Austurglugginn part 2.
Aftur komin sunnudagur og engin tími til flókinnar færslu. Datt svona rosalega í lukkupottinn áðan og fékk að vera á bakvakt til kl. 23 í staðin fyrir að mæta kl. 19. Stytti þessvegna næturvaktina mína væntanlega úr 12 tímum í aðeins 8,15 tíma. Taskan er pökkuð en vantar að loka henni… get reyndar ekki lokað! Spurning um að skilja bikiníið eftir heima og leiga bara sundbol hjá Ella og Steina í Aglastaðalauginni?!?
Ætla aftur að sleppa ódýrt frá bloggi í dag og birta bara e-ð gamalt, eins og síðasta sunnudag. Þessi lokaorð birtust í 13.tbl, þ.e.a.s. 4. apríl síðastliðin.
Málhelti erlendis…
Í langan tíma hefur mér fundist mikil áhersla lögð á íslenska tungu. Fallegustu orðin voru fundin í haust, Orðbragð á RUV sló í gegn og margir tala og skrifa um fallega og litríka málið okkar. Hjá okkur í útlöndum hefur tilveran einnig snúist um tungumálið. Það að ruglast á orðum sem eru lík eða þýða bara beint úr dönskunni hefur oft gefið tilefni til bross innan Íslendingasamfélagsins.
-T.d. þegar tækniteiknararnir voru að halda upp á útskriftina niður í bæ þann 15. júni og Þórður fór að segja Dönunum frá því hvað við Íslendingarnir ætluðum að gera á þjóðhátíðardaginn okkar. Við vorum nefnilega vön að hittast fyrir utan eina stúdentagarðana og grilla pulsur útá túninu. Hann orðaði þetta því svona: “Vi mødes alle sammen ude på marken og laver pølser sammen”… En “at lave pølser” á dönsku er krúttlegt máltæki yfir að hafa hægðir. Danirnir fengu kolranga mynd af dagskrá okkar Íslendinga á þjóðhátíðardaginn.
-Annað dæmi er þegar Eva geislafræðingur stillti sjúklingunum sínum upp við röntgentækið og sagði þeim síðan að þegja! Hún áttaði sig þó fljótlega á að þarna var ekki allt með felldu og lærði að segja: “stå stille”(stattu kyrr) í staðin fyrir “ti stille”.
-Þegar við vorum í húskaupahugleiðingum sagði ég systur minni frá húsi sem mig langaði svo í því það “lá” svo fallega. Henni fannst einkennilegt að ég hefði áhuga á liggjandi húsi…
Seinna keyptum við hús, sem þó var uppistandandi, og sátum einn daginn úti í garði með vinum okkar og ræddum endurbætur á húsinu. Fúsi Fellamaður tilkynnti að hann vildi aðeins grafa frá einni hlið í einu því hann vildi ekki svekkja húsið! Jú, svei mér þá ef múrsteinshúsin í Danmörku eru ekki bara liggjandi tilfinningaverur.
-Síðan var það Sævar sem var aðeins 6 ára og nýfluttur til Danmerkur þegar hann fór til skólatannlæknis. Tannlæknirinn sagði að hann mætti kyngja (synke) og þá byrjaði Sævar: “la la la la la”. Og sagði svo seinna við mömmu sína að honum hefði ekki dottið neitt lag í hug svo hann söng bara la la…
-Eitt dæmi enn er Linda hárgreiðslukona- sem vann á stofu niðri í bæ og gat verið svolítið utan við sig. Einn daginn sátu þær í vinnunni og ræddu gleraugnanotkun ásamt nærsýni og fjarsýni (langsyn). Spurðu síðan Lindu hvað hún væri. Hún svaraði: “jeg er fjernsyn” (sjónvarp).
-Fúsi Fellamaður fór á flóamarkað stuttu eftir komuna til Danmerkur og spurði um verðið á stól. Afgreiðslumaðurinn sagði “halvtreds (50). Fúsa fannst það nú heldur dýrt, hnyklaði brýrnar og bauð “femti (50)”
-Lokadæmið er Jón sem kom við hjá okkur á leið heim úr foreldraviðtali, frekar ósáttur við stærðfræðikennara sonarins. Hann sagðist hafa sagt kennaranum að hann væri með öllu “impotent”! Við rákum upp stór augu og báðum hann um að endurtaka orðið… jú impotent! Við spurðum hvort hann hafi verið meina inkompetent? Jú, ætli það ekki… Og e-ð seig Jón í stólnum þegar hann áttaði sig á að hafa sagt við kennarann að hann væri getulaus en ekki óhæfur.
Svona getur stundum málheltið hrellt okkur.
Ljósmynd: Aldís