Norðurferðin

Um daginn fór ég í bíltúr með karli föður mínum og Óskari Péturssyni norður á Akureyri. Óskar er jafn sjálfskipaður ferðafélagi hjá pabba og ég er jafn sjálfskipaður bílstjóri… af því að ég er svo „rosalega góður bílstjóri“ eins og pabbi segir. Eins og Óskar, nema hann er „rosalega góður söngvari“. Þetta var í annað skiptið sem ég ók Skoda á ævinni. Fyrsta skiptið var 2 kvöldum áður þegar við fórum á Vorgleði kvenfélagsins í Hjaltastaðaþinghá. Þá var Óskar Péturs líka með… og Ramóna!

Þetta var í 3ja skiptið sem ég keyri þessa leið síðan ég flutti út til Danmerkur og því farin að ryðga töluvert í örnöfnunum.

Pabbi samkjaftaði ekki undir tónum Óskars, enda alkunnugur á Möðrudalsöræfunum  og þuldi upp… Langidalur, Svartfell, Rönd, Eilífur, Gunnuklöpp, Hrossaborgir… Ég mundi 1/3, var búin að gleyma 1/3 og hafði aldrei heyrt 1/3.

IMG_6251

Að sjálfsögðu var stoppað í Möðrudal þar sem skaflinn í hlaðinu var með hæsta móti. Við þáðum kallakaffi og molasykur og ég reyndi að dýpka röddina um einn. Ég hafði ekki séð Villa í tugi ára og fann barasta fyrir feimni. Fólk er orðið e-ð svo fullorðið í kringum mig, ég er líklega sú eina sem er íllilega stöðnuð.

IMG_6246

Síðan héldum við feðgin áfram og pabbi þuldi… Sandfell, Víðidalur, Vegaskarð, Geldingafell, Dysjar, Heljardalur, Fremstakerling og Blótkelduhorn.

En á milli sagði hann sögur… t.d. afþví þegar hann fór og sótti Guðmund í Víðidal á ljóslausum rússajeppanum til að rúnta á harðfenninu útum öll fjöll með passlega mikið af brennivíni á milli sætanna. Góðir tímar… góðir tímar!

Eða þegar skyndilega fannfergið kom einn daginn árið 1969 og féð fennti á kaf. Þeir Venni leituðu í marga daga og misstu um 100 kindur. Þrátt fyrir mikla hjálp frá bændum á Jökuldal. En þrátt fyrir hjálpina var öldin önnur í þá daga og leitin erfið.

Hann sagði mér líka frá því þegar afi minn fékk nóg af umtalsílla karlinum og henti honum útúr Berlín á Seyðisfirði. Karlinn rúllaði niður brekkuna, yfir Hafnargötuna og útí sjó. Svona gat afi verið kröftugur þótt hann væri ekki nema 160cm og hjólbeinóttur.

Norður komumst við og ég sá pleisið hans pabba í fyrsta skipti. Hann er svoddan flakkari að ég hef ekki undan að sjá hvernig hann býr.

IMG_6316

Svona er útsýnið hans pabba. Ekki sem verst…

IMG_6305

Hann ól mig eins og jólagrís… gaf mér hangikjetflís, lax, hunangsseríos og gæðakaffi sem kostar 1000kall.

IMG_6294

Hann fór með mig í sveitina og ég þóttist hafa örlítið vit á hestum og spurði ábúendur: „hvort þessi 4javetra meri væri undan Hrafni frá Holtsmúla?“ Bóndinn hristi hausinn og hvarf inn í hesthús en sonurinn kom út og spurði hvort ég væri gift…

IMG_6299Ég reyndi að ná augnsambandi við pabba en hann var farin að gefa þýsku vinnukonunni undir fótinn.

IMG_6312

Síðan kom ferjan og við fórum til Dalvíkur í mat til fullorðnu bróðurdóttur minnar. Þó bara á Skodanum.

2014-04-21 18.55.20Yngsta hennar var svo brosandi og krúttleg þegar ég hossaði henni fyrir framan spegilinn að ég ákvað að taka mynd… en það breyttist alltíeinu á svipstundu!

Seinna skutlaði ég litlu unglingsbróðurdóttir minni inná Akureyri og ákvað að fara á rúntinn og rifja upp áttunda og níunda áratuginn. Þarna sést t.d. Turninn en hann seldi besta sælgætið á Íslandi. Pabbi bjó í Gránufélagsgötunni og ég var í paradís… við hliðina á SJOPPUNNI.

IMG_6269

Litla bróðurdóttir mín sagði mér frá öllum nýju búðunum og frá besta kaffihúsi bæjarins sem er gult hús afsíðis í göngugötunni… og þá datt víst uppúr mér…“hey, ég hef pissað á bakvið þetta hús, en þá var það ekki kaffihús, heldur bjó gömul kona í því og hún rak mig í burtu…“ Ég var því miður búin að gleyma að litla frænka mín er bara 13 ára og hefur alls ekki gott af að heyra of margar Akureyrarsögur af mér…

IMG_6274

(p.s. ég var ekki með þrífót sem er betra á bláa tímanum). Ég er langhrifnust af Eyrinni enda var fjölskyldan að mestu samankomin þar. Veðrið var alltaf gott og húsin í fallegum litum.

Þegar ég kom aftur útá Sand, voru bæjarbúar Hríseyjar búnir að kveikja ljósin.

IMG_6286

Áður en ég hélt austur aftur, kíkti ég á Ödda frænda.

IMG_6320

En hann er sá eini sem má reykja á mínum myndum…

IMG_6335

Þessir tveir eru eins og Skapti og Skafti… rifust mest allan tímann um hvort Bónuskaffi á 200kall eða Kaffitár á 1000kall væri betra. Ég hafði smakkað bæði og átti að vera dómari… Það er líklega það erfiðasta verkefni sem ég hef fengið síðan ég fór í vorfrí!

 

 

 

Trackbacks & Pings

  • Árið 2014 « Alrunarblogg :

    […] Stuttu seinna fór ég til Íslands til að vera með í ferlinu og vera hjá mínum nánustu. Það var ferð sem tók á en jafnframt góð ferð. Húsið á Eiðum fylltist því fjölskyldan sameinaðist í erfiðleikunum og reynt var að gera það besta úr hlutunum. M.a. fór ég norður með Sævari pabba til að sjá brot af Akureyrarfjölskyldunni minni. Ferðin var skemmtileg og fékk slatta af like´sum.  […]

    10 ár ago

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *