1. sunnudagur í sumartíma.
Dagurinn í dag var að mestu tíðindalaus og skýjaður, með lítilsháttar sól á köflum. Á meðan ég stóð á aukavaktinni og skipti á sáraumbúðum í marga klukkutíma, gekk heimilislífið sinn vanagang. Gamli Gaur brá sér útúr húsi og þegar hann kom heim aftur, voru 15 ósvöruð símtöl á samsung… greinilega hringt í panikki og send 2 sms (þessi gulu neðstu)!
Annarri heimasætunni er ósköp í nöp við hundaælur.
Þegar ég kom heim, eftir að hafa borðað botnfyllina af vondu Mackintoshmolunum í hádegismat í vinnunni… já, á meðan ég man… er nokkuð óviðhæfi að hengja miða utan á gjörgæsluna og biðja þakkláta aðstandendur um að koma með e-ð annað en 3 kg af Mackintosh handa okkur trekk í trekk? Ég þarf að láta styrkja hjólið mitt ef þetta heldur svona áfram. Allavega, þegar ég kom heim, fannst mér önnur heimasætan hafa lært heldur mikið og bað hana því um að taka til í kryddhillunni í eldhúsinu. Hún mátti henda öllu sem var útrunnið. Það varð ca. ½ innkaupapoki. Ég kíkti oní hann til að vera viss. Og spurði hvort þetta hefði allt verið ónýtt???
Hún: „já, þetta var myglað“
Ég: „myglað?“
Hún: „já“
Ég: „líka kökuskrautið?“
Hún: „já, það var mjög myglað… 2013 sko“
Margt hafa þær frá mér, en ekki þetta… svona hendigjörn er ég ekki!
Á meðan Aldís tók til, settist ég út með kaffið og bók (snilldarbók sem ég segi ykkur frá seinna). Sofnaði nánast með það sama í hálfskýjaðri sólinni og vaknaði með andfælum við mínar eigin hrotur í alskýjuðu, köldum blæstri og í mesta lagi 9 stiga hita. Ég sem ætlaði að vera freknótt og hraustleg í apríl! E-ð er það nú að fara forgörðum.
Og svo að ég gleymi því ekki, þá kom sumartíminn í nótt… tæknilega vaknaði ég kl 4.45! Og því minni ég eitt vorið enn á að við erum enn í átakinu „að fara fyrr að sofa“ og því pínu pirri pí ef síminn hringir mikið eftir kl 22.30 á okkar tíma.
En í augnablikinu þegar ég vaknaði, fannst mér ég vera í flugvél. Svona vakna ég iðullega í flugvélum. Við mínar eigin hrotur. Enda alltaf með eindæmum þreytt um borð. Alltaf að fara beint í flug eftir vinnurugl af einhverju tagi, annaðhvort eftir að hafa unnið mér inn sumarfrí á síðustu metrunum, eða marathonvinnu í Noregi eða 12 tíma næturvaktatörn. Næsta flug verður eftir svona næturvaktartörn… beint útá völl og ég ímynda mér að ég líti svona út alla leiðina.
En ef mér verður á að gleyma að biðja um gluggasæti og lendi í þrengslum verð ég að sofa svona…
En veit því miður að ég sef mest svona… nema hvað ég er með mýkri húð og flottari klippingu. En oftast er ég svo gegnsæ við lendingu að mamma spyr hvort ég sé nokkuð byrjuð í dópinu…?
En málið er að þegar svefninn sækir á mig, þá verður mér sama um allt… svipað og þegar maður er að fæða barn -alveg sama. Ég held bara mínu striki áfram ótrauð. Sef eða fæði.
Annars er ég alveg með vissa mynd af draumafluginu í kollinum, svona þegar maður ferðast nú á almúgarýminu.
… flugfreyja, viltu vera svo væn að loka? Ég gæti lokað allt úti, barnshljóð, fínar frúr talandi um shopping, fugla kalla bæla niður flughræðsluna og flugmanninn símalandi um fet. Svo fengi ég allt það sem var ókeypis um borð í goody bag á leið út og flugfreyjan myndi brosa til mín og segja bless.