Stórhættuleg skógarferð.

Held svei mér þá að það sé komin tími á skógar/hundablogg. Sérstaklega í ljósi þess að þessi ferð var með þeim hættulegri sem ég hef lennt í. Í rauninni hættulegri en Kirkjufellsferðin hérna um árið, sem ég er enn með hröpunartilfinningu útaf. Samt er ég nokkurnvegin læknuð af lofthræðslunni, þessi leiðindartilfinning er bara einungis á milli svefns og vöku og þegar ég skoða hræðilegar lofthræðslumyndir… eins og þessa sem ég sá á instagram í dag…

2014-04-07 21.12.37

Þetta er hræðileg lofthræðslumynd!

Þótt ég lifi lífinu svoldið hættulega með því að borða, sælgæti, keyra stundum of hratt, hjóla eins og elding, labba ein heim úr bænum á nóttunni og já, borða brauð og dýrafitu þá er ég engan vegin tilbúin til að deyja núna. Í dag hefði ég getað verið nálægt því.

Við Vaskur ákváðum að fara að tékka á hvort Anemónurnar væru komnar. Anemónur eru lítil hvít skógarbotnsblóm sem þekja skógarbotninn eins og snjóbreiða í örfáa daga á ári.

Við fórum strax útaf stígnum og rákumst á 2 blóm.

IMG_5631

Komum að tjörninni sem okkur finnst alltaf svoldið ævintýraleg í litum og jafnvel pínu draugaleg.

IMG_5596

Það var strax þá sem gönguferðin byrjaði að vera hættuleg. Mér varð litið á feldinn hans Vask og sá þá svanga skógarlús vera á vappinu á honum. Ég sló hana í burtu og um leið varð mér litið á ljósgráu joggingbuxurnar mínar (sem eru mjög mjög ljótar) og sá þá 3 skógarlýs vera skríða upp eftir skálminni (nei, þetta voru ekki litlar kóngulær, þekki muninn 100%). Ég tók því ákvörðun þarna á staðnum um að fara ekki í panik.

Vaskur hafði því engan grun um hættuna sem ég var líklegast við að koma okkur í.

IMG_5610

Hann skimaði bara svellkaldur eftir músum, hérum og kanínum og tók á rás við minnstu hreyfingu. Veiddi samt ekkert enda ekki veiðihundur.

En ég ákvað að halda göngunni áfram, enda bara nýkomin og gat ekki svikið prinsinn um almennilega skógarferð.

Til að þið skiljið mig betur, ætla ég að segja ykkur hvað skógarlús er. Þetta er Ticks á ensku, á sér enga óvini í náttúrunni, er hættuleg blóðsuga sem borar sig fast inní mann eins og öngull og getur lamað mann (ef maður er óheppna týpan).

0_130410_208995900

Þetta er týpísk södd skógarlús… afvelta af ofáti! Svona eru þær þegar þær hrynja af hundinum mínum. Á stærð við meðal litlafingursnögl ef ekki stærri.

Við héldum semsagt áfram og reglulega leit ég á buxurnar mínar og sló slatta af… bæði litlar og stærri. Einnig var feldurinn á Vask slegin í allar áttir. Það er frekar ógeðslegt að upplifa allt morandi útí skógarlús! Ég þurfti meira og meira að taka á honum stóra mínum til að fara ekki að vera með læti. Þetta var nákvæmlega sama tilfinning og þegar ég þurfti að fara út í myrkrið í sveitinni í gamla daga… var send til að sækja e-ð í Broncoinn sem stóð fyrir neðan garð. Ég klappaði alltaf saman lófunum af fögnuði… eða ekki! Myrkrið í sveitinni var þykkara en allt myrkur, stundum var mótstaða. Ég fór út í Bronco og hugsaði allan tímann; ekki hlaupa ekki hlaupa ekki hlaupa… sótti svo hlutinn, skellti hurðinni og hljóp eins og tittlingur til baka… í hræðslukasti. Í minningunni var ég send útí Bronco á hverju kvöldi, en ég held að raunveruleikinn sé sá að ég hafi aðeins verið send ca 3svar sinnum á ævinni.

(Fyrir þau ekki sem vita, þá er Bronco bíll, Ford Bronco, mjög töff bíll). 

En svona leið mér í dag… hugsaði STANSLAUST; vertu róleg vertu róleg vertu róleg!  Við fórum upp á Arnehöj hæðirnar og nutum kyrrðarinnar, þar eru engin hlauparar, fjallahjólsfólk né annað hundafólk.

IMG_5624

Mér leið eins og ég væri bráð, afar auðveld bráð, með bert á milli að neðan. Aðgangurinn greiður eins og tómri hraðbraut. Sá fyrir mér, mig lamaða, sitjandi í hjólastól á Möllegade, þar sem allt snýst um tröppur! ALLT. Hey, mig langar út í garð… tröppur, hey, ég þarf að pissa… tröppur, hey, ég er svöng… tröppur, hey, langar í bíltúr…. tröppur, hey, langar að snuðra í herbergjum dætra minna… tröppur!

Eftir 80 mínútna andlega erfiða göngu snérum við heim. Þá fyrst gat ég leyft mér að vera með læti… Ég leyfði mér að væla svolítið en Jesús Kr. minn góður, ekki voru undirtektirnar til mikillar hjálpar.

F: „hvað var ég að segja þér fyrir 2 vikum síðan? Var ég ekki að lesa upp úr frétt fyrir þig að það var verið að vara við sprengingu í skógarlúsarfjölda núna??? Að þú ættir að halda þig á stígnum??? Hlustarðu aldrei á mig???“

Mér leið eins og einni 5 ára og vældi aðeins meira og sagðist hafa gleymt mér… og þá sagði hann mér bara að hætta þessu væli. Ég bað hann um að fara yfir mig og tékka en e-ð var hann tregur til þess. Ég á nefnilega erfitt með að horfa upp á slys á sjálfri mér. T.d. þegar ég stundaði körfuboltann í mörg ár (vegna hæðar minnar), og lennti aftur og aftur í slysum tengdum honum, þá fannst mér best að vera með lokuð augun.

Þetta var semsagt síðasta utanstígaskógarferðin okkar Vasks þetta vorið og verðum því bara að bíða með óþreyju eftir haustinu.

Og fyrir rest fundum við fleiri en 2 anemónur… þetta er allt að koma hjá þeim og eftir nokkra daga verður skógarbotninn skjannahvítur.

IMG_5635

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *