Þetta þrennt sem ég skil ekki.
Það er ca. 3nnt sem ég skil ekki þessa dagana.
1. Hvernig í ósköpunum nennir einhver að læra að vera kiropraktor eða hnykkjari eins og það heitir á íslensku? Annað eins einhæft starf eftir langa menntun er leitun að! (Leiðréttið mig ef ég fer með fleipur). Þetta tekur 5 ár! Hálfu ári styttra en mitt nám! Og það eina sem þeir gera er að láta mann fara úr fötunum (-í hvert skipti!), síðan anda inn, anda út, leggjast oná mann og hossast, svo það brakar eins og í áramótakínverjum í hryggjarsúlunni.
Í síðustu færslu birti ég mynd af heita Sören þar sem við höfðum það Kósý í bakgarðinum á Kíróstöðinni hans. Þetta var helber lýgi…sorrý! Í fyrsta lagi er Sören ekkert heitur og í öðru lagi heitir minn kíró Súsanna! Hún er yngri en ég, léttari en ég og stinnari en ég. Ég finn það þegar hún leggst oná mig.
Ég fór þarna í annað skiptið á miðvikudaginn og ritarinn sagði að ég gæti bara farið beint inn í klefa og klætt mig úr… Ég spurði hvort ég þyrfti að fara úr fötunum aftur… Stóra rannsóknin væri yfirstaðin. Já, þú þarft að fara úr fötunum sagði ritarinn ósköp móðurlega. Öllum? Já, eins og síðast og brosti róandi brosi.
Ég sem hafði mætt í kíróbúningnum mínum -þröngu frá toppi til táar og hafði haldið að það væri hægt að hnykkja í því.
Ég: „ég fór nú ekki alveg úr öllu síðast sko… ég var í heilbrigðiskerfisnaríunum og brjóstahaldara… má ég semsagt vera í því?“
Ritarinn: „já vinan, þú mátt vera í því en ekki í meiru“
Ég: „ekki einu sinni í sokkunum?“
Ritarinn: „viltu slopp?“
Ég: „JÁ TAKK“
Síðan beið ég í búningsklefanum í þessum annars ágæta slopp, af slopp að vera. Þegar ég var orðin frekar pirruð á að bíða svona berskjölduð tók ég símann upp og sendi snapp myndir á vini, ættingja og vinnufélaga, bæði á dönsku, íslensku og pínu á þýsku.
Ég var í miðju kafi og búin að senda um 37 snöpp þegar Súsanna kallaði á mig… tilbúin að leggjast oná mig nokkurnvegin nakta. Hún eyddi ca. 10 mín í mig… allavega ekki mínútu lengur!
Fyrir það borgaði ég 290kr (hélt annað þegar ég tók myndirnar). 290kr! Það er ódýrt segja þeir… það er mikið dýrara í fyrsta skipti (veit allt um það). Og síðan niðurgreiðir ríkið slatta. Svo líklega eru þeir að fá ca. 500kr fyrir 10 mín x6=3000kall á tímann! Þessvegna nenna þeir að eyða 5 árum í að læra að leggjast oná fólk og hossast. Eða hvað? Og aldrei hef ég heyrt um kíróa í verkfalli…
Ég afpantaði næsta tíma… enda var þetta bara til að prófa og gera mér dagamun -veita mér e-ð. Næst þegar ég ætla að veita mér einhvern dagamun ætla ég að djamma! Fyrir mikið minni pening!
2. Við Aldís vorum heima í dag og henni datt í hug að við bökuðum köku. Já frábær hugmynd, fannst mér. En það vantaði smávægilegt í hana. Aldís var meira en til í að skreppa í kaupfélagið fyrir mig. Ég skrifaði lista og rétti henni… Natron-A38-kakó-mjólk-wc´pappír. Hún spurði hvort það vantaði virkilega wc´pappír?
Já. Hún fór bara að hangsa og dingla sér, og seinna spurði ég hana hvort hún væri ekki að fara út. Jú, þegar hún væri tilfinningalega tilbúin….!!! Hvað er þessu unga fólki í dag? Tilfinningalega tilbúin??? Er e-ð meira mál að kaupa wc´pappír en mjólk? Maður spyr sig!
3. Þegar fólk fer í dagslangar fjallgönguferðir að vetri til er það alltaf með bakpoka í stærra lagi (að mínu mati) með sér. Og það sem ég velti fyrir mér er; hvað er eiginlega í pokunum?!?
Veit manna best að það þarf gott nesti… enda hugsa ég mest um mat af öllu. En 40 lítra af mat efast ég um. Sigrún vinkona fór á fjallgöngu og bakpokanámskeið og lærði þar að það þarf líka að hafa legghlífar og sólgleraugu með í bakpokanum. Kommon, þetta tvennt tekur EKKERT pláss! Að auki hlýtur að vera best að hafa legghlífarnar á leggjunum?. Hún nefndi líka aukaföt… ok, það þarf greinilega hellings aukaföt til að fylla upp í allt þetta pláss! Ég hafði bara ekki grænan grun um að fólk væri skiptandi um föt uppi á tindum landsins í hríðarbyl. En ef svo er, þá vil ég með! Myndi sjálf aldrei taka það til mála að fara úr fötunum þarna… það er nóg að kvennkyns kíróinn láti mig strippa fyrir sig lon og don.. að auki myndi ég frjósa til dauða á örskammri stundu þrátt fyrir heitfengni mína. Ég myndi fenna í kaf og ekki finnast aftur fyrr en voraði, hrakin og samanskroppinn eins og blaut kind. En að öllu gamni slepptu… í alvörunni, hvað er það sem troðfyllir þessa bakpoka á mesta lagi 10 tíma göngu? Annað en nesti, legghlífar og sólgleraugu?
Vona að allir séu tilfinningalega tilbúnir til að eiga góða helgi 🙂