Afslöppun á Austurlandi
Á Austurlandinu er engin æsingur í mönnum að endurnýja bílnúmerin sín… enda engin ástæða til. Mér finnst óttalega heimilislegt að aka á eftir U! Og hvað þá 9unda áratugar Subaru!
Svona græja vekur upp margar barns- og unglingaminningar hjá mér enda átti ég Subarubarnæsku!
Bensínmenningin er líka skemmtileg og heldur ekkert stress þar. Bæjarbúar bara dæla á og fara inn og borga… og spjalla.
Og á meðan bíða hinir í röð, því spjallið er á rólegu nótunum eða ca. svona:
„Sæll“
„Já sæll“
„Hvað segist?“
„bara bærilegt“
„komstu ekki bara vel undan vetri?“
„jú, það má segja það“
„e-ð kal?“
„Né… ekkert að ráði“
„Heimtirðu allt?“
„já, nema einn hrútsræfil“
„já, var hann ekki e-ð rýr fyrir?“
„jú, líklega með snert af riðuveiki“
Og svona heldur þetta áfram og áfram og áfram… og engin neitt að spá í röðina sem myndast og engin er með neinn sjáanlegan æsing.
Í hverri Austurlandsferð verð ég að fara í Kaupfélagið. Það er bara fastur liður án nokkurrar útskýringar. Í Kaupfélaginu fæst allt frá donuts, spariskóm, hjólbörðum og hóffjöðrum. Alveg eins og í gamla daga. Það eina sem ég undrast yfir er uppröðunin…
…aldrei voru skórnir hjá álegginu í gamla daga! Táfýlureykt hangiálegg? Og bæjarbúar bara arfaslakir?
Ég fer eins oft í sund og ég get… afrekaði í dag að stríplast á bikiníinu á kolröngum stað! Ætla ekki að segja nánar frá því, því það var svo vandræðalegt. En í gær var gott atriði. Ég var bara í heita pottinum að spjalla við fínustu frúr bæjarins, þegar rammfullorðin innfæddur karlmaður vindur sér í pottinn og segir: „Sælar stúlkur mínar, þarna misstuð þið af fermingarbróður mínum… hann var e-ð að lauma sér út fyrir og vildi bara kíkja á ykkur, en þá kom Elvar sundlaugarvörður og tróð honum aftur inn og batt fast fyrir…“
Afhverju var ég ekki meira vakandi og sá þetta??? Afhverju missi ég alltaf af…? Og afhverju verð ég sett í fangelsi fyrir að taka mynd af góðum atriðum?
Hinir pottormarnir brostu bara afslappaðir útí annað og héldu spjallinu áfram en ég var í sjokki!!! Austlendingar eru ekkert eins afslappaðir og ég hélt… ég meina, hvað var Elvar sundlaugarvörður að stressa sig yfir þessum eineygða? Og er ekki svoldið gróft að fá fangelsisdóm fyrir að taka skemmtilegar myndir? Jú, manni er bara spurn…