Fyrirtíðarspenna / Marta María
Langaði að blogga í dag en er algjörlega stuðlaus. Ekkert af því sem ég skrifa er að gera sig og því ekki annað í stöðunni en að blogga um að geta ekki bloggað. Kannski get ég ekki bloggað því það gerist ekki neitt hjá mér, nema vinna, sofa, borða, borða, vinna, sofa… síðan ég kom heim frá Íslandi. Það þarf eðlilega að gerast e-ð til að geta sagt frá því. Ég var reyndar með hugmynd að bloggi á leið heim úr vinnunni og alveg þangað til ég fór á hjólinu hennar Svölu í Kaupfélagið til að kaupa ráðstafanir fyrir þetta mánaðarlega sem er væntanlegt áður en ég veit af.
Og púrrulauk.
En þá fór sú blogghugmynd í vaskinn.
Því rosalega verð ég pirruð í hvertsinn sem ég þarf að kaupa púrrulauk. Við erum 4ja manna fjölskylda og ég þarf einn. En þarf alltaf að kaupa ca svona magn!
Þetta var minnsta búntið sem ég fann. Hvað er heila málið??? Ég er ekki að fara að halda 100 manna íslenska fermingarveislu ef búðin heldur það! Og hvað þá hafa púrrulauk í matinn 4 daga í viku. Ég bara skil þetta ekki og er auk þess orðin hundleið á að hafa gleymdan og myglaðan púrrulauk í neðstu skúffunni í ísskápnum.
Síðan hjólaði ég aftur heim, eftir litlu götunni þar sem maður speglast svo greinilega í rúðum sóðapöbbsins og arabahársnyrtistofanna sjö. Þar sá ég það hræðilegasta í dag! Ég minni á að ég var á „shopper“ hjólinu hennar Svölu en shopper hjól er svona dömuhjól þar sem maður situr alveg uppréttur. Hjólið er fremst á myndinni.
Ekki nóg með að við Sigrún gerðum leiðindar aldursuppgötvun í Grafarvogslauginni um daginn heldur fékk ég það allt saman staðfest í dag. Ég get svo svarið að rassinn á mér hékk útyfir sætið að aftan… ég hefði getað grátið! Ég sá þetta greinilega í arabagluggunum… þetta fór enganvegin á milli mála. Hann hékk bara þarna… hálfaleið niður að bögglabera! Þetta gerist ekki á mínu hjóli því á því halla ég fram. En á hjóli dóttur minnar hverfur sætið bara?!? Hversu oft hef ég ekki hjólað á eftir fólki og hlegið í hljóði því það sýnist sitja á stönginni. Mér varð svo um að ég setti í sjötta gír og spítti í. Sá ekki rauða ljósið fyrr en ég var komið útá miðja götu og einn flautaði á mig og annar kom snögglega í veg fyrir að keyra á þann sem flautaði. VANDRÆÐALEGT. Þetta er mitt hverfi og ég er ekki nýflutt í það. Ég „vaknaði“ og dröslaði hjólinu, túrtöppunum, púrrulauknum og sjálfri mér upp á umferðareyju og beið þar eins og lúpína eftir að röðin kæmi að mér! Og ekki einu sinni með sólgleraugu. Algjörlega berskjölduð eins og haustblóm í stormi. Þvílík niðurlæging.
Heim komst ég, líkamlega heil á húfi. Ég var varla komin inn úr dyrunum þegar eiginmaðurinn til tuga ára segir mér, sótsvartur í framan frá því að Hanna Birna hafi hitt Helen Mirren og að Marta María hafi skrifað um það á MBL!!! Ég sagði honum að hætta að lesa Mörtu Maríu ef hún fer svona í skapið á honum… hann sagðist ekki geta það. Ég sagði að hann gæti allt sem hann vildi. Hann sagðist ekki vilja hætta að lesa hana því hún væri svo ofboðslega „gott vont“, eins og ílla mígin hákarl. Það getur vel verið að hann vilji kvelja sjálfan sig með Mörtu Maríu á MBL en með því áframhaldi verður hann ósambúðarhæfur! Verri en ég með mína fyrirtíðarspennu sem getur sett heimilið á hvolf. Ég set reyndar upp minnismiða reglulega á baðherbergisspegilinn til að fyrirbyggja frekari umhverfisslys;
Og svo er sumt sem ég höndla verr en annað…
Ég er þó að vinna í mínum málum en hann les Mörtu á hverjum degi!