Austurferðin
Í síðustu færslu fór ég norður og gisti hjá pabba sem hafði búið svona fallega um mig.
Núna ætla ég austur. Pabbi skutlaði mér niðrá Eyri, með viðkomu í legsteinaverksmiðju til að velja sér legstein, og ég sótti bílinn sem ég átti að ferja til Egilsstaða. Heldur varð ég hissa þegar ég sá að það var Skoda…
Þetta yrði þá þriðji Skodinn sem ég settist inní á 2 dögum (þessum þriðja hef ég ekki sagt frá, enda frá engu að segja). En í ljósi þess að ég hef alltaf verið með Skodafóbíu enda með meðfætt bílasnobb, þá er stórmerkilegt að ég skyldi vera svona umkringd Skodum í þessa 2 daga.
Ég var alveg að læknast af fóbíunni eftir að hafa keyrt Skódaljóta hans pabba norður, en hann á nefnilega turbóSkoda og mátti ég ekki drepa á honum fyrr en í fyrsta lagi eftir 2 sek, því túrbínan þarf að hreinsa sig. Og viti menn, þau undur og stórmerki gerðust, að ég læknaðist algjörlega af Skodastælunum í norðanverðri Fljótsheiðinni, eftir að hafa stokkið uppávið á ójöfnu malbikinu. Þar varð mér ljóst að ég ætti jafnvel eftir að setja enn eitt perónulega hraðametið á milli AK og EGS.
Ég var komin í Mývatn áður en ég vissi af og gat ekki sleppt jarðböðunum… ein á ferð og engin til að reka á eftir mér. Meira að segja Óskar Pétursson var látin vera kyrr í bílnum hans pabba.
Ég var náttúrulega allslaus í svona böðun og þurfti því að leigja baðbúnað. Mývatn átti ekkert bikiní handa mér og bauðst mér því lengsti sundbolurinn en hann var dökkbleikur.
Þegar í hann var komið, var hann alltof stuttur (samt sá lengsti sem var í boði) og var ég því alltíleinu komin með umþaðbil 6 rassa aftan á mig. Og ekki nóg með það… bolurinn innihélt aflóga brjóstapúða sem voru rammskakkir og ekki nokkur leið að færa til. Svona var ég tilneydd til að spígspora innan um fallega sólbrúna og olíuborna Færeyinga og Frakka. Eðlilega tók ég ekki mynd!!!
En eins og að ofan var skrifað, var ég ein og gat því ráðið mér sjálf… tók því myndir af einhverju öðru í staðin. Þið hefðuð líka hætt að lesa mig ef þið hefðuð séð mig í þessum ljóta sundbol. Auk þess var hann fullur af lofti… allsstaðar! Og leit loftið út eins og ólögulegir keppir á víð og dreif. Eða eins og innyflin væru að bólgna út… lifur þarna, nýra til vinstri, lunga aftan á…
Mývatnsöræfin skörtuðu sínu fegursta í þessu fallega veðri. Sundbolurinn var því nánast gleymdur þegar ég var komin yfir Námaskarðið.
Mig langaði bara aftur í bað… en mundi þá eftir sundbolaófétinu og gaf Skodanum vel inn.
Tók þó eina sjálfsmynd af Mývatnskaffinu fyrst… ef e-ð skyldi koma fyrir.
Þeyttist síðan fram hjá Herðubreið, drottningu allra fjalla og uppáhaldinu hans pabba. Þaðan yfir í Víðidalinn og tók mynd.
Í Víðidal væri ég til í að búa. Og það eru engar ýkjur. Nógu eyðilega en samt í alfaraleið svo að ég fengi gesti endrum og eins. Ég þyrfti voðalega lítið að tala og gæti bara slappað af í náttúrunni, lesið, skrifað, tekið myndir og borðað. Þá væri ég til friðs.
Eða þarna megin, skiptir ekki öllu! Bara einhversstaðar í friðsemdinni þar sem ég þyrfti ekki alltaf að klæða mig í góðu veðri. Held ég sé fædd einbúi. Er bara að fatta það fyrst núna… Reyndar hefði ég líklegast félagsskap af Gunnu í Vegaskarðinu á dimmum og draugalegum kvöldum…
Jökuldalsheiðin er líka möguleiki… fyrir lítin frumstæðan sumarbústað… ekkert rafmagn, engin örbylgjuofn, bara rennandi vatn og einhver hiti. Og kaffi og nóg af mat. Vá, hvað ég væri fín þannig. Þó ekki væri nema nokkra mánuði á ári. Þarf ekki að taka margar aukavaktir og þá ætti ég fyrir þessu öllu. Veit um hentugt hús (Grenisölduna) og lóðirnar geta varla kostað mikið þarna í auðninni??? Kannski fjörtíuþúsundkall?