlandi heldur líka næst okkur og hvað við erum komin stutt í því ferli að líta jafnt á hvort annað.
Ég hef sjálf verið/er með fordóma… t.d. eru ekki nema 2 ár síðan ég bloggaði óvægið og fáfróð um þunglyndi. Hef síðan lært ótrúlega mikið af Svölu í gegnum hennar ferli og þótt þetta hafi ekki verið auðvelt, þá er þetta að vissu leyti ómetanleg reynsla. Ég hef líka verið óvægin gagnvart atvinnulausum, ómenntuðum, öryrkjum og fleiru góðu fólki. Sagði alltof oft að allir hefðu val. En það er ekki raunin, það hafa ekki allir val. Og það þurfa ekki allir að hafa menntun. Alls ekki. Hvað var ég að spá? Svona getur maður verið vitlaus, dæmandi og fáfróður…
Ég var með Vask útí áðan og gekk framhjá menntskælingsdrengjum sem ræddu greinilega Eurovision því ég heyrði þetta: „dame med skæg… godt nok ulækkert… burde forbydes…“. Hvernig er eiginlega talað á heimilum þessarra drengja?
Aldís hefur verið með einhverfri stelpu í bekk í menntaskólanum í 3 ár og er hún þekkt í bænum fyrir að valhoppa um göturnar í Sönderborg. Hún á enga vini, sækist eftir að vera ein og gerir engum mein. Eftir 3ja ára samveru eru bekkjarfélagarnir enn að pískra, tala niðrandi um hana og gera grín að henni… afhverju er ekki hægt að taka henni eins og hún er?
Afhverju erum við ekki öll jöfn, óháð kynhneigð, þjóðerni, geðástandi og skeggvexti??? Og hvað er það sem gefur t.d. mér rétt til að halda að ég sé betri en einhver annar? Eða að halda það að ég sé meira normal en skrítni gaurinn? Svar: ekkert.
Í gærkvöldi fór ég með Vask út í skjóli myrkurs, klædd eins og ég veit ekki hvað. Stíllinn var vita vonlaus!
Dúnúlpa, doppóttur kjóll, berleggjuð og gulir adidasskór??? Eins gott að það var myrkur og fáir á ferli… hvað hefði fólk hugsað ef það hefði séð mig? Kannski hefði einhverjum fundist ég vera „viðrini“ afþví að ég var ekki innan rammans í klæðaburði?
Conchita Wurst sagði á blaðamannafundi að þetta snérist allt um umburðarlyndi, viðurkenningu og kærleika…
… Thomas Neuwirth er væntanlega sammála <3