Ég vil vera eins og hinar…
Ætli ég sé ekki áhrifagjörn í ca. meðallagi… þarf ekkert endilega að fylgja straumnum en ef straumurinn er of sterkur get ég hrifist með. Samanber grindargliðnunina í gær. Auðvitað þjáist ég ekkert að grindargliðnun og hef aldrei gert… fékk bara þörf til að vera eins og hinar. Held að grindin mín ásamt öllu utanáliggjandi mælist um 92 cm. Vildi bara vera memm. En ef hún gliðnar um og of þá er ég orðin einum of áhrifagjörn.
(þessi er með grindargliðnun í meira lagi)
Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég alveg nóg af sónarmyndum vinnufélaga minna. Þetta lá eins og hráviði útum allt og mér fannst ég óskaplega útundan. Fór því upp á kvennsjúkadeild og bað þá um að sóna mig. Fékk þessa fínu mynd með mér og veifaði henni stolt restina af vaktinni. Vinnufélögunum fannst nú ekki mikið til hennar koma og spurðu hvað þetta væri eiginlega???
Ég sagði að þetta væri ekki „þetta“ heldur „hún“ og ætti að heita Óvaría. Vinnufélögurnar hristu bara hausinn.
Síðan ég byrjaði á gjörgæslunni fyrir bráðum 4 árum síðan hafa þær sagt hinar ýmsu sögur af kiropraktorum. Hann Sören á Kongevej er víst alveg magnaður! Ég hef aldrei spáð neitt í þetta en um daginn langaði mig óskaplega til að prófa líka. Á íslensku kallast kiropraktor „hnykkjari“. Ég var ekkert laus við skrekk því það eina sem ég þekki til hnykkinga er frá hnykkingartönginni í sveitinni. Ég ákvað að leyfa mér einhvern munað og pantaði tíma í morgun, vaknaði svo í dag, fór í heilbrigðiskerfisnaríurnar og setti á mig smá kinnalit. Heilbrigðiskerfisnaríurnar eru sérstakar naríur, líklega orðnar um 12 ára gamlar, svartar, glansandi með ísaumuðu munstri, á vissan hátt með örlítin kynþokka, þrátt fyrir að hylja allt frá nafla niður að lærum. Þær hafa eingöngu verið notaðar þegar ég þarf að standa á naríunum fyrir framan heilbrigðisstarfsmenn og aðra starfsmenn. Allavega, ég mætti til Sörens á Kongevej með kinnalit, spennt og klár í hnykkingar. Veðrið var dásamlegt og ég lofaði að taka mynd. Ég var reyndar svo upptekin þarna í bakgarðinum hjá honum og lét því ritarann hans bara taka myndina…
Nú get ég líka tekið þátt í umræðunum í vinnunni!